02.03.1937
Neðri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (1273)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það er alls ekki, að þessi aths., sem verður að vera stutt, sé til þess að bera af mér sakir, því að ef sakir hafa verið á mig bornar af hv. 9. landsk., þá eru það ómerk orð, sem ég tek ekki sem meiðandi. Það gladdi mig að heyra, að hæstv. fjmrh. tók þannig í strenginn, sem hann gerði. Það sýnir, að þetta kemur við kaunin á fleiri mönnum innan stjórnarflokkanna en þeim, sem eru á vegum útvarpsins. Það er vel, því að eins og hv. 6. þm. Reykv. hefir tekið fram, er þetta allt í sameiningu hvað við annað, vísvitandi og óafvitandi, áróðurinn í útvarpinu og stjórnarfarið í landinu; þetta er gert í þágu þessara stjórnarflokka, og það hefir hæstv. ráðh. játað. Hinsvegar er það ofmælt hjá honum, eins og oftast er, þegar hann talar og gætir þess ekki, að hans barnaskapur er ekki sama og skoðun almennings, að útvarpið sé viðurkennt að vera hlutlaust. Hann hefði átt að heyra, þó ekki væri nema það, sem sagt hefir verið innan þingsins, því að einhverju leyti verður hann að virða þingmennskuna. Þar sem því hefir verið haldið fram af heilum flokki í þinginu, að útvarpið væri hlutdrægt, þá getur það ekki verið almennt viðurkennt hlutlaust. Það getur verið skoðanamunur um það, hversu langt hafi verið gengið í einstökum tilfellum, og eins hversu langt megi ganga.

Ég hefi í rauninni engu frekar til að svara hv. 9. landsk. Þessi æsingagarpur var nú orðinn æðimáttlaus; vindurinn er rokinn úr belgnum, svo að ekki er þörf á að stinga frekar á, en þar sem hann var að tala um, að það væri mikill ljóður á ráði mínu, að ég hefði horfið aftur til kirkjunnar, þá vil ég segja, að það er einkennileg yfirlýsing á sama tíma sem hann er að búa sig undir að komast inn í háskólann til þess að uppala þjóðina. Hann ætti frekar að gleðjast yfir þessu. Þetta sýnir, hvað það er í rauninni andstætt þessum manni að taka að sér starf eins og kennarastarf við háskólann; það er allt á sömu bókina lært, það er einskonar „spekulation“.

Ég vil geta þess viðvíkjandi þeirri persónu, sem ég átaldi fyrir að hafa skeikað á óheppilegum stað og tíma að því er snertir efnið í þessari barnafræðslu, að ég hlustaði ekki á þetta, og geri það ekki nema ég fyrirfram viti, að eitthvað hafi verið auglýst, sem mig langar til að heyra. Mönnum, sem eiga börn, er ekki sama, hvað sagt er við börnin. Hv. 9. landsk. á líka börn, og hann hefir vafalaust þær tilfinningar líka í einhverjum mæli.

Hv. 9. landsk. talaði um blöðin í þessu sambandi; hann leggur að líku pólitískt einhliða flokksblað og útvarpið. Hann hefir tekið stöðu sína í ríkisútvarpinu eins og hann væri að skrifa í Alþýðublaðið.

Það er ekki ófróðlegt að skjóta því inn í, að þegar hv. þm. var að lasta með hrópyrðum, svo að hann var áminntur úr forsetastóli, blað, sem tilheyrir ákveðnum stjórnmálaflokki, með orðbragði, sem hann tók aftur í næstu ræðu sinni, þá er einkennilegt að bera það saman við þá umsögn, sem útvarpsstjóri hefir látið frá sér fara um blöðin. Hann hefir ekki áfellzt neitt blað, og það eru til ummæli frá honum til ritstjóra Vísis, þar sem því er lýst yfir, að Vísir sé eina blaðið, sem fari fullkomlega heiðarlega með fréttir útvarpsins. Skeiki að einhverju leyti heiðarleikurinn í meðferð þessara frétta blaðanna frá útvarpinu, þá er það ekki, eftir því sem þessi maður segir, sem bezt veit um þetta, Morgunblaðið eitt, svo að hér hefir hv. 9. landsk. hlaupið nokkuð á sig, ef hann ætlar að tala fyrir hönd útvarpsins það, sem hann ber hér fram sem ákæru á hendur Morgunbl.

Ég skal nú ekki hafa þessa aths. lengri. Í mínu máli hefir komið fram það, sem þurfti, og þó ég hafi ekki haft ræðu mína skrifaða, þá hefi ég hér skrifaða punkta, staðreyndir, sem komu fram í útvarpinu frá ýmsum mönnum, og svo framarlega sem handritin að þessum erindum eru til, er hægt að ganga úr skugga um, að þessar staðreyndir, sem ég hefi bent á, eru réttar.