31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (1723)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

*Emil Jónsson:

Ég skal ekki verða langorður, þar sem ég býst við því, að málinu verði vísa til n., sem ég á sæti í. Tilgangurinn er sá, að jafna mjólkurverðið til framleiðenda, og aðferðin er sú, að hafa verðjöfnunargjaldið ekki takmarkað, í stað þess að það var 8 aurar hæst áður á lítra. En vitanlega má deila um það, hvaða leið sé bezt til að ná þessu takmarki. Mér finnst ljóst, að afleiðingin af þessu verði sú, að mjólkurverðið lækki hjá framleiðendunum austan heiðar, án þess þó að kaupendur græði á því.

Mér finnst því athugavert, hvort ekki er hægt að lækka verðið til kaupendanna að sama skapi. Það, sem veldur því, að frv. er fram komið, er of mikil framleiðsla á mjólk með því verði, sem hún er seld neytendum. Mjólkurframleiðslan austan heiðar er of mikil, til þess að núverandi verðjöfnunargjald hrökkvi til, því er fyrsta ráðið til að ráða bót á vandræðunum, að auka markaðinn, sem fyrir er. Nú vita allir, að mjólkurneyzla í Reykjavík og Hafnarfirði er miklu minni en verið gæti, og mætti auka hana að miklum mun með því að lækka verðið. En öll aukning mjólkurneyzlunnar kæmi framleiðendum austanfjalls í hag, því að framleiðendur vestanfjalls gætu aldrei framleitt nógu mikið til að fullnægja mjög aukinni eftirspurn. Mér finnst það athugandi mál, hvort ekki sé unnt að lækka nokkuð mjólkurverðið, og vita, hvort aukin sala, er af því myndi leiða, gæti ekki hækkað raunverulegt verð til framleiðenda austanfjalls. Ef þetta tækist, þá væri fleira unnið en frv. sjálft gerir ráð fyrir, sem sé minnkuð útgjöld fyrir kaupendur og auknir möguleikar fyrir þá að hafa meira af þessari hollu og góðu vöru. Áður en frv. er samþ., vildi ég fá rannsakað, hvort þessi möguleiki er ekki fyrir hendi.