02.04.1937
Efri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Það var ekki alveg út í bláinn, að ég spurði um þetta. Ástæðan til spurningar minnar var sú, að ég sendi í fyrra kröfu á eitt sveitarfélag sýslusjóðs, og krafan var viðurkennd. Samt sem áður fékk ég enga afgreiðslu á þessari kröfu. Og þegar ég fór að spyrjast fyrir um þetta, þá fékk ég það svar, að það hefði ekkert verið skipt sér af henni. Ég get alveg eins búizt við, að svo hafi verið um fleiri kröfur, og ég tel ekki, að þörfum sveitarfélaganna hafi verið fullnægt, þegar sumar kröfurnar, sem viðurkenndar voru, hafa verið settar algerlega hjá og látnar standa. Það var þetta, sem kom mér til að spyrja. En ég sé, eins og hv. frsm. benti á, að það er annaðhvort að láta þetta reka eins og það er eða koma með sérstaka brtt.