24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Mér er það ekkert kappsmál, hvaða form er haft á þessu. En um hitt var sjútvn. á einu máli, að þessu fé bæri að verja til áframhaldandi skuldaskila vélbátaútvegsins, svo langt sem það hrykki.

Það má vel vera, að hægt sé að gera nægileg ákvæði um þetta með einfaldri þáltill. En það samkomulag, sem gert var um að verja talsverðum hluta af því fé, sem upphaflega var ætlað til skuldaskila fyrir vélbátaeigendur, til skuldaskila fyrir eigendur línuveiðagufuskipa, er nú verið að staðfesta með þessum lagafyrirmælum, þannig að mér skilst, að samkv. því verði að vera sú endanlega lausn á málinu, að þetta verði að vera áframhaldandi starf sjóðsins. Hinsvegar hefi ég ekki á móti því, að afgreiðslu þessa frv. sé frestað, svo að atvmrh. geti borið sig saman við sjútvn., ef hann vill gera á því breytingar. Ég segi þetta þó aðeins fyrir mitt leyti.