02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (1785)

89. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Flm. (Jónas Guðmundsson):

Ég sé, að hæstv. forseti vill fara að ljúka þessum umr. og það vil ég gjarnan líka.

Hv. þm. Snæf. þarf ég litið eitt að svara. Hann talaði með skilningi um þetta mál. Sveitirnar vilja vitanlega ekki láta skattleggja sig fyrir kaupstaðina og kaupstaðirnir ekki fyrir sveitirnar. Hinsvegar er það, að í mínu frv. eru það fyrst og fremst vandræði kaupstaðanna, sem reynt er að leysa. Mér er það vel ljóst sem flm. þessa frv., að í því felst lítil lausn fyrir sveitahreppana, en í því felst talsvert mikil lausn fyrir þá hreppa, sem eru kaupstaðir eða kauptún. Í sambandi við þetta vil ég endurtaka það, að á undanförnum þingum hefir verið unnið að því, að létta af sveitunum og færa yfir á kaupstaðina. Það er þess vegna fullkomið samræmi í mínum skoðunum við það, sem ég hefi unnið að áður hér á Alþingi. Ég hefi verið með því, að breyta framfærslul. og flytja aðalþunga framfærslunnar af sveitunum, sem ekki hafa lengur haft bolmagn til þess að rísa undir byrðum sínum, yfir á kaupstaðina. En þegar óáran herjar á kaupstaðina, þá er það skylda þingsins, að veita kauptúnunum og kaupstöðunum heimild til þess að reyna að standa undir byrðum sínum, svo að þeir þurfi ekki að leita á náðir ríkissjóðs. Þetta er álit mitt, og er það sett svo skýrt fram í grg. frv., að það ætti að vera hverjum manni auðskilið.

Hv. þm. Snæf. sagði, að það væri ósamræmi í því hjá mér, að gerast flm. að því, að létta útflutningsgjaldi af sjávarafurðum. Það er rangt hjá hv. þm., að ég ætli að létta því af. nema þá að litlu leyti, þ. e. hvað saltfiskinn snertir. Þetta er gert í ákveðnu augnamiði, til þess að endurreisa eða a. m. k. reyna að endurreisa ýmsar greinar sjávarútvegsins, og um það geri ég ráð fyrir að geta talað síðar. Ég vil benda á, að það er mikill munur á því, hvort t. d. af saltfiskverðinu er tekið 11/2 % eða aðeins 1/4%, og það er mikill munur á því, hvort þetta 11/2 % er látið renna í ríkissjóð eða þessi 1/4 % eru látin ganga til bæjar- og sveitarfélaga til þess að létta af þeim mönnum, sem framleiða þessa vöru.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að þessir skattar væru bæði ranglátir og heimskulegir; hann vissi ekkert eins heimskulegt og taka þessa skatta. Ég vil spyrja þennan hv. þm. og alla aðra: Er ekki einmitt af þessum mönnum, sem borga þennan skatt, sem meiriparturinn af útsvörunum hefir verið tekinn undanfarið? Og hvaða munur er á að taka þetta gjald af hinni útfluttu vöru eða taka það með beinum skatti? Til þess að gefa mönnum hugmynd um, hvað litla þýðingu það hefir í þessu sambandi, þó að allur tekjuskatturinn yrði tekinn af ríkissjóði og honum skipt á milli sveitarfélaga og kaupstaða, vil ég benda á, að tekjuskatturinn árið 1936 hefir orðið við lauslega uppgerð 1 millj. og 800 þús. kr. Af þessari upphæð hefir tilfallið frá Reykjavík 1 millj. og 400 þús. kr. Frá öllum hinum kaupstöðunum sjö hafa komið 220 þús. kr., en úr öllum sveitum aðeins 180 þús. kr. Ef ætti nú að taka allan tekju- og eignarskatt af ríkissjóði og leggja hann til sveitar- og bæjarfélaga, og skipt yrði í hlutfalli við það, hvað kom úr hverjum stað, þá myndi engan muna um þetta nema Reykjavík og Akureyri. Annað mál er það, ef farið væri inn á till. hv. þm. Snæf. um það, að leggja í einni heild útsvörin á allt landið, og láta ríkissjóð innheimta þau og endurborga síðan til sveitarfélaganna. En það þyrfti að breyta skattstiganum til þess. — Ennþá minni þýðingu hefði að taka fasteignaskattinn, um 400 þús. kr., sem sennilega allt að því helmingurinn af greiðist í Reykjavík, því að hann er greiddur af virðingarverði húsanna, og matið er tiltölulega langhæst í Reykjavík. Og hvað sem um þetta verður sagt, þá vil ég segja, að það, sem á að gera er fyrst og fremst að sjá kaupstöðunum og kauptúnunum fyrir tekjustofnum. Það eru þeir, sem á er herjað af allskonar óáran og vandræðum, bæði hvað snertir verzlun og annað atvinnulíf. Þess vegna eru það þeir, sem Alþingi á að sjá fyrir tekjuaukningu, og verði þetta frv. samþ. og gert að l., þá mun það veita þeim stórkostlegan tekjuauka. Betur get ég svo ekki gert, og verður það þingsins að skera niður eða samþ. þetta frv.