24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (1491)

25. mál, alþýðutryggingar

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég þarf litlu að svara hv. 1. flm. þessa frv. út af þeim orðum, sem hann beindi til mín. Þó vil ég taka fram nokkur atriði.

Mér skildist sem hv. þm. vildi draga úr sínum miklu fullyrðingum um óvinsældir laganna. (GSv: Enganveginn). Úr því að hv. þm. vill ekki við það kannast, þarf ekki að draga úr því, sem ég sagði, að þær fullyrðingar hefðu verið miklar um óvinsældir laganna, enda þarf ekki annað en lesa upphaf grg., úr því að við það er staðið, sem þar er sagt. Ég leyfi mér enn á ný að segja, að þetta sé gersamlega órökstudd fullyrðing, sem ég þykist hafa alveg eins mikla ástæðu til þess að dæma um eins og þessi hv. þm., einmitt að gefnu því tilefni, sem ég lýsti yfir í fyrri ræðu minni, því að fulltrúar frá verkalýðsfélögunum í landinu hafa hér í haust látið í ljós einróma skoðun á því, að það hafi verið framfaraspor í íslenzkri löggjöf, þegar alþýðutryggingalöggjöfin var sett. Þetta er hægt að sanna með vitnisburði þeirra fulltrúa, er þingið sátu. Þessi hv. þm. hélt því fram, að frá öndverðu hefði ekki mátt nefna, að nein breyt. yrði gerð á þessari löggjöf. Þetta er rangt. Því var lýst yfir af fleirum en mér, sem ræddu um þetta mál, þegar löggjöfin var samþ., að það væri alveg gefið mál, að af þeirri reynslu, sem fljótlega skapaðist við beitingu laganna, hlyti að koma í ljós, að það þyrfti að gera breyt. á þeim, og þær breyt. hefði þurft að gera að fenginni reynslu, þó að dagskrártill. hv. andstæðinga hefði verið samþ. og frestað hefði verið að setja lögin í þinginu 1935, eins og gert var, því að hversu miklar hugleiðingar og vangaveltur, sem átt hefðu hér stað í sambandi við setningu þessara laga, þá hefði ekki verið auðið að sjá fyrirfram, hvað reynslan hefði leitt í ljós, þegar farið var að framkvæma lögin.

Að því er snertir það, sem hv. þm. sagði um sjúkratryggingarnar, þá nægir mér að vísa til þess, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að mig undraði, að engin breyt. á þeim skuli vera fram komin, fyrst farið var að hrófla við lögunum á annað borð, fyrir þá sök, að hv. fulltrúar Sjálfstfl. í þessari hv. deild virtust hafa mest að athuga við setningu sjúkratryggingalaganna og atvinnuleysistryggingakaflans í alþýðutryggingunum, en lýstu sig hinsvegar fylgjandi setningu ellitryggingalaganna.