04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (1568)

49. mál, rekstrarlánafélög

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Þetta mál er flutt hér í þriðja sinn, svo að ég get sparað mér að halda langa framsöguræðu, því að það eru sömu þm. nú til þess að taka á móti málinu eins og verið hefir áður. Málið er þannig til komið, að árið 1933 var samþ. hér till. um að fela ríkisstj að undirbúa ýms mál fyrir sjávarútveginn, m. a. eins og stendur í 6. lið, að undirbúa rekstrarlánastofnanir fyrir bátaútveg landsmanna. Meiningin var þá að koma á fót sérstökum lánsstofnunum til þess að sjá bátaútvegi landsmanna fyrir rekstrarfé. Við meðflm. minn lentum í n., sem hafði þetta til meðferðar, ásamt Kristjáni Jónssyni, erindreka Fiskifélags Íslands, og við athugun á þessu atriði þáltill. komust við að þeirri niðurstöðu, að ekki væri þörf á og jafnvel óviðeigandi að stofna sérstakar rekstrarlánastofnanir fyrir nokkurn hluta sjávarútvegsins, þar sem hér starfar banki, sem fyrst og fremst hefir það hlutverk, að sjá sjávarútveginum fyrir rekstrarfé, sem sé Útvegsbanki Íslands, og það er líka vitað, að mikið af starfsemi Landsbankans fer í sömu átt, en hinsvegar er það vitanlegt, að bankarnir, og raunar allir lánveitendur, eiga ákaflega erfitt með að kynna sér það um hvern einstakling í þjóðfélaginu, sem kynni að hafa einhvern atvinnurekstur, hvort hann hefir skilyrði til þess að standa í skilum eða jafnvel hverja þörf hann hefir fyrir lánsféð, og af þessu hefir leitt það, að bankarnir hafa orðið að lána á þann hátt, að myndazt hafa einskonar milliliðir um lánveitingar, þannig, að þeir hafa lánað mönnum, sem þeir þekktu, eða stofnunum. En þessu hefir vitanlega fylgt nokkur kostnaður, og fylgir sérstaklega nú, fyrir þá, sem nota þessa milliliði, og að því leyti er þetta óhagstætt. Þegar við fluttum málið í fyrsta skipti, gerðum við nokkra grein fyrir því, hve geysimiklu útgerðarvörur eru dýrari á einum stað en öðrum allt eftir staðháttum og því, hvernig menn standa að vígi með að fá þessar vörur beint til sín þaðan, sem þær eru ódýrastar. Ég tók eftir því í einu erindi, sem flutt var í útvarpið um sjávarútvegsmál, að vísu ekki af sjávarútvegsmanni eða manni, sem kunnugur er þessu af reynslu, en erindið var þó flutt í umboði skipulagsnefndar í atvinnumálum, og mig minnir, að ræðumaður segði, að n. hefði komizt að þeirri niðurstöðu, að milliliðakostnaðurinn fyrir smærri útvegsmenn væri svo mikill, að hann næmi um 50% álagningu á útgerðarvörum. Það er þetta, sem okkur flm. sýndist fyrst og fremst að gera þyrfti tilraun til að bæta úr. Við þessir þremenningar, sem ég gat um áðan, sömdum fyrst frv. um þetta efni og sendum till. okkar til ríkisstj., því að við vorum ekki þingskipaðir, heldur stjórnskipaðir, og atvmrh. kom með þetta frv. til sjútvn. þessarar deildar á þinginu 1934 og fór fram á, að n. flytti frv. fyrir ríkisstj., en það atvikaðist samt þannig, að það voru ekki nema við tveir, ég og hv. þm. Vestm., sem vorum við því búnir að taka flutning málsins að okkur, og má það vera einkennilegt, að það skyldu verða báðir stjórnarandstæðingarnir í n., sem urðu til þess að taka að sér flutning frv. fyrir stj. — Við fluttum frv. aftur á þinginu 1935, en eins og kunnugt er, var meðflm. minn að frv. ekki nema fyrri hluta þingsins, og af þeim ástæðum féll flutningur málsins niður. Ég hefi ekki orðið var við, að frv. hafi eiginlega mætt verulegri mótstöðu í þau tvö skipti, sem það hefir legið fyrir, en það hefir atvikazt svo, að það hefir verið seint á ferðinni og ekki náð afgreiðslu.

Með þessu frv. er reynt að gera það tryggt, að lánsstofnanir geti trúað þessum félögum fyrir rekstrarfé og geti haft fullkomið eftirlit með því, að þær tryggingar, sem settar eru, séu í raun og veru fyrir hendi, svo að lánsstofnunin þurfi ekki að eiga þar meira á hættu en þó að hún láni einum einstakling. Það er einnig reynt að tryggja það með ákvæðum þessa frv., að ekki gangi svo með þessi rekstrarlán, eins og oft hefir viljað ganga með smærri útvegsmenn, sem nú hafa aðgang að lánsstofnununum, en það er vitað, að þessir útgerðarmenn hafa nú á síðari árum verið að dragast með gamla skuldabagga, og margir hafa keypt sín fyrirtæki algerlega í skuld eða eru a. m. k. búnir að safna skuldum, sem ekki nema minna en útgerðin sjálf, og þegar menn þurfa að borga. eins og verið hefir, af þessum lánum milli 6 og 7%, og jafnvel yfir 7%, og það er jafnvel svo komið, að á þeim stöðum, sem eru lakast settir, eru mjög há tryggingargjöld, sem geta komizt allt upp í 8%, þá er svo komið, að menn þessir verða, auk þess sem þeir verða að borga útgerðina og standa í skilum með afborganir af eigninni, að borga í þessi vaxtagjöld annað útgerðarverð á 6–7 árum. Vegna þessara skulda hefir það gengið svo fyrir mörgum, að þegar þeir fá rekstrarlán, þá hafa þeir látið meiri eða minni hluta af því til þess að bæta fyrir gamlar syndir, til að greiða eitthvað af gömlum skuldum, og verða þess vegna síðar að fá útgerðarvörur í skuld, svo að þeir eru eiginlega engu betur komnir með reksturinn, þó að þeir fái þessi rekstrarlán, ef þeir skella þeim í vangoldnar skuldbindingar. Það eina, sem þetta breytir, er að útgerðin er ekki í það skipti tekin af þeim.

Ég hefi orðið lítilsháttar var við það, að Útvegsbankanum og Landsbankanum virðist vera lítið um þetta frv., og líklega líta þessar lánsstofnanir svo á, að eftir því sem þær séu neyddar til að lána fleiri mönnum, eftir því aukist þeirra áhætta, og draga þetta sennilega af því, að þeir hafa stundum flaskað á því, að lána lítið þekktum mönnum, mönnum í mikilli fjarlægð, sem ekki hefir verið hægt að rannsaka til fulls, hvernig ástæður hefðu til þess að standa í skilum, og ef til vill hefir þær brostið aðstöðu til þess að hafa eftirlit með því, hvernig menn fóru með aflann, sem átti að verða til þess að lúka rekstrarláninu. En ég held ekki, að þessi hræðsla lánsstofnananna sé á rökum byggð, og það gætu þær séð, ef þær athuguðu, hvert fyrirkomulag ætlazt er til, að verði á þessum lánum. Það er áreiðanlega víst, að það liggur að langmestu leyti, eins og nú er, á bönkunum, hvort sem bankarnir hafa þar færri eða fleiri beina viðskiptamenn, og eftir því sem verr fer um aflabrögð og það, að halda þeim til lúkningar á rekstrarlánunum, eftir því fara bankarnir verr út úr þessu, og ég held einmitt, af því að þetta frv. stefnir að því, að auka að miklum mun aðstöðuna til eftirlits með því, að lánin geti greiðzt, og líka með því, hverjum er öruggt að lána og út á hvað er lánað, þá eigi það í heild að auka að miklum mun öryggi lánsstofnananna, a. m. k. að því er snertir, að auka öryggið fyrir því, að rekstrarlánin, sem veitt eru, fari til rekstrarins, en ekki til óskildra hluta, í greiðslu gamalla skulda, og eins það, að lántakandi sé háður eftirliti um það, að hann láti andvirði aflans ganga, að því leyti sem honum ber, til lúkningar rekstrarláninu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vil leggja til, að málið fari til 2. umr. og sjútvn.