10.04.1937
Neðri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (1598)

63. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Jóhann Jósefsson:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð, því ekki er ástæða til að ræða þetta mikið. Hv. 1. landsk. kvaðst ekki mundu fráhverfur vörugjaldinu, ef þinginu ynnist tími til að setja heildarlöggjöf um málið, en það hefir þingið haft í ríkulegum mæli síðan störfum milliþinganefndar lauk; það hefir haft nægan tíma til að fá heildarlöggjöf setta. Það er ósamkomulag, sem hefir valdið því, að engin löggjöf hefir verið sett, þ. e., að nefndarmenn standa á öndverðum meiði. Hafa þeir flutt talsvert ólíkar till. sinn í hvorri d. um tekjuöflun fyrir bæjar- og sveitarfélög.

Ég vil ekki bera á móti, að það sé rétt hjá hv. 1. landsk., að ýms önnur bæjarfélög hafi eins mikla þörf fyrir auknar tekjur, en það er sízt betra. Eins og ég drap á áðan, þá fara Alþýðuflokksmenn líklega nærri um þörf Vestmannaeyjabæjar á auknum tekjum. Sé ég ekki, að sú afstaða hv. 6. landsk. sé mjög skynsamleg, að fyrst ekki fáist löggjöf fyrir öll bæjar- og hreppsfélög, þá sé bezt, að við drepumst líka. Vona ég fastlega, að þetta mál nái fram að ganga, því þótt heildarlöggjöf yrði sett um aukna tekjustofna fyrir bæjarfélög mundi það aðeins útiloka framkvæmd þessara ákvæða og lögin falla úr gildi. Það er engin hætta í því falin fyrir þingið að samþ. þetta frv., en það getur orðið til mikils baga fyrir þann kaupstað, sem hlut á að máli, ef svo verður ekki gert.