24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

88. mál, vegalög

*Eiríkur Einarsson:

Hv. þm. Hafnf. tekur þar í sama streng og ég, að það muni verða byrjað á þessum vegarkafla, sem er sameiginlegur, hvor leiðin sem svo verður valin. Er það gleðiefni öllum, sem þar eiga hagsmuna að gæta, að um þetta er ekki ágreiningur. En þar sem hv. þm. Hafnf. sagði, að hér væri aðeins um vetrarleið að ræða, en ekki leið til þess að fara eftir árið um kring, þá verð ég að segja það, að ég held því fram, að hann telji nokkuð gefið atriði í málinu það, sem enn er ekki ákvarðað. Því að þó að Þrengslin séu fyrst og fremst ákveðin til þess að vera til þess að tryggja vetrarleið austur, þá er takmarkið með veginum um Þrengslin, að sá vegur geti orðið flutningaleið árið um kring. Ég hefi spurt vegamálastjóra um þetta. Hann hefir lýst því ótvírætt yfir, að það væri hans tilætlun að gera þennan veg svo, að hann yrði einhlítur fyrir ferðalög allar árstíðir. En þegar maður gengur út frá því, að vegurinn um Þrengslin væri fær allar árstíðir, jafnt vetur og sumar, þá er annað sjónarmið, sem hv. þm. Hafnf. gat um. Hann spurði, hvers vegna ætti að nota þennan veg að sumrinu, sem væri 10 km. lengri en vegurinn, sem nú er farinn. Ég verð þar til að svara, að ef vegurinn um Þrengslin er fær árið um kring, þá er of dýrt að halda við tveimur vegum, og þess vegna réttara að nota aðeins veginn um Þrengslin.

Ég viðurkenni, að viðhorf þessa máls breytist töluvert við það að slá því föstu, að veginn um Þrengslin eigi ekki að nota, nema að vetrinum, í neinum kringumstæðum. En undir eins og maður vikur þessu við og segir eins og vegamálastjóri: Takmarkið með veginum um Þrengslin er, að hann verði bæði sumar- og vetrarvegur, jafnfær allar árstíðir, þá lítur málið öðruvísi út. Ég hefi nú í þessu ekki ófróðari mann fyrir mér en vegamálastjórann. Álít ég ekki ástæðu til að vefengja, að þetta sé rétt álit hjá vegamálastjóra. Ef heildarsjónarmið vísa ekki gagngert í aðra átt heldur en sérhagsmunasjónarmið, þá er alltaf hagur af því, frá almennu sjónarmiði skoðað, að sveigja eitthvað til fyrir hagsmunum þeirra færri. En það má ekki sveigja þannig of langt til, að heildarhagsmunir liði við það. Annars er það náttúrlega alltaf elskulegt og gott að geta tekið tillit einnig til hinna fáu. En það má bara ekki vera gert of mjög á kostnað hagsmuna fjöldans.

Hv. þm. Hafnf. sagðist ekki skilja afstöðu mína, þar sem ég héldi því fram, að mér skildist á honum, að það mætti ekki lögfesta þennan veg suður um Krýsuvík, sem á að byggjast á rannsókn, sem er ógerð, á meðan svo stæði, og hv. þm. Hafnf. viðurkennir, að hún er ógerð. Því er þar til að svara, að ég skil því síður í hv. þm. Hafnf., þar sem hann játar fúslega, að rannsókn um þessa vegalagningu sé að miklu leyti ógerð enn, að hann þá skuli samt sem áður vilja það og leggja kapp á það, að áður en rannsókn fer fram í þessu efni, þá sé lögfest að leggja veginn. Venjan er, að rannsókn fari fram fyrst, og síðan séu teknar ákvarðanir, og það því fremur sem um stærri vegagerðir er að ræða. Hér finnst mér hv. þm. Hafnf. vilja hafa endaskipti á hlutunum. Ég ann honum fyrir það, að honum sem bæjarstjóra Hafnarfjarðarkaupstaðar er kappsmál að koma á þessum vegi um Reykjanesið, sem mundi verða þeim bæ til hagsbóta. En hitt er annað mál, hvort hæstv. Alþingi á endilega að lögfesta þennan veg, áður en rannsókn fer fram um málið.