03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (1557)

39. mál, atvinnubótavinna og kennsla ungra manna

*Sigurður Einarsson:

Ég skil ekkert í því, þegar hv. þm. Snæf. ætlar að fara að vinna það til, þessu máli til framdráttar, á kostnað þess, sem áður hefir verið fram borið hér í hv. d., að gera lítið úr því frv., sem aðrir flytja um þetta mál, fyrir þá sök, að það sé frv. til heimildarlaga. Ég veit ekki betur en að þó að þessi hv. þm. þykist lítið hafa lært af mér í þessu máli, þá hefir hann þó a. m. k. lært það, að hafa þetta frv. sitt líka heimildarlög. Það er því ekki ástæða fyrir hann að gera lítið úr a. m. k. þessum lærdómi sínum í sambandi við mitt frv. En eins og heyrzt hefir við þessar umr., ber málflutningur sjálfstæðismanna meiri vott um pólitískt ergelsi heldur en hitt, að þeir viti sig svo sterka í málinu. Nú vita menn, að þetta ergelsi hefir verið krónískur sjúkdómur í stærri spámönnum Sjálfstfl. En að hinir smærri spámenn þess flokks væru líka alteknir af honum, hefði maður ekki getað búizt við. En hv. þm. vill gera lítið úr mínu frv. um þetta efni á undanförnum þingum. Þó vill hann bera í bætifláka fyrir sitt frv. og telur, að það sé ekki endanleg till. Það er pólitískt ergelsi, þegar hann segir, að ég sé að montast yfir mínum frv. Ég vitnaði til ummæla, sem um þau féllu á undanförnum þingum. Ég hefi í framsöguræðum mínum tekið greinilega fram í bæði skiptin, að hér væri að ræða um till., sem ræddi fyrst og fremst um það, sem von kynni að vera um að koma áleiðis í þessu máli, í öðru lagi miðaði að því að koma málinu á rekspöl, og í þriðja lagi benti á nauðsynina á að gera eitthvað fyrir atvinnulausa unglinga.

Hæstv. ráðh. lét svo um mælt, að honum virtist bezt að láta ráðstafanir, sem gerðar kunna að vera til þess að bæta úr því vandamáli, sem atvinnuleysi unglinga er, koma fram í fræðsluformi. Vil ég þá leyfa mér að benda honum á það, að fræðsluformið var svo að segja hið ráðandi form í till. þeim, sem fólust í frv. mínu, og er enn í því frv., sem ég nú hefi flutt um þetta. Ég vænti þess vegna, að mitt frv. eigi ekki andstöðu að mæta hjá hæstv. fjmrh., heldur eigi hauk í horni þar, sem hann er.

Þá ætlaði hv. þm. Snæf. að lokum að leysa Gordionshnútinn um það, hverjum það hefði verið að þakka, að haldið hefði verið uppi þeirri atvinnubótavinnu fyrir unga menn hér í Reykjavík, sem gert hefir verið, og kvað þar upp úr með það, að bæjarstj. Reykjavíkur væri þannig skipuð, að sjálfstæðismenn réðu þar öllu; þar væri ekkert gert, sem Sjálfstfl. ekki vildi. Og hann lýsti því yfir hér í d., sem við alþýðuflokksmenn höfum oft sagt, að í bæjarstj. Reykjavíkur ríkir hið mesta gerræði og einræði, sem nokkur stj. hefir leyft sér að viðhafa. En jafnvel þessi flokkur sá ekki þetta nauðsynjamál, fyrr en honum var ýtt af stað með bréfi atvmrh. um þetta mál, eins og margtekið hefir verið fram og aldrei hefir verið hrakið.