18.03.1937
Neðri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

64. mál, loðdýrarækt og loðdýralánadeild

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Frv. þetta er flutt af okkur hv. 2. þm. N.-M. að tilhlutun landbrh. En hann hefir látið nokkra áhugasama og kunnuga menn þessum málum semja frv. Skal ég ekki fara langt út í efni þess. Þess gerist ekki þörf, meðfram vegna þess, að frv. svipaðs efnis og þetta lá fyrir þessari hv. d. á síðasta þingi og var þá rækilega útskýrt af hv. þm. A.-Sk. Auk þess fylgir frv. allýtarleg grg.

Aðalefni frv. er fyrst og fremst að koma á fastri skipun um loðdýrarækt og loðdýraeldi, föstu eftirliti og leiðbeiningastarfsemi af hálfu ríkisins um þessa nýju atvinnugrein. M. a. er hér reynt að tryggja eftirlit með refabúunum, til þess að koma í veg fyrir það, eftir því sem unnt er, að dýr sleppi úr eldi og valdi tjóni á sauðfé landsmanna. Og í síðasta lagi er frv. miðað til þess að tryggja það, að fyrir hendi verði á næstu árum fé, sem sérstaklega sé til þess ætlað, að lána til þess að koma upp loðdýragörðum.

Ég skal strax láta þess getið, að þó að við hv. 2. þm. N.-M. höfum flutt frv. eins og það liggur fyrir, þá eru þó nokkur ákvæði í því, sem ég geri ráð fyrir, að við mundum vilja athuga nánar í þeirri n., sem gera má ráð fyrir, að fái frv. til athugunar og við eigum sæti í.

Ég skal geta þess, að inn í 22. gr. hefir komizt prentvilla, sem stafar af því, að við breyttum þeirri gr. ofurlítið. Það 4 þús. kr. hámark, sem þar er til tekið, á að falla burt.

Í 22. gr. er talað um, að lána megi mönnum út á loðdýr nokkrum saman, og er það gert til þess, að mönnum verði unnt að fá lán til þessarar starfsemi, enda þótt þeir hafi ekki aðrar tryggingar. Það er litið þannig á, að ef ekki er lánað út á nema 40% af verðmæti loðdýrabúanna, þá geti þau verið nokkurn veginn tryggt veð.

Nú er ætlazt til, að stefnt sé að því, að lánað sé til margra og smærri búa, til þess fyrst og fremst að dreifa þessu fé sem mest meðal bænda í landinu, og í öðru lagi til þess, að á meðan menn eru að kynna sér þessa atvinnugrein og læra meðferð á dýrunum, þá sé ekki lánað mikið til hvers eins, til þess að áhætta verði sem minnst í sambandi við lánin. Þó er heimild í frv. til þess að lána nokkru meira, ef í hlut á félag, sem menn mynda um loðdýrarækt. Því að mönnum gæti þótt hagkvæmara að mynda kannske allstór félög um þessa alidýrarækt og fá færan mann frá útlöndum á meðan þekking á þessum hlutum er ekki fullkomin hjá okkur. Og í þeim tilfellum er ætlazt til, að lána megi allt að 60% af andvirði loðdýra og loðdýragarða og allt að 500 kr. á félagsmann, ef þeir hafa fullkomna samábyrgð um fyrirtækið. En í frv., sem fyrir okkur var lagt, voru þau takmörk sett, að þessi upphæð, sem lána mætti til loðdýrabús, sem væri eign félags, mætti ekki vera meiri en 4 þús. kr. Þetta 4 þús. kr. hámark hefir láðst að nema burt þegar gamla frv. var breytt, því að þó að þetta hámarksákvæði sé í þessari 22. gr., þá var það ekki meining okkar flm., að það stæði þar.

Ég ætla ekki að fara út í einstakar gr. frv. Ég geri ráð fyrir, að allir, sem áhuga hafa fyrir þessu máli, hafi lesið frv. og skýringarnar í grg. Vil ég aðeins að endingu segja það, að loðdýraræktarmálið er mjög mikilsvert mál og nauðsynlegt fyrir þjóðina, að hafizt sé handa um að auka þá atvinnugrein í landinu. Fyrst og fremst má geta þess, að aðstaða okkar Íslendinga er mjög góð til þess að stunda þessa atvinnugrein, eftir því sem gerist og gengur í löndum, og sennilega óvíða betri. Ég hygg, að reynslan sé búin að sýna, að loðdýraeldi sé engu síður hagkvæmt og arðsamt hér en í Noregi. En þar er það orðið svo stór atvinnugrein, að útflutningur af henni mun hafa undanfarið numið um 30 millj. kr. á ári. Það eru miklar líkur til þess, að ef allrar varfærni er gætt og öll þekking hagnýtt, sem unnt er að fá í loðdýrarækt, utanlands og innan, til loðdýraræktar hér á landi, þá geti áður en langt líður þessi atvinnugrein orðið ein höfuðatvinnugrein landbúnaðar okkar og útflutningur fyrir þessa starfsemi orðið hluti, sem um munar, af okkar útflutningsvörum. Og sérstaklega er nú ástæða til að gefa þessum málum gaum og leggja áherzlu á þau, þegar sá vágestur, sem borgfirzka sauðfjárpestin er, er vel á vegi með að leggja í auðn suma hluta landsins hvað sauðfjárrækt snertir. Það er því eðlilegt, að menn grípi eins og sökkvandi maður hálmstrá hvern nýjan möguleika til atvinnu, til þess að framfleyta fjölskyldum sínum. Og loðdýraræktin er eitt af þeim ráðum, sem verður að grípa til.

Af þessu, sem ég hefi upp talið, er það sýnt, að við Íslendingar verðum að leggja verulega áherzlu á þessa nýju atvinnugrein. Og ég lít svo á, að þó að ýmislegt megi finna að frv. þessu, þá sé það samt stórt og þýðingarmikið spor í þessa átt.