24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (1323)

43. mál, opinber ákærandi

*Jóhann Jósefsson:

Ég þarf að biðja hæstv. forseta um að gefa mér örlítið meiri tíma en 5 mínútur, þar sem ég þarf að svara tveimur ræðum, hæstv. ráðh. og hv. 3. landsk. Ég vænti þess, að hæstv. forseti sjái það, að sá tími er naumur. (Forseti: Reyna að draga sem mest saman).

Umboðsmaður kommúnistafylkingarinnar í Vestmannaeyjum hefir staðið hér upp til þess að vitna með hæstv. ráðh. um þessa Vestmannaeyja kæru. Það var nú satt að segja heldur veigalítið, sem hann hafði fram að færa. Hann var að tala um kæruatriðin; það hefði verið kært yfir því, að reikningar bæjarins hefðu ekki verið tilbúnir í tæka tíð, fjárhagsáætlun ekki gerð á réttum tíma, fundir bæjarstjórnar ekki haldnir eins oft og vera bæri o. s. frv. Það hefir verið minnzt á þetta áður, og ég og aðrir höfum sýnt fram á, hversu veigalítil þessi kæruatriði eru í samanburði við kæruatriði þau, sem borin hafa verið fram á stjórnendur Ísafjarðarkaupstaðar. Jafnvel þessir menn í Vestmannaeyjum dirfðust þess ekki, að bera það upp á bæjarstjórnarmeirihlutann, að hann hefði beitt atkv. sínum sér til persónulegra hagsmuna.

Ég vil rifja það upp fyrir hv. 3. landsk., hverskonar kæruatriði á hendur stjórnendum Ísafjarðarkaupstaðar það voru, sem þessi sami ráðh. tók við og settist á: að þeir greiddu hvað eftir annað atkv. í málum, sem snertu þeirra eigin hagsmuni, gegn hagsmunum hafnarsjóðs; að þeir knýðu fram með eigin atkv. lánveitingu, skuldafrest og vaxtaeftirgjafir til félags, sem þeir bæru sjálfir persónulega ábyrgð á; að þeir tækju í heimildarleysi meiri veðrétt sjálfum sér til handa en þeir jafnvel með eigin atkv. hefðu knúið fram í bæjarstjórninni, o. s. frv. Hv. þm. hlýtur að sjá, að þetta eru ólíkt alvarlegri kæruatriði heldur en þessar „sakir“, sem bornar voru fram aðallega á bæjargjaldkerann í Vestmannaeyjum. Hæstv. ráðh. hafði þó ekki réttlætistilfinningu til þess að láta fara fram rannsókn á báðum stöðunum, heldur settist hann á kæruna á hendur bæjarstj. Ísafjarðar, en lét fara fram rannsókn í Vestmannaeyjum fyrir minni sakir.

Ég er ekki að sakast um það, þó að hæstv. ráðh. lét fara fram rannsókn á hag Vestmannaeyjabæjar, jafnvel þó að hann léti gera það tvisvar, en ég sakast um, að það er þagað yfir því, sem skeður hjá öðrum. Ef kært væri hjá öðrum bæjarfélögum yfir drætti á því, að reikningar kæmu fram, og of fáum fundum, þá er ekki vafi á því, að það myndi koma í ljós, að það væri víðar pottur brotinn en í Vestmannaeyjum í þeim sökum.

Hv. þm. var að boða þriðju rannsóknina. Mér kæmi það ekki á óvart, þó að samfylkingin myndi hefja upp sína raust og heimta rannsókn á Vestmannaeyjakaupstað á þessu ári, og hún gæti gert það í því trausti að fá áheyrn hjá þeim manni í landsstj., sem hefir tekið að sér að reka hennar erindi.

Hv. þm. minntist á eitt atriði, sem ekki er hægt að ganga framhjá. Hann sagði, að það hefði komið fram sjóðþurrð hjá einni stofnun bæjarins og taldi það sérstakt atriði til rannsóknar.

Ég vil minna hv. 3. landsk. á og benda hv. þdm. á það, að sá kommúnisti í endurskoðunarstöðu, sem undirskrifaði hinar svæsnu árásir á algerlega saklausan mann í sumar, og sem kæran aðallega byggist á, hafði gefið þeim manni kvittun, sem stóð fyrir þeirri stofnun sem sjóðþurrðin varð hjá. Það er því rétt, að það er sérstakt rannsóknaratriði, hvaða samband er á milli kærunnar á bæjargjaldkerann og þess, að þessi sami endurskoðandi bæjarreikninganna gaf fullkomna kvittun, en nú er fram komið, að hann hefir vitað um sjóðþurrðina hjá þessari stofnun. Ég hefi ekki dregið þetta atriði inn í umr., nema af því, að þessi hv. þm. fór að minnast á það. Það er því komið nægilega mikið fram til þess að sýna, að kæran á bæjargjaldkerann, sem hefir reynzt saklaus, hefir frá upphafi vega sinna verið tilbúin á nokkuð einkennilegan hátt.

Hv. þm. minntist á það, að Ingólfur Jónsson, sem rannsakaði hag bæjarins, hefði ekki getað mikið athugað á 2–3 dögum. Það er ekki rétt hjá honum, að Ingólfur Jónsson hafi ekki athugað þetta lengur; hann var miklu lengur í Vestmannaeyjum. Hitt er satt, að þegar Ingólfur Jónsson á öðrum degi var búinn að sjá, að ásakanirnar á hendur bæjargjaldkeranum voru rangar; vildi hann helzt hætta, en hafði ekki frið fyrir samfylkingunni; hún rak á eftir og vildi láta hann finna einhverjar fleiri „misfellur“ en hún hafði jafnvel kært yfir. Það er náttúrlega hægðarleikur að telja einhver reikningsatriði bókfærsluvillur til að búa úr því „áminningarbréf“ eins og það, sem hv. þm. var að tala um og við vitum, að hefir verið pantað og gert númer út af í Alþýðublaðinu. — Þetta bréf er nú heldur veigalítið. Það er svo sem ekki alvarlegt, þó að ráðh. sé að benda aðþrengdu bæjarfélagi á, að það sé lagaskylda að borga allt kaup í peningum, þegar ráðh. veit það ósköp vel, að gjalddagar útsvaranna og hin litla greiðslugeta fólksins leiðir það af sér, að bæjarfélögin eru oft í fjárþröng og geta ekki borgað allt í reiðupeningum. Ég skal vera þakklátur hæstv. ráðh., ef hann tekur að sér að lagfæra þetta, svo að bærinn geti borgað allt í reiðupeningum, sem hann á að borga í reiðufé.

Hæstv. ráðh. hafði nú það lag, þegar hann var að svara aths. mínum, að færa það úr lagi, sem ég sagði, til þess að geta komið því fyrir kattarnef. Hann sagði, að ég hefði haldið því fram, að það hefði verið eitthvað hið svartasta, sem frá honum hefði komið gagnvart Vestmannaeyjum, að láta þessa rannsókn fara fram á þann hátt, sem gert var. Ég sagði, að það svartasta í rannsókninni hefði verið það, að hann hefði afgr. rannsóknarmanninn eftir pöntun kommúnista, og við það skal standa; ég hygg, að það sé einsdæmi, að það sé opinberlega sannað, að ráðh. hafi látið kæranda panta hjá sér rannsóknardómarann.

Þá sagði hæstv. ráðh., að þetta £ 5000 lán, sem þingið veitti Vestmannaeyjabæ ábyrgð á, hefði átt að fara til þess að borga lausaskuldir. Þetta er að mestu leyti rangt. Lánið var tekið til þess að snúa gömlum og dýrum lánum í önnur ódýrari lán, eða það sem kallað er converteringarlán. Það er sannað og skjalfest, að bróðir hæstv. atvmrh., sem árið áður gerði nákvæma athugun á því, hvernig þessu láni hefði verið varið, fann ekkert saknæmt hjá bæjarstjórninni í meðferð þessara peninga. Þetta er hæstv. ráðh. vel kunnugt um, og það er óskynsamlegt af honum að vera að dylgja um það, að bæjarstjórnin hafi notað þessa peninga öðruvísi en hún átti að gera, þegar hann hefir það skjalfest frá endurskoðanda ríkisins, að svo var ekki.

Ég skal svo ekki níðast meira á góðmennsku hæstv. forseta, en þegar hæstv. atvmrh. fullyrðir það, að ekkert rn. hefði getað skellt skolleyrunum við þessum kærumálum á hendur bæjarstj. á Ísafirði og Vestmannaeyjum, þá vil ég þvert á móti segja það, að ekkert rn. hér á landi hefir ennþá hagað sér eins í svipuðum málum eins og hæstv. atvmrh. hefir hagað sér gagnvart þessum tveimur kærumálum, og það er ekkert köpuryrði, þó að ég segi það um hæstv. atvmrh., að í þessu máli hafi hann komið fram sem vikapiltur kommúnista í Vestmannaeyjum. Það má náttúrlega hafa hv. 3. landsk. með, því að hann er þarna í hópi þeirra æstustu og tilheyrir þeirra flokki, og hæstv. ráðh. er að því leyti líka vikapiltur hans í þessu máli eins og kommúnista.