02.03.1937
Neðri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (1264)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. 1. flm. talaði hér um það, að önnur till. í frv. þessu færi fram á að auka valdsvið útvarpsráðs með því að þeir menn, sem eru fastráðnir starfsmenn og vinna listræn störf við útvarpið, fræðslu- og fréttastörf, skuli ráðnir eftir till. útvarpsráðs. Ég get nú upplýst það, að ráðning þessara manna, nema fréttamanna, er framkvæmd af útvarpsráði. Og mér er ekki kunnugt, að ágreiningur hafi orðið út af þessu milli ráðh. og útvarpsráðs. Ég held því, að þessi ágreiningur út af fréttaflutningnum sé ekki á borði, heldur í orði. Ég álít ekki rétt, að útvarpsráðið ráði fréttaflutningnum. Hv. flm. tala um, að óánægja ríki með fréttaflutninginn, en mér er ekki kunnugt um það. Það hefir að vísu nokkuð verið reynt að vekja slíka óánægju, en það hefir aftur fallið niður jafnharðan. Ég hefi engar kvartanir fengið, og væri það ólíklegt, ef almenn óánægja ríkti, að ég hefði engar umkvartanir fengið.

Og mér finnast litlar líkur til, að það myndi fremur verða til að koma í veg fyrir óánægju, þótt ráðh. skipaði engan af þessum mönnum. Það leiðir auk þess af sjálfu sér, að hvaða ráðh. sem væri gæti engin áhrif haft á skipun útvarpsráðs. Nú skipar hann einn mann af 7, og minna getur það að sjálfsögðu ekki verið.

Hv. frsm. sagði réttilega, að rekstrarkostnaður af útvarpinu væri borinn uppi af hlustendum. Þó er þetta ekki að öllu leyti rétt. Allan stofnkostnað hefir ríkið orðið að bera.

Ég mæli ekki á móti því, að frv. gangi til n., en ég mun greiða atkv. gegn því við atkvgr., því að ég tel það sízt til bóta.