28.04.1936
Efri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Pétur Magnússon:

Ég hefi leyft mér að bera hér fram brtt. á þskj. 397. — Fyrsta brtt. er við 1. gr. frv., við skilgreininguna á kvísl. Í frv. er kvísl skilgreind þannig, að hún sé þar, sem á fellur ekki í einu lagi, heldur skiptist um kletta, hólma eða sandeyrar, sem eru upp úr, þegar vatnsborð er lægst. Eftir þessari skilgreiningu á kvísl má ekki veiða öðruvísi í henni heldur en veiða má í á, þar sem hún fellur í einu lagi. Kvísl skoðast að því leyti eins og sérstök á. En þessi skilgreining, að kvísl skuli teljast þar, sem sandeyrar koma upp úr á, þegar vatnsborð er lægst, finnst mér hæpin og geti leitt til þess, að það verði í raun og veru ákaflega mikil vandkvæði á því að skeru úr því fyrirfram, þegar lagt er á vorin og venjulega er mikið vatn í ánum, hvar kvísl geti orðið, þegar fram á sumarið kemur, og hvar ekki. Það vita allir, sem til þekkja, að þegar þurrt er seinni part sumars, þá geta víða komið upp sandeyrar, þar sem á með venjulegu rennsli fellur í einu lagi, og engum manni dettur í hug að tala um, að áin kvíslist. — Þessi skýring á orðinu kvísl er ekki heldur í samræmi við almenna málvenju, því það dettur engum manni í hug að tala um, að á kvíslist, þó að sandeyrar komi upp úr, þegar árnar eru komnar sem kallað er niður í sanda. — Maður skyldi nú ætla, að þetta ákvæði væri borið fram í því skyni að takmarka netaveiði frekar heldur en nú er eftir gildandi lögum, en vitanlega stafar engin frekari bætta af því, þó lagt sé yfir þar, sem einhverjar grynningar eru í ám, heldur en yfirleitt af lögnum, því gera má ráð fyrir, að laxinn gangi einmitt sízt á þeim stöðum, þar sem grynningar eru og þar sem sandeyrar koma upp úr, þegar árnar eru orðnar mjög litlar. Það nær því vitanlega engri átt að halda því fram, að þetta ákvæði sé nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir óhæfilega netaveiði.

Mér er nú sagt, að þetta ákvæði sé í raun og veru aðeins miðað við eina á, eða hluta af einni á, þ. e. a. s. neðri hluta Ölfusár, þar sem nú síðari árin hefir verið veitt nokkuð af laxi hjá Óseyrarnesi í girðingum. En þeim, sem til þekkja þarna, mætti vera það ljóst, að veiði í Ölfusá stafar ekki nein hætta af þessari veiðiaðferð. Áin er þarna 5–6 km. breið, og höfuðállinn er með vesturlandi, en veiðin er stunduð frá austurlandi og lagt yfir ¼ hluta árinnar, svo að laxinn hefir 1–5 km. til þess að ganga eftir. Það má því öllum vera ljóst, að ef það er rétt, að þetta ákvæði sé miðað við þennan stað, þá getur það ekki verið með það fyrir augum að koma í veg fyrir, að laxganga í Ölfusá sé hindruð. Hinsvegar vildi ég mega vænta þess, að hv. þm. gerðu sér það ljóst, að ef þetta ákvæði verður samþ., þá dregur það dilk á eftir sér bæði fyrir ríkissjóð og fyrir sýslusjóð Árnesinga, því í frv. er ákvæði um það, að ef veiðieigandi, sem veiði átti áður en lög þessi komu til framkvæmda, hefir misst veiðinu með öllu fyrir þá sök, að ákvæði laganna fyrirmuna honum að nota þá veiðiaðferð, sem hann áður mátti einni við koma, þá á hann kröfu til skaðabóta samkv. 83. gr. laganna um lax- og silungsveiði. Eyrarbakkahreppur á þessa jörð, sem þarna er um að ræða, og mundi missa alla sína veiði, ef þetta frv. yrði samþ. óbreytt. Þessi veiði hefir gefið hreppnum ekki svo litlar tekjur, og það orkar þess vegna ekki tvímælis, að hreppurinn ætti að fá mjög verulegar skaðabætur, ef lögunum yrði breytt á þennan veg. Þessar skaðabætur eiga að greiðast að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu úr sýslusjóði viðkomandi sýslu, og sannast að segja verður það ekki séð, hvaða vit er í því, þar sem ekki er hægt með nokkrum rökum að halda því fram, að þetta sé nauðsynlegt vegna laxgöngunnar, heldur aðeins til hagsbóta fyrir þá, sem veiði eiga ofar með ánni, að binda bæði ríkissjóði og sýslusjóði slíkan bagga.

Ég hefi nú af þessum ástæðum lagt til, að þessu ákvæði yrði breytt á þann veg, að í staðinn fyrir, að kvísl teljist þar, sem sandeyrar koma upp úr, þegar vatnsborð er lægst, þá teljist hún þar, sem sandeyrar eru upp úr að staðaldri. Þá verður skilgreiningin á kvísl nokkuð í samræmi við almenna málvenju.

Hinar brtt. mínar eru um að fella 5. og 6. gr. frv. niður. — Í þessum gr. er lagt til, að möskvastærðin sé minnkuð úr 4,5 cm. niður í 3,5 cm. Fyrra ákvæðið, sem ég talaði um, mun að sjálfsögðu af formælendum þess vera rökstutt með því, að það ætti að koma í veg fyrir óhæfilega veiði á vissum stöðum í ám, en þessi breyt., sem lögð er til í þessum 2 gr., gengur alveg í öfuga átt. Hún miðar að því að hafa netin svo smáriðin, bæði lagnet og ádráttarnet, að öruggt sé, að enginn lax geti sloppið í gegnum þau. Þessi möskvastærð, 3,5 cm., er ekki stærri en á sæmilega stórriðnu silunganeti. Ég býst að vísu við því, að engir hyggnir laxveiðimenn muni nota sér þetta ákvæði, a. m. k. ekki þeir, sem stunda veiði í lagnet, því það er enginn vafi á því, að netin mundu með þessu móti verða miklu óveiðnari á stórlax. Og má að því leyti kannske segja, að þetta sé ekki hættulegt. En samt sem áður virðist mér, að það sé ástæðulaust að stuðla að því með löggjöf, að allt sé gert, sem unnt er, til þess, að sem mest sé tekið af laxinum, hvort heldur það er í lagnet eða ádráttarnet. Möskvastærðin eins og hún hefir verið er vissulega sízt of stór, og ég vil segja, að frekar hefði verið ástæða til að stækka möskvann heldur en minnka. — Ég hefi því lagt til, að þessar tvær gr. verði felldar niður og möskvastærðin látin haldast óbreytt eins og hún hefir verið. — Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða frekar um þetta, mál að svo stöddu.