03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (1549)

39. mál, atvinnubótavinna og kennsla ungra manna

*Emil Jónsson:

Ég ætla að segja nokkur orð út af því, sem hv. flm. sagði síðast.

Þetta frv. er ekki framför, heldur vissulega afturför. Í sinni frumræðu tók hv. þm. það fram, að það nægði að athuga hámarksákvæðið í n., en nú virðist mér hann telja þetta atriði framfarir, frá því sem verið hefir. Ég skal nú ekki fara út í frv. að öðru leyti, þó að mér finnist ekki margt í því umfram það, sem þegar er til, því að þetta frv. er eiginlega aðeins heimild til þess að halda áfram því starfi, sem nú er þegar hafið á ýmsum stöðum á landinu.

Í Hafnarfirði hefir verið unglingavinna með sama fyrirkomulagi og frv. gerir ráð fyrir og verið hefir hér í Reykjavík. Til þessarar vinnu eru ætlaðar 10000 kr., því að við skrásetningu ungra atvinnulausra manna kom í ljós, að það voru ekki færri en 60 manns, sem þurftu vinnu, en fyrir þessa upphæð var ekki hægt að taka nema 40, því að það var meira en nóg til þess að nota þessa upphæð. En ef sett verður hámarksákvæði í þessu efni, þá má ekki veita meira en 3700 kr. í þessu skyni í Hafnarfirði, svo að framlagið minnkaði beinlínis um 6300 kr. frá því, sem nú er.

Ég vil því vænta þess, að þetta atriði verði tekið til athugunar í n., því að eins og frv. er nú, er smærri stöðum bannað að hafa þessa starfsemi með höndum eins og undanfarið, því að það þýðir t. d, ekkert fyrir okkur í Hafnarfirði að leggja út í þessa starfsemi á þann hátt sem þetta frv. gerir ráð fyrir, með 3700 kr., því að af þeirri upphæð þyrfti að kosta kennara og verkstjóra og ýmislegt fleira, sem til starfsins þarf, svo að það þarf meira fé til þessarar starfsemi en 1 kr. á mann, sem frv. gerir ráð fyrir.