18.03.1937
Neðri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (1304)

43. mál, opinber ákærandi

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég skal reyna að vera stuttorður, enda er orðið svo liðið á fundartímann, að ég hefi ekki langan tíma til andsvara.

Ég ætla þá að byrja á því, að benda á það, sem hv. flm. endaði á að tala um, að stjórnarflokkarnir hafi talið sig fylgjandi því, að settur yrði opinber ákærandi, en þegar þeir hafi tekið við völdunum, hafi þeir ekki fundið ástæðu til þess að gera það, vegna þess að þeir hafi viljað hafa ákæruvaldið í sínum höndum til þess að geta misbeitt því.

Hugsanagangurinn í öllu þessu er álíka ljós eins og í frv. sjálfu, sem ég skal síðar koma að, því að eins og hv. þm. Barð. benti á, er það ekki fyrirbyggt með ákvæði nokkurrar gr. frv., að sá maður, sem yrði opinber ákærandi, skipti sér af stjórnmálum og yrði þm. í þessari hv. d. eða hinni d., eftir því sem verkast vill, yrði pólitískur maður, sem heyði baráttuna hér á Alþingi.

Ef sá maður, sem nú fer með ákæruvaldið, væri álíka réttsýnn eins og hv. ræðumaður vill vera láta, hvað hefði þá verið upplagðara en það, að taka samstundis við frv. 1934 og setja pólitískan mann í embættið um aldur og æfi, sem hefði verið skipaður af konungi og ekki hefði verið hægt að hreyfa þaðan í burtu nema með dómi?

Hugsanagangurinn í þessum málflutningi hv. flm. er sá, að það myndi fást fullnægjandi lausn á málinu með því að taka við frv. og skipa í þetta starf mann, sem gæti misnotað ákæruvaldið, á meðan honum entist aldur til.

Ég ætla að hafa þessi síðustu orð hv. flm. að mínum inngangsorðum.

Um frv. sjálft er það að segja, að það væri vitanlega fráleitt, eins og ég veit, að allir lögfræðingar, sem hér eru í þessari hv. d., sjá, að ganga frá frv. eins og það er nú, því að fyrir utan það, að þetta frv. tryggir það ekki, að sá maður, sem með þessi mál á að fara, skipti sér ekki af stjórnmálum, þá er frá þessu frv. þannig gengið, að hinn opinberi ákærandi á að taka við starfi dómsmrn., en það er fráleitt, að hinn opinberi ákærandi geri.

Allir, sem hafa fengizt við meðferð opinberra mála vita, að það, sem mestu máli skiptir, er það, hvernig farið er með rannsókn málsins í undirrétti. Það ætti því að vera lögð hin mesta áherzla á það, að hinn opinberi ákærandi eða fulltrúi hans fylgdist með rannsókn málsins, á meðan hún stæði yfir í undirrétti, en það er ekki gert ráð fyrir þessu í frv., heldur á hinn opinberi ákærandi að vera sækjandi í hæstarétti, sem er atriði, sem skiptir litlu máli. Það, sem meginmáli skiptir, er það, að rannsókn undirréttar fari samvizkusamlega fram, og það er það, sem þessi maður ætti að passa upp á. (GÞ: Gera saksóknarar ríkisins í Danmörku það?) Það gera þeir auðvitað í öllum meiriháttar málum. Ég býst við því, að ef þessi hv. þm. hefir ekki séð það erlendis, þá ætti hann að hafa fylgzt með því, að jafnvel í bíó fer rannsókn málsins þannig fram, að ákærandinn mætir þar, til þess að geta fylgzt með rannsókninni.

Það er ekki minnzt á þessi einföldu atriði í frv. Ég veit það að vísu, að sá, sem ber þetta frv. fram, hefir ekkert fengizt við meðferð opinberra mála, en þetta sýnir, að hann hefir ekki kynnt sér það mál, sem hann ber fram.

Það hafa komið fram árásir á mig í sambandi við þetta mál. Ég skal fara fljótt yfir sögu, því að ég get látið mér í léttu rúmi liggja þær ákúrur, sem komið hafa fram á mig fyrir misbeitingu á ákæruvaldinu. Á öllum þeim eldhúsdögum, sem farið hafa fram hér á Alþ. síðan núverandi stj. tók við völdum, hefir það ekki verið sparað að deila á ríkisstj., en þeim, sem deilt hafa á ríkisstj., hefir aldrei þótt ástæða til að deila á dómsmrh. fyrir réttarfarið. Það hafa engar aðfinnslur komið fram út af því. Ég hygg því, að um nokkra nýbreytni sé að ræða í þeim málum hér á Alþ. Ég hygg, að þeir menn, sem hafa sjálfir fengizt við rannsókn opinberra mála og vita því, hve frelsisskerðingar eru alvarlegt atriði, verði tregari til þess að misbeita ákæruvaldinu en þeir, sem aldrei hafa fengizt við þau mál. Við, sem höfum fengizt við meðferð opinberra mála í 10 ár, vitum of vel, hvað frelsisskerðingar hafa að þýða, til þess að við misbeitum þessu valdi, þegar við erum komnir í dómsmálaráðherrasæti. Þetta hefir heldur ekki verið gert.

Þessi hv. þm. byrjaði á því að minnast á þau mál, sem áttu sína sögu, áður en ég tók við völdum sem dómsmrh. Hinn minntist á Tervanimálið og taldi það misbeitingu á réttarfarinu, að það mál var látið falla niður. Ég man ekki greinilega sögu þessa máls; ég man aðeins, að það höfðu ekki einusinni verið til áhöld í bátnum, sem tók hinn enska togara, til þess að gera mælingar með. Það var sagt, að miðanir hafi verið gerðar með því að gera ristu með nagla í borðstokk bátsins, og allt var yfirleitt eftir því. Málið féll niður, af því að það var ekki einusinni háðung og skömm fyrir íslenzka réttargæzlu, heldur var það einnig skömm fyrir íslenzka ríkið, og hefði getað haft alvarlegar afleiðingar, ef við hefðum látið bera slíka hluti fram í rétti og skjöl málsins hefðu komið til Englands. Ég hygg því, að það hafi ekki verið umhyggja fyrir hinum enska togaraskipstjóra, heldur beinlínis umhyggja fyrir hinu íslenzka ríki, sem réð því, að þetta mál var látið falla niður.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins fara langt út í önnur málaferli, en vil snúa mér að þeim málum, sem ég hefi haft með að gera og deilt hefir verið á mig fyrir, hvernig ég hafi afgreitt.

Það er þá fyrst ákæran gegn nazistunum. Í því sambandi var fundið að því, að ég hafi fyrirskipað, að dómur gengi í því máli, en ekki skipt mér af máli, sem viðkom kommúnistum hér í bænum eða blaði þeirra, þar sem birtur hafi verið í því útdráttur af samningi við Þýzkaland. Það hafi ekki heldur verið höfðað mál gegn Héðni Valdimarssyni fyrir birtingu á samningi, sem honum hafi ekki verið leyfilegt að birta, og í þessu sambandi var jafnvel minnzt á skrif Jónasar Jónssonar um Spánarmálin. Ég hygg rétt að upplýsa það hér í þessari hv. d., og ég verð að ímynda mér, að hv. flm. viti, að skv. 81. gr. hegningarl, er það refsivert, að ljósta upp samningum eða ráðagerðum, sem snerta heill og velferð ríkisins, en í dönsku lagagr., sem þessi gr. er þýðing á, er textinn nokkuð öðruvísi. Það hefir verið deilt talsvert um það hér á landi, hvort þetta ákvæði í íslenzka textanum „heill þess“ tæki yfir það sama og dönsku orðin „Statens Sikkerhed“ í danska textanum. Það hefir verið talið af sumum, að það mætti skýra íslenzka textann þannig, að hann tæki einnig yfir það, sem væri fjármálalegs eðlis, en í skýringu með danska textanum er það tekið fram, að „Statens Sikkerhed“ taki ekki yfir annað en það, sem snerti hernaðarlega þýðingu fyrir ríkið. Þess vegna var l. breytt í Danmörku árið 1930, þannig að gr. var látin ná yfir allt, sem snertir ráðagerðir, fjárhag eða samninga ríkisins við önnur ríki eða einstaklinga í öðrum ríkjum og gr. þannig ná yfir meira heldur en hún nær yfir í danska textanum. Það var því sjálfsagt, þegar farið var að bera á þessari misnotkun hér, að láta dóm ganga um það, hvort íslenzka gr. tæki yfir þetta atriði eða ekki, og það er nú búið að sýna sig með þeim dómi, sem gengið hefir um þetta mál, að gr. nær ekki yfir þetta atriði að áliti undirdómarans. Það er því sýnt með þessum dómi, að hér er hin sama þörf og í Danmörku á að breyta þessari lagagr., en þegar lagagr. er breytt, er það venja, að dómstólarnir séu látnir skera úr því fyrirfram, hvort þess sé þörf.

Við þekkjum það úr veraldarsögunni, að misbeiting ákæruvaldsins gengur ekki fyrst og fremst út á það, að láta ákæra og dóm ganga; alvarlegasta og hættulegasta misbeitingin er í því fólgin, að fyrirskipa langvarandi rannsóknir á hendur einstökum mönnum, skrifa síðan um málið og reyna að mynda skoðun um það, en láta síðan aldrei dóm ganga um málið. Þessir nazistadrengir hafa sannarlega ekki fengið meiri áminningu en þeir eiga skilið, þótt dómur hafi verið látinn ganga um þeirra mál. Það er ekki annað en tilviljun, að svona aðferðum hefir ekki verið beitt og að ekki eru til nein ákvæði hér, eins og í nágrannalöndunum, sem ná yfir þennan verknað. Það er þess vegna, að sú ádeila, sem kemur fram af þessu, ætti að fara að skýrast fyrir hv. þdm., þótt ég búist ekki við, að hún skýrist fyrir sjálfum flm. Hann ber hér höfðinu við steininn, þar sem hann talar í þessu sambandi um mál, sem aldrei kom fyrir dómsmrh. Hann álítur, að það sé hlutverk dómsmrh. að eltast við mál, vera opinber ákærandi, lögregla, sem leitar uppi allar aðfinnslur til þess að höfða mál út af þeim. Hefðu Ísfirðingar viljað skjóta þessu máli til dómstólanna í þetta skipti bæjarstj. á Ísafirði, — hvað var þá nær en skrifa mér og senda kæruna til mín? En þessi mál, bæði á Ísafirði og í Vestmannaeyjum, komu aldrei til dómsmrh. En þó er því haldið fram, að dómsmrn. sé aðfinnsluvert fyrir þetta, — fyrir mál, sem aldrei kom fyrir það. En einmitt sjálf grg. frv., aðal-ákæran á dómsmrh. og ákæruvaldið, er byggð á þessari vitleysu, máli sem aldrei kom til minna afkasta og aldrei var til mín sent. Og svo er því haldið fram, að dómsmrh. hafi haldið í ákæruvaldið til þess að geta misbeitt því, eins og í Vestmannaeyjum og á Ísafirði.

Þá var minnzt á uppþot á Barnum og að ekki hefði verið höfðað mál út af því. Ég man að vísu eftir því, að það voru einhver slagsmál þar, en ég verð að segja, að þau hafa farið svo framhjá mér, að ég get ekki gefið upplýsingar um þau að sinni. Hvað því viðvíkur, að ég hafi rannsakað, hvar þessir menn voru í pólitík, og hafi síðan látið málið niður falla, því geta þeir trúað, sem trúa vilja. Aftur á móti á að hafa verið höfðað mál út af manni, sem var barinn á götu, en ekki út af öðrum manni, sem barinn var. Ég verð að fá upplýsingar um það, hvaða mál þetta er, Það eru hér svo mörg slagsmál á götu, að ég sé ekki nema 1% af þeim; þau eru afgr. án þess að talað sé um þau við mig.

Ég sé að klukkan er yfir 4, og er ekki ástæða til að halda hv. þdm. hér lengur, enda hefi ég minnzt á þau mál, sem hér er um að ræða. En þegar þessum umræðum heldur áfram, verður kannske hægt að sýna fram á, hvernig réttarfarinu var beitt, áður en ég tók við. Ég man eftir tveimur málum, sem er gott fyrir hv. flm. að hugsa um. Það eru málin á móti þeim Pálma Loftssyni og Einari Einarssyni. Málið á móti P. L. er alveg táknandi mál fyrir hina andstyggilegustu misbeitingu á réttarfarinu. Lúðvík C. Magnússon, sem þá var nýlega orðinn gjaldþrota, hann er skipaður til þess að rannsaka hjá P. L., og gaf hann falsaða skýrslu í málinu. Það var haldið uppi látlausri ofsókn gegn honum og því haldið fram, að hann hefði stolið þeim fiski, sem veiðzt hefði á Þór. Og þeir, sem stóðu að þessu, hafa helzt viljað sem minnst um það tala síðan. — Og hvernig var það svo með E. E.? Það var borið á hann, að hann hefði falsað skipsbækurnar. Ég staðhæfi, að þær ákærur voru á engum rökum byggðar. En um þetta var skrifað látlaust í blöðum andstæðinganna, og Einar var rekinn frá skipinu. En þegar málið kemur fyrir hæstarétt, þá er því vísað þaðan burt, og fylgdu því þau ummæli eins hæstaréttardómarans, að hann vonaði að sjá það mál aldrei í hæstarétti aftur. Undrar mig það ekki neitt, því að það hlaut hver réttsýnn maður að segja.

Ég ætla ekki að minnast á málið um mig, þetta svokallaða kollumál. Ég læt það liggja á milli hluta. En ég hygg, að andstæðingarnir hafi ekki haft neina sérstaka ánægju af því, áður en lauk, og svo vill oft fara, þegar reitt er til höggs of hátt. Það var haldið uppi rannsókn í 6 vikur, og ég þurfti að sitja fyrir rétti í fleiri tíma á dag. Slíkt er vel fallið til þess að draga kjark úr mönnum, og það er aðferðin, sem notuð er, þegar réttarfarinu er misbeitt.

Þetta eru aðeins örfá dæmi af því, hvernig réttarfarið var, áður en ég tók við. Ég hygg, að okkur sé óhætt að halda áfram umr. um það, að réttarfarinu hafi ekki verið misbeitt í tíð núv. stjórnar. Og ég held, að ég hafi stundum farið fullvægt í sakirnar, þó að andstæðingur hafi átt í hlut. En það sýnir bara það, að ég hefi enga löngun til þess að seilast lengra í þeim sökum en réttmætt er.

Þótt ég telji að ýmsu leyti réttmætt að hafa opinberan ákæranda, þá hugsa ég samt, að það verði ekki tómt sólskin, ef á að setja mann í það embætti með konunglegri veitingu. Og sé nú maðurinn ekki í alla réttsýnasta lagi, þá getur verið, að þeir, sem undir því eiga að búa, verði ekki alltaf eins ánægðir með það og nú, að fá opinberan ákæranda, enda er það í lófa lagið fyrir dómsmrh. að setja í það mann um aldur og æfi, sem þannig hefir miklu betri aðstöðu til þess að misbeita réttarfarinu og ákæruvaldinu en dómsmrh. kann að hafa haft. Og mín trú er sú, að hver sá dómsmrh. — ég held, að okkar þjóð sé þannig skapi farin —, sem hefir misbeitt ákæruvaldinu, hann hafi tapað á því út frá pólitísku sjónarmiði. Ég hygg, að fyrrv. dómsmrh. hafi að sumu leyti stigið það langt, að hann hafi tapað á því við síðustu kosningar. Og ég er ekki hræddur við það, þegar gengið verður til næstu kosninga, að mæta fyrir dómstóli þjóðarinnar út af því, hvernig réttarfarinu hefir verið beitt.