09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (1695)

83. mál, ríkisborgararéttur

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það gladdi mig að heyra, að nú loksins sé farið að framkvæma þær reglur, er settar hafa verið um eftirlit með útlendingum hér á landi, því að hér hefir lengi verið hávær og réttmæt gagnrýni á því ástandi, að útlendingum hefir verið leyft að dvelja hér langdvölum eftirlitslaust og taka atvinnu frá innlendum mönnum. Þessar skrár um útlenda menn hér á landi segja auðvitað ekki til um það, hverjir af þeim fá ríkisborgararétt, en þær eru vottur þess, að farið er að spyrna á móti því, að útlendingar fái hér atvinnu á kostnað landsmanna.

Ég vil skýra með nokkrum orðum það, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði um afstöðu mína í n. Ég sagðist ekki vilja láta útlendan mann, sem ekki hefir dvalið hér nema í 5 ár, fá ríkisborgararétt, þótt hann væri opinber starfsmaður. Um þetta var minn fyrirvari. Hv. þm. sagði, að þessi maður stæði ekki neinum mönnum fyrir atvinnu fremur en aðrir, sem fengið hefðu ríkisborgararétt. Það er nú svo um þennan mann, að hann er kallaður verkfræðingur, en mun þó ekki hafa tekið próf. Hann er því í raun réttri aðeins einfaldur starfsmaður, sem hlotið hefir verkfræðinafn við símstöðina í Rvík. Við eigum sérfræðing með próf í hans grein, svo að ekki er hægt að segja, að hann taki ekki atvinnu frá neinum.

Hæstv. forsrh. sagði, að reglur um veitingu ríkisborgararéttar ættu að vera strangar, og ég er honum alveg sammála um það. En ég tel mikinn mun á því, hvort maðurinn hefir dvalið hér í 5 ár eða 10. Ef maður hefir verið hér í 10 ár og kynnt sig vel að öllu leyti, tel ég, að miklar ástæður geti verið til þess að veita honum þessi réttindi. En það er allt öðru máli að gegna um mann, sem ekki hefir dvalið hér nema í 5 ár, jafnvel þótt hann sé í opinberri þjónustu.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að flokksmenn mínir í Nd. hefðu ekkert haft við þetta að athuga. En allshn. Ed. hefir nú stundum áður leyft sér að breyta og laga það, sem frá Nd. hefir komið, og mér þykir ekki ólíklegt, að flokksmenn mínir í Nd. séu að athuguðu máli mér sammála um þetta atriði. — Eitt hefir ekki verið talað um í þessu sambandi, og það er það, hvort maður, sem sækir um ríkisborgararétt, sé búinn að binda sig íslenzkri konu. Þegar svo stendur á, er það jafnan viðkvæmt mál, að meina þeim manni slíkra réttinda eða jafnvel landsvistar. En sá maður, sem hér er um að ræða, er ókvæntur og hefir ekkert í eftirdragi. Ég hefi ekkert á móti manni þessum persónulega. En ég tel það fullfljótt, að veita erlendum mönnum íslenzkan ríkisborgararétt eftir ein 5 ár, þegar nóg er af sérfróðum íslenzkum mönnum til að taka við störfum þeirra.