14.04.1937
Efri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (1346)

51. mál, skemmtanaskattur

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Út af þeim umr., sem hér hafa fallið, vildi ég segja örfá orð.

Það var hv. 5. landsk. sem — sennilega af ókunnugleika — taldi, að verklýðsfélögin hefðu ekki neina sérstaka menningarstarfsemi með höndum. En ég vil benda þessum hv. þm. á þann þáttinn í menningarstarfsemi verklýðsfélaganna, sem ég veit, að hann kann vel að meta, og það er barátta þeirra gegn vínnautn í landinu. Innan verklýðsfélaganna hafa verið sterkar hreyfingar í þá átt að draga verkalýðinn frá nautn áfengra drykkja. Ég skal játa, að þetta hefir ekki borið þann árangur, sem æskilegt hefði verið, en þetta er þó einn þáttur í menningarstarfsemi.

Þá vildi ég einnig drepa á það, að eitt af fyrstu verkum verklýðsfélaganna var að stofna allskonar sjóði, styrktarsjóði og sjúkrasjóði, og almennasta tekjuöflun þeirra var það, að halda skemmtanir. Mér er vel kunnugt um það, að bæði hér í Reykjavík og annarsstaðar úti um land hefir sá litli styrkur, sem þessir veikbyggðu sjóðir hafa getað látið af hendi, komið í góðar þarfir, og ég hygg, að hv. þm. neiti því ekki, að þetta er einn þáttur í menningarstarfseminni.

Þá vildi ég benda á eitt, sem er það, að mörg verklýðsfélög, sérstaklega úti um land, hafa komið upp hjá sér vísi til bókasafna, til þess að auka lestrarfýsn meðlima sinna, og hefir vitanlega orðið að afla fjármagnsins í því skyni með skemmtunum. Ég veit, að hv. 5. landsk. telur þetta líka menningarstarfsemi.

Enn er það eitt, sem verklýðsfélögin hafa mjög beitt sér fyrir, sérstaklega úti um landið, sem sé að koma upp góðum samkomuhúsum. Jafnvel í stærri kaupstöðum hér á landi hefir það verið húsnæðisleysið, sem háð hefir fjörugu og góðu félagslífi. Góðtemplarar ruddu að vísu brautina hér áður fyrr, en það er nú orðið svo langt síðan, að þau hús eru ekki lengur nothæf. Og nú reyna verklýðsfélögin að koma upp nýtízku samkomuhúsum, sem hægt er að notast við undir ýmsum kringumstæðum. Þetta tel ég líka vera einn þátt í menningarstarfsemi.

Ég vildi láta þetta koma fram, þegar þeim orðum er kastað, að verklýðsfélögin hafi ekki með höndum neina menningarstarfsemi í landinu. Gæti ég að vísu talið upp margt fleira, sem ég ekki vil fara að leiða umr. út í. Það er því ekki að ófyrirsynju, að fram er komin sú brtt. — úr því farið er að hrófla við skemmtanaskattinum á annað borð —, að verklýðshreyfingin geti verið undanþegin skemmtanaskattinum.

Ég skal taka það fram, að ég ber hlýjan og góðan hug til ungmennafélaganna, en ég get ekki séð, að þau eigi að njóta neinna forréttinda fram yfir aðrir menningarhreyfingar hér á landi.