22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (1718)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það hefir verið farið stutt út í umr. um þetta mál, eða m. ö. o., það hefir ekki verið farið út yfir frv. eins og það liggur fyrir, svo að ekki er ástæða til að gera það eins og stendur. Ég ætla að láta bíða að ræða um það, þangað til þar að kemur, að ég þurfi að mæta fyrir landsdómi fyrir mjólkurmálið, og ég mun taka því með mikilli ró, að mæta fyrir dómstóli út af þessu máli.

Hv. þm. G.-K. lagði mikla áherzlu á það, að ef slíkt frv. sem þetta væri borið fram í nokkru öðru landi, þá mundi ekki verða um annað talað yfir óákveðinn tíma, og álitið yrði, að slík stjórn, sem slíkt og þvílíkt frv. legði fram, væri algerlega blind fyrir öllu réttaröryggi. Þetta er eina frv., sem fyrir þinginu liggur og er algerlega sniðið eftir útlendum fyrirmyndum. Reynsla Norðmanna var höfð til hliðsjónar við samningu þessa frv. Hverjum mundi ekki standa á sama, ef hann keypti t. d. eitt kg. af vöru, hvort hún kæmi úr Mosfellssveitinni eða einhversstaðar annarsstaðar frá? Og af hverju eiga menn í Rvík og nágrenni að fá meira fyrir sínar afurðir en t. d. bændur austanfjalls? Við spyrjum aldrei um það, hvaðan þetta og þetta kemur, heldur, hvað það kostar. Menn eiga að fá sama verð fyrir sömu vöru, hvaðan sem hún er og hvert sem hún fer.

Hv. þm. G.-K. vildi halda því fram, að þetta frv. væri aðeins flutt stjórnarflokkunum til pólitísks framdráttar, en ég vil segja þessum hv. þm. það, að þetta er minnst pólitíska málið, sem borið er fram á þessu þingi.

Jónas Kristjánsson mjólkurfræðingur fór utan til að kynna sér þessi mál og reynslu annara þjóða á því sviði, og hann samdi svo þetta frv. og lagði það upp í hendurnar á ríkisstj., eftir að hann hafði aflað sér upplýsinga um, hvernig þessum málum væri háttað erlendis.

Það er nú búið að sýna sig, að það er ómögulegt að ákveða mönnum í nágrenni Rvíkur sama verðlag og öðrum framleiðendum, því að flutningskostnaður er þaðan miklu minni. En þó virðast þessir menn tiltölulega ekkert betur stæðir en aðrir framleiðendur, og ég álít það ekki vera hægt að stofna til mikillar verðlækkunar í nágrenni kaupstaðanna. Í Noregi er þetta reiknað út eftir kílómetratölum, og þar fá þeir lægra verð eftir því, sem þeir eru nær, af því að flutningskostnaðurinn er svo miklu minni. Flutningskostnaðurinn að austan er 4½ eyrir á hvern einasta lítra, og samt fá þeir austanbændur minna verð fyrir mjólkina, af því að erfiðara er að koma henni á markaðinn. En af því að það er verra að koma mjólkinni óskemmdri að austan heldur en úr nágrenni Rvíkur, þá áttu bændur austanfjalls að fá meira, því að hætt er við, að þeirra mjólk lendi í lægri flokkum heldur en nýja mjólkin úr nágrenni Rvíkur. Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en vildi segja það aftur, að frv. er sniðið eftir því fyrirkomulagi, sem hefir gefizt vel erlendis, og það er samið af Jónasi Kristjánssyni, mjólkurfræðingi á Akureyri, þeim manni, sem mesta þekkingu hefir á þessum málum. Svo að málið er að mínum dómi minnst pólitískt undirbúið af öllum þeim málum, sem hér liggja fyrir, svo að það dæmast öfugmæli það tvennt, sem hv. þm. G.-K. lagði mestu áherzluna á.