09.03.1937
Neðri deild: 17. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Jón Sigurðsson:

Ég skal ekki teygja þessar umr., enda er fátt manna hér í d. En ég kunni ekki við að láta málið fara svo frá þessari umr., að segja ekki um það nokkur orð.

Ég get tekið undir það með hv. frsm., að þörfin er mikil á umbótum hvað snertir byggingamál okkar. Það, sem sérstaklega liggur hér fyrir hendi, er í fyrsta lagi það, að það hefir verið tilfinnanlegur skortur á fé til bygginga í sveitum. Það er alkunnugt, að það liggja fyrir byggingar- og landnámssjóði og ræktunarsjóði lánbeiðnir frá ári til árs. Og það er líka fullkunnugt, að mjög margir sækja ekki um lán af því, að þeir vita fyrirfram, að það þýðir ekki neitt. Loks er stór hópur manna, sem ekki leita til lánsstofnananna af þeirri einföldu ástæðu, að þeir sjá ekki nokkra minnstu möguleika á því, að geta staðið undir þeim lánum, sem útheimtast til þess að koma upp sæmilegum byggingum. Þannig er ástandið í raun og veru í sveitunum. Þetta er það, sem við verðum að horfast í augu við, og ég vil fullyrða, að þetta ástand er því verra fyrir það, að það hefir stöðugt farið versnandi, eftir því sem lengra hefir liðið, að því er ég þekki bezt til.

Hv. síðasti ræðumaður komst ofurlítið inn á það, að það mundi verða örðugt að setja veð og að það m. a. væri tilefnið til þess, að þetta frv. kom fram. Þetta er vitanlega alkunnugt, og það er augljóst mál, að sá maður, sem hefir veðsett fyrirfram bæði jörð sína og allt sitt í kreppulánasjóði, hann hefir ekki mikla möguleika. Hann hefir ekkert veð til að setja, þegar húsin á jörðinni eru komin að falli, því reynslan hefir sýnt, að jarðirnar hækka sáralítið í verði, þótt búið sé að byggja á þeim. Þannig er ástandið, og það þýðir ekki að ganga framhjá því. Það þýðir ekki fyrir byggingar- og landnámssjóð að lána út á veð, sem skapast fyrir byggingu íbúðarhúss eða annara húsa. Sú stofnun hlýtur jafnframt að ganga út frá því að tapa svo eða svo miklu. Þegar menn líta á þessar ástæður, þá hlýtur hverjum einum að vera það ljóst, að þau vandræði, sem hér um ræðir, séu ekki leyst með þessu frv. Það er reynt að sletta á þetta bót, og mér skilst ástæðan vera það öngþveiti eða þau vandræði, sem nýbýlanefnd er komin í vegna þessara örðugleika í sveitunum.

Hv. frsm. gat þess, eins og flestir vita, að mikil eftirspurn væri eftir þessum lánum, nýbýlalánunum. Þar er gefinn kostur á, ekki einungis byggingalánum, heldur líka allverulegum styrk, er ég ætla, að sé um 1500 kr., og er eðlilegt, að menn líti á það. Nú eins og hann gat um, þá eru hús víða komin að falli, og það er nokkuð erfitt stundum að greina á milli, eða stappar a. m. k. nærri, að megi heita nýbýli, þegar byggt er upp á slíkum jörðum, og þó er það náttúrlega alls ekki. En ef ekkert verður gert til þess að veita mönnum stuðning til að koma upp sæmilegum íbúðarhúsum á þessum jörðum, þá leiðir það ekki til annars en þess, að margar þeirra verða bókstaflega lagðar niður. Menn leggja þær niður til þess að komast undir ákvæði nýbýlalaganna. Mér er ekki grunlaust, að sumstaðar, þar sem farið er að skipta jörðum og látið er í veðri vaka, að byggja eigi nýbýli, þá verði reyndin sú, að engin nýbýli séu byggð. Það er að vísu byggt upp á jörðinni, en hvað er hægt að átelja það, þótt flutt sé úr gömlu húsaræflunum, sem eru að hrynja? Og hver vill svo taka við jarðarpartinum, sem er fallinn að húsum? Þessi jarðarpartur fer í eyði, og eftir nokkur ár fær nýbýlasjóður tækifæri til þess að byggja upp á þessum jarðarpartinum líka. Þetta er staðreynd, sem verður að horfast í augu við, og þýðir ekki annað en taka þessi mál talsvert föstum og ákveðnum tökum, til þess að komast hjá þessu braski, sem fullar horfur eru á, að nýbýlalögin ætli að koma á í sveitunum, vegna vandræða almennings.

Þá er í 2. gr. talað um ýms skilyrði, og m. a. skilst mér, að ætlazt sé til þess, að þeir einir komi undir þessi ákvæði og fái styrk, sem hafi bæjarhús, sem eru þannig, að heilsu manna stafi tjón af. Annars sýnast mér þetta sömu ákvæðin og í lögum um byggingar- og landnámssjóð.

Eitt af því, sem ég felli mig illa við í þessu, er, að það skuli lagt undir dóm nýbýlanefndar, hvort mönnum skuli veittur slíkur styrkur. Ég álít, að þegar um slíkan styrk er að ræða og þennan, þá verði að vera þannig frá gengið, að allir, sem falla undir ákveðin skilyrði, eigi heimtingu á að fá hann. Það er ótækt, að nefndin, sem er einlituð í pólitík, eigi að vega og meta, hvort þessi maður eigi að fá styrk eða hinn o. s. frv. Það er mjög óheppileg leið, og ég veit ýms dæmi til þess, að talsverð tilhneiging sé til þess að misnota þetta. Þar með er ekki sagt, að n. hafi beitt valdi sínu á þann hátt. Hvað því viðvíkur, að binda sig við það, að bæjarhúsin séu undir 1000 kr. virði, er enginn mælikvarði, vegna þess, að það fer ekki eftir mati á verðgildi húsanna, þegar fasteignamatið fór fram, heldur eftir allt öðru. Hús, sem metin eru á 1500–2000 kr., geta verið óhæfari til íbúðar en hús, sem eru undir þús. kr. Þetta þekki ég vel, og gæti ég nefnt dæmi því til sönnunar. Stór hús, sem eru meira eða minna fúin og farin eru að hripleka, geta verið miklu óhæfari til íbúðar en lítill bær, sem hefir góða og stæðilega baðstofu, þótt hann sé metinn undir þús. krónum.

Um ákvæði 4. gr. skal ég ekki ræða. Það er eitt af því, sem koma á í heilann á þeim mönnum, sem að stj. standa, að leggi ríkið eitthvað til sveitanna, þá sé það óendurkræft. Þetta er sama áframhaldið og jarðræktarlögin, og ætla ég ekki að hefja umr. um það að þessu sinni. En það, sem ég finn þá að þessu frv. í heild, er það, að það leysir í raun og veru alls ekki þau vandræði, sem eru í sveitunum. Til þess þarf miklu ákveðnari tök og mikið á annan veg. Eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá þarf hvorttveggja í senn, að auka fé til bygginga og í öðru lagi þarf að veita styrk, þannig, að menn geti komið sómasamlegum skýlum yfir sig. Ef þetta verður ekki gert, má búast við, að mjög margar jarðir leggist í eyði á næstu árum og fólkið flýi. Og ég get ekki séð, að kaupstaðirnir séu viðbúnir að taka á móti þeirri viðbót, sem af því mundi leiða.