04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (1286)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Það var hv. 6. þm. Reykv., sem tók eitt dæmi í síðustu ræðu sinni til þess að sanna, hvað útvarpið væri hlutdrægt. Ég held, að honum hafi ekki tekizt það sem bezt, sem ekki var heldur von eftir því sem efni stóðu til. Hann veik ekki að fréttaflutningnum núna, heldur að starfi útvarpsráðs og vali á mönnum til þess að flytja erindi í útvarpið. Nú er það útvarpsráðið, sem er orðið hlutdrægt. Hv. þm. taldi það pólitíska hlutdrægni, að Guðmundi Friðjónssyni skáldi var ekki gefinn kostur á að flytja erindi í útvarpið eins og hann hefði kosið. Ég hefi leitað upplýsinga þessu viðvíkjandi hjá útvarpsráðsmönnum, og mér er sagt, að um þetta hafi ekki orðið neinn ágreiningur. Þar eiga þó sæti tveir ákveðnir sjálfstæðismenn, og ég hefi það fyrir satt, að um þetta hafi orðið fullt samkomulag innan útvarpsráðs. Um pólitíska hlutdrægni getur því ekki verið að ræða. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Það liggja ástæður til þess, að Guðmundur Friðjónsson hefir ekki komizt að að flytja svo oft erindi í útvarpið eins og hann hefir óskað. Það er augljóst, að þær hafa verið metnar af útvarpsráði nægilega til þess að verða ekki við þessu.

Þá sagði þessi sami hv. þm., að ég sem ráðh. hefði misnotað útvarpið freklega, en hann tók það ekki fram, í hverju það hefði legið. Ég verð því að telja það sem eina af mörgum fullyrðingum hans. Hlustendur verða að dæma um það, og ég verð að hlíta þeim dómi. Sjálfur neita ég því, að ég hafi misnotað útvarpið nokkru sinni í mínum erindum.

Hv. þm. fullyrti, að ég hefði gefið rangar upplýsingar um verð á saltfiski og með því gefið undir fótinn grunsemdum um, að vissir menn stælu af fiskverðinu. Ég verð að segja, að þessi fullyrðing hv. þm. kemur mér undarlega fyrir eyru, og ég kannast ekki við slíkt. Þær upplýsingar, sem ég flutti í yfirlitserindi mínu, að ég ætla um áramótin 1935, um það bil er nýja sölusamlagið var stofnað, voru byggðar á upplýsingum frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda og sumpart frá fiskimálanefnd. Þessum fullyrðingum hv. þm. vil ég því vísa á bug sem rakalausum ósannindum, að ég hafi verið með aðdróttanir um, að vissir menn stælu af fiskinum. Það eru ekki til önnur orð yfir það — hvernig sem hæstv. forseta líkar — en að segja, að það sé hrein og bein lygi. (SK: Hver sagði það?). Hv. þm. sagði, að ég hefði „gefið undir fótinn þeim orðrómi, að vissir menn stælu af andvirði fiskjarins“. Þannig orðaði hann það. Ef hv. þm. sér eftir að hafa viðhaft þessi orð, þá bendir það bara til batnandi hugarfars.

Við hv. þm. Vestm. hefi ég ekki meira að segja. Hæstv. fjmrh. tók það skýrt fram, sem mestu skiptir í þessu máli, að það er ósannað, að þau orð, sem Sigurði Einarssyni eru lögð í munn, hafi verið sögð af honum. En jafnvel þó að svo hefði verið, þá hafa þau verið töluð á ábyrgð hlutaðeigandi manns, en hinsvegar útvarpsráðs að líta eftir því, ef um móðgun hefði verið að ræða, og gefa honum þá áminningu. — Ég var ekki að ávíta hv. þm. fyrir það að vera að hreyfa þessu máli án þess að hafa umboð til þess frá hlutaðeigandi þjóð. Það datt mér ekki í hug, og að sjálfsögðu hefir hann sinn þingmanns- og borgararétt að hreyfa hvaða máli sem er fyrir þingi. En þessum hv. þm., sem er svo annt um, að meðferð utanríkismálanna fari vel úr hendi, ætti að vera ljóst, að það er vafasamur þegnskapur við sína eigin þjóð, meðan ekki er sannað, að þessi ummæli hafi verið sögð, að ala á því, að útvarpið sé notað til þess að ófrægja erlenda stórþjóð, sem við höfum viðskipti við. — Það er mjög vafasamur þegnskapur við sína eigin þjóð, en það er það, sem þessi hv. þm. hefir gert ásamt hv. þm. V.-Sk., en þó meira hv. þm. Vestm.