19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (1401)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég mun ekki fara langt út í umr. um þetta mál, þó að ræður þeirra hv. 1. landsk. og hv. 2. þm. Reykv. gæfu tilefni til þess í raun og veru að endurtaka mikið af því, sem sagt hefir verið um þetta. En ég mun ekki fara út í það.

Hv. 2. þm. Reykv. gerði þá fyrirspurn til mín, á hvern hátt ætti að ganga að þessum veðum, sem Thor Jensen hefir sett fyrir skuldum h. f. Kveldúlfs, og hvenær. (HV: Hvenær ætti að innheimta þau fyrir Kveldúlf?). Ég geri ráð fyrir, að hv. 2. þm. Reykv. viti það fyrirfram og þurfi því ekki að spyrja um það, að þau verða innheimt, þegar Kveldúlfur verður gerður upp, ef til þess kemur nokkurntíma. Og ég geri ráð fyrir, að ef hann yrði gerður upp, þá yrði það eftir ákvörðunum lánardrottna hans, sem það uppgjör færi fram, og að um þessi veð giltu svipaðar reglur og um önnur veð. Annars er ekki mitt að segja um það, hvernig bankarnir fara með þessi veð, sem þeir hafa fengið fyrir skuldum þessa félags, né heldur, hvenær bankarnir muni ganga að h/f Kveldúlfi. Það er bankanna að ákveða það, en ekki mitt. Hvort Kveldúlfur verður gerður upp eftir næstu áramót einhverntíma, það er á valdi bankanna. Og ef Alþ. vill hafa áhrif á þetta mál, þá verður það að gera það með því að ákveða, hvaða fulltrúar eigi að vera í bankastjórnum, en ekki með því að grípa fram fyrir hendur þeirra.

Þá spurði hv. 1. landsk. út af dagskrártill., hvernig ég liti á orðalag dagskrártill. um síldarbraðsluverksmiðjuna.

Ég lít á orðalag dagskrártill. þannig, að það sé gert ráð fyrir því, að atvmrh. veiti leyfi til þess að reisa verksmiðju, sem hægt sé að koma upp fyrir þau lán, sem nú liggur fyrir, að Kveldúlfur hafi fengið loforð um, og það ætla ég, að sé 40 þús. sterlingspund og 150 þús. ísl. kr. Hvað því viðvíkur, að hægt sé að byggja stærri verksmiðju heldur en gert var ráð fyrir, er leyfið var fengið í haust, nefnilega að hún gæti unnið úr 2400 málum á sólarhring, fyrir þetta fé, þá má vel vera, að svo sé. En ég lít svo á, að þótt hægt væri að hafa verksmiðjuna nokkru stærri en upphaflega var ráð fyrir gert, t. d. 1 þús. málum stærri, þá mætti gera það fyrir tiltölulega lítinn verðmun, því að þessi 1 þús. mála aukning á verksmiðjunni fæst fyrir minni tilkostnað en ef byggð væri sérstök verksmiðja fyrir það síldarmagn, sem þessari aukningu næmi. Og enn sem komið er, er ekki það mikið búið að byggja af síldarbræðsluverksmiðjum, að ég sjái neina ástæðu fyrir Alþ. að fara að setja félaginu stólinn fyrir dyrnar um þessa aukningu, því að það getur ekki haft svo mikið að segja fyrir síldarsölu fyrir Norðurlandi, að ríkisverksmiðjunum geti stafað nokkur hætta af þessari aukningu frá því, sem atvmrn. hefir upphaflega gengið út frá og gefið leyfi fyrir. Þannig lít ég á þessi ákvæði, og þetta er ástæðan fyrir því, að ég fyrir mitt leyti er fylgjandi orðalagi dagskrártill. eins og það er.

Það hafa 2 hv. þm., þeir hv. 2. þm. Reykv. og hv. atvmrh., lagt nokkra áherzlu á það í ræðum sínum hér í hv. d., að með því að samþ. þetta verksmiðjubyggingarleyfi, sem um getur í dagskrártill., eða leggja svo fyrir, að það verði veitt, þá sé Alþ. að sletta sér fram í þessa skuldaskilasamninga, sem gerðir hafa verið við h/f Kveldúlf, og leysa þessi mál fyrir bankana. Þetta vita þeir báðir, að er ekki rétt. Það, sem hér er verið að gera, er að koma því til vegar, að h/f Kveldúlfur fái leyfi til að reisa síldarbræðslustöð, sem búið var að veita leyfi til að reisa, ef félagið hefði komið með fjármunina, sem til þess þurfti, fyrir 28. febr. síðastl. Hér er að vísu gert ráð fyrir, að hún verði nokkru stærri en upphaflega var ráðgert. En ástæðan til þess er sú, sem ég gat um, að Framsfl. sér enga ástæðu til að setja það á oddinn, hvort síldarverksmiðjan gæti brætt 500 eða 1000 málum meira á sólarhring en upphaflega var ákveðið. Með þessu er verið að leysa þann hnút, sem komið hefir á þetta bræðsluverksmiðjumál. Og það verð ég að segja, að hvað sem líður frv., sem hér liggur fyrir, um skiptameðferð Kveldúlfs, eða öðrum málum, þá er ég með því, að Alþ. ætti að veita slíkt leyfi eins og þetta, eins og málið liggur fyrir, þar sem búið er að leggja fram mikla vinnu til þess að útvega fjármuni til þess að reisa fyrir þessa verksmiðju, en að Alþ. ætti ekki að hanga í því, að þeir, sem hlut áttu að máli, komu nokkrum dögum of seint til að sanna, að þeir ættu þá peninga vísa, sem til þess þarf, að reisa verksmiðjuna.

Ég legg áherzlu á, að í dagskrártill. er ekki farið inn á valdsvið bankanna, því að að því leyti, sem hún felur í sér ákvarðanir, þá er það aðeins í þessu síldarbræðsluverksmiðjumáli.