18.03.1937
Neðri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Pétur Ottesen:

Það virðist alveg óþarft fyrir hv. 9. landsk. að spyrja um þetta, ef hann hefði heyrt það, sem ég hefi áður um það sagt.

Mér er kunnugt um hreppa á því svæði, þar sem fjárpestin hefir komið harðast niður, sem ekki sóttu um uppgerð í kreppulánasjóði, af því að þeir ætluðu að reyna að klífa þrítugan hamarinn og standa skil á skuldum sínum sökum þurfalinga. En þessi geysilega breyt. á afkomu þessara hreppa hefir vitanlega lokað fyrir þessa möguleika, og af þeim sökum myndu þessir hreppar nú snúa sér til kreppulánasjóðs, þar sem svo margir aðrir hreppar hafa fengið úrlausn sinna mála.

Ég veit vel, að þeir erfiðleikar, sem fjárfellirinn hefir skapað, verða ekki bættir með því einu að koma þessum hreppum undir ákvæði kreppulánasjóðslaganna. Það skarð, sem höggvið er á þessum stöðum, er miklu stærra og dýpra en svo, að það verði bætt fyrir starfsemi kreppulánasjóðs. En hinsvegar gæti það, með annari aðstoð, orðið leið til þess að létta afkomumöguleikana og standa undir þeim sveitarþörfum, sem hafa aukizt við þessa breyt. frekar en minnkað.

Mér virðist þetta mál horfa svo við, að þar sem þetta fé er eftir í þessum sjóði, þá sé sjálfsagt, að þessir hreppar geti orðið þess aðnjótandi, en að það verði ekki farið að taka þetta fé, sem upphaflega var ætlað hreppunum til stuðnings, til þess að hjálpa kaupstöðum landsins um viðbótarlán. Þetta er afstaða mín til þessa máls, og ætla ég, að hún sé ekki ákaflega vandskilin.