02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í C-deild Alþingistíðinda. (1787)

89. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Thor Thors:

Það er tvennt í ræðu hv. 6. landsk., sem ég vildi svara. Hann vildi afsaka þennan nýja framleiðslutoll á sjávarafurðirnar með því, að það væri einhver munur á útflutningsgjaldinu, sem verið hefir 15/8% og rynni í ríkissjóð og þessu 1/4 %, sem hér er um að ræða. Það er rétt, að hér er um talsverðan mismun að ræða, en munurinn á því, hvert féð rennur, er ekki mikill. Það má segja, að þegar þetta útflutningsgjald rennur í ríkissjóð, þá komi það framleiðendum að gagni og standi undir nauðsynlegum framkvæmdum, sem séu öllum til hagnaðar. Þessi nýi framleiðslutollur, sem hv. þm. vill leggja á sjávarafurðirnar, á ekki að renna beint til framleiðendanna sjálfra, heldur á að leggja hann í verðjöfnunarsjóð, sem síðar verði úthlutað eftir ókunnum leiðum. Að vísu segir í frv., að þessi verðjöfnunarsjóður skuli renna til landsmanna eftir íbúatölu hvers kaupstaðar eða sveitarfélags. Nú er það vitað, að framleiðsla sjávarafurðanna stendur ekki í neinu hlutfalli við íbúatöluna. Framleiðsla sjávarafurðanna er á einstaka stöðum á landinu, og er ekkert, sem tryggir, að tollurinn renni til þeirra staða. Hér er um lítil rök að ræða hjá hv. þm., og ég endurtek það, að mér finnst ósamræmis gegna hjá honum í því, að bera Í senn fram till. um að létta útflutningsgjaldinu af sjávarafurðunum og svo aðra um það, að leggja á nýjan framleiðslutoll.

Þá er hitt atriðið, og var það rétt skilið hjá hv. þm., að eðlilegast og heppilegast væri, að hinir beinu skattar, bæði bæjar- og sveitarfélaga og eins ríkisins, væru lagðir á í einu lagi. Ég álít heppilegast, að ríkið legði þennan skatt á samkvæmt sérstakri löggjöf og sæi um innheimtu hans. Síðan yrði þessi skattur endurgreiddur hverju einstöku bæjar- eða sveitarfélagi eftir nánar tilteknum reglum, sem byggðar væru að nokkru leyti á eignum hvers hreppsfélags á landinu og þeirra, sem það byggðu, og að nokkru leyti á þörfum viðkomandi bæjar- eða sveitarfélags. Það er ennfremur rétt hjá hv. þm., að þá þyrfti að hækka skattstigann, frá því sem nú er. En það væri hægt að gera, þó að samtímis yrði svona sköttum létt af þjóðinni. Þessir skattar til ríkis og bæjarfélaga eru orðnir það háir í okkar þjóðfélagi, að hvergi munu þekkjast dæmi til. Það er svo komið hér í Reykjavík, að samkv. síðustu reglum niðurjöfnunarn. á sá maður eða það fyrirtæki, sem hefir yfir 21 þús. kr. í tekjur, að greiða yfir 100% af því, sem fram yfir er þetta 21 þús. Hann verður m. ö. o. að borga með því. Þannig eru nú beinu skattarnir orðnir í okkar þjóðfélagi. Það er þó ekki svo að skilja, að útsvörin í Reykjavík séu sérstaklega há, miðað við aðra kaupstaði landsins. Þau eru með þeim lægstu, sem tíðkast, en verður, ef farið yrði inn á þá braut, að hækka hinn beina skatt til ríkisins, síðar skipt á milli bæjar- og sveitarfélaga.