08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

122. mál, veitingasala, gistihúshald o. fl.

*Frsm. (Thor Thors):

Þetta frv. er flutt af hv. allshn. óskiptri. Það felur í sér breytingar á l. um veitingasölu og gistihúshald o. fl., nr. 21 15. júní 1926.

Það er svo ákveðið í fyrri málsgr. 2. gr. þessara laga, að enginn megi að staðaldri reka veitingasölu nema með leyfi lögreglustjóra, en við viljum bæta því inn í, að enginn megi án slíks leyfis selja fæði eða láta í té gistingu á skipum í höfn til farþega, sem komnir eru á ákvörðunarstað, eða annara óviðkomandi. Það hefir komið fyrir á undanförnum árum, að erlend skip hafa flutt farþega hingað til lands — til Reykjavíkur — og haft þá í fæði og gistingu um borð á meðan skipið hefir staðið við hér. Þetta mun ekki tíðkast erl., þar sem það þykir hvarvetna rétt að gefa innlendum gistih. vernd gegn slíkum fljótandi gistihúsum. Og hér á landi, þar sem gistihúsahald er mun erfiðara heldur en annarsstaðar, er óhjákvæmilegt, að innlend gistihús njóti þessarar verndar. En ég skal taka það fram, að í ferðum innlendu skipanna kringum land, þar sem nokkur viðstaða verður á endahöfn norðanlands — Akureyri —, þá ætlumst við flm. frv. til þess, að farþegum yrði leyft að vera á skipsfjöl í fæði og gistingu þann stutta tíma, sem skipin dvelja í höfn.

Við teljum rétt að gera ráð fyrir, að ákvörðunarstaður sé það, þegar skip kemur aftur til þeirrar hafnar, sem það lagði út frá. Væri hinsvegar einhver vafi á því í einstökum tilfellum, þá er náttúrlega kleift fyrir viðkomandi lögreglustjóra að veita þetta leyfi hverju sinni. Ég vil að lokum mælast til þess, að þetta frv. fái greiðan gang, svo að það geti orðið að l. áður en til þingrofs kemur.