16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (1706)

83. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Allshn. flytur hér tvær brtt. á þskj. 292, um að bætt sé við 2 mönnum, er fái ísl. ríkisborgararétt með þessum l. En það kemur til álita nú aðeins annar þeirra, því að n. hefir borizt bréf frá öðrum þessara manna, Jónasi Jónassyni, þar sem hann afturkallar beiðni sína, og skal ég lesa þetta bréf, sem er til dómsmálarn., með leyfi hæstv. forseta:

„Hér með leyfi ég mér að afturkalla umsókn mína um ríkisborgararétt. Sérstakar ástæður hafa orðið þess valdandi, að ég þarf að afturkalla þessa beiðni mína nú, en ég mun væntanlega síðar fara þess á leit, að mér verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur.

Virðingarfyllst Jónas Jónasson.“

Um hinn umsækjandann skal ég geta þess, að hún er fædd í Noregi árið 1917, en fluttist hingað strax á næsta ári og hefir verið hér alltaf síðan. Móðir hennar er íslenzk, og það liggja fyrir öll þau vottorð, sem krafizt er í þessu efni.

Ég sé, að hv. 1. þm. Eyf. hefir borið hér fram brtt. á þskj. 308, en ég mun ekkert um hana segja, fyrr en ég heyri hvað hann hefir um hana að segja, því að n. hefir ekki tekið hana til meðferðar og flm. hennar hefir ekki sent n. nein skjöl né talað við hana um þann mann, sem þar er farið fram á, að fái íslenzkan ríkisborgararétt. — Áður en ég lýk máli mínu, vil ég taka það fram aftur, að fyrri brtt. n. á þskj. 292 er tekin aftur.