20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

70. mál, Skeiðaáveitan

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

N. hefir athugað þetta mál allrækilega og kynnt sér, hvaða skuldir hvíla á áveitunni ennþá. Og hún hefir komizt að þeirri niðurstöðu að mæla með þessu frv., og er það einróma álit n., að þetta frv. nái fram að ganga. N. byggði þetta á því, að ekki mundu tök á að koma málinu á hreint, eins og nú standa sakir, á annan hátt en þennan. Að vísu hafa einstakir nm. óbundnar hendur um brtt., sem fram kunna að koma. Auk þess er það sérstaklega einn nm., sem hefir haft á orði að koma með brtt. að því leyti, að sömu ákvæðin væru færð yfir á Þingáveituna eins og hér er ákveðið um Skeiðaáveituna. Eins og hv. þdm. er kunnugt, og mun hafa verið tekið fram hér í hv. d., er hér lagt til, að Skeiðaáveituskuldirnar verði gerðar upp á sama hátt eins og búið er að gera um Flóaáveituskuldirnar. Það virðist ekki ósanngjarnt að láta þetta fylgjast að, því að hér er um hliðstæð fyrirtæki að ræða, sem hafa farið langt fram úr áætlun, svo langt, að bændum þarna er algerlega um megn að rísa undir kostnaðinum. Eftir upplýsingum, sem n. hefir aflað sér, lætur nokkuð nærri, að allur kostnaður við Skeiðaáveituna með vöstum af lánum til þessa tíma komist nokkuð upp fyrir hálfa millj. króna. Af þessu hefir ríkissjóður þegar greitt upphaflega sem framlag nokkuð yfir 100 þús. kr., auk þess hefir kirkjujarðasjóður greitt tilskipaðar 35 þús. kr. og loks hefir ríkissjóður greitt um 9000 kr. Ógreidd lán munu hinsvegar vera um 380 þús. kr. Af því eru um 16000 kr. lán úr viðlagasjóði, en hitt mun vera í landsbankanum. Ríkið mun nú þegar hafa tekið að sér þessi lán samkv. l. um Skeiðaáveituna frá 1929, en þeim skilyrðum, sem sett eru í l., ef ríkið taki að sér lánin, hefir ekki verið fullnægt, og ekki verið gengið eftir þeim af þeim ástæðum, að bændur gátu ekki undir þessu risið. Það áveituland, sem hér er um að ræða, er frá 31 jörð. Þar af á ríkið eða kirkjan 6, einstakir menn, sem búa sjálfir á jörðunum, 21, og 1 eru í einstakra manna eign, en í leiguábúð. Land ríkissjóðs er 300 hektarar, land þeirra jarða, sem eru í sjálfsábúð, er 2639 hektarar, og þeirra, sem eru í leiguábúð, 119 hektarar. Alls 3058 hektarar.

Ég þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Það er sem sagt till. n., að málið verði samþ. eins og það liggur fyrir.