30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í C-deild Alþingistíðinda. (1792)

91. mál, hampspuni

*Finnur Jónsson:

Mér virðist frv. þetta allathugavert, þar sem t. d. vantar í það öll ákvæði um það, að hægt sé að skerast í leikinn. ef h/f Hampiðjan misnotar þau fríðindi, sem henni yrðu veitt með frv., ef að lögum yrði. Og eftir minni reynslu á hinni innlendu veiðarfæragerð, þá tel ég slíkt mjög varhugavert. Reynslan hefir þegar sýnt, að hin innlendu veiðarfæri eru alltaf 20% dýrari en hin erlendu. og ef svo ætti að fara, að hampgarnið í veiðarfærin yrði 20% dýrari en hin erlendu, þá yrði hér um að ræða svo háan skatt fyrir útgerðina, að eins og nú standa sakir, hefði hún engin efni á að borga hann.

Eitt af því, sem hv. frsm. vildi leggja áherzlu á til réttlætingar þessu frv., var það, að h/f Hampiðjan ætti ekki að vera ein um sölu á garni til veiðarfæragerðar, heldur yrði hún að keppa við erlent garn. Þetta má vitanlega segja, en það á bara enga stoð í veruleikanum. Reynsla er nfl. margbúin að færa okkur heim sannanir um það, að síðan veiðarfæragerðin varð til innanlands, þá hafa engin veiðarfæri fengizt innflutt. Alveg sama myndi verða í þessu tilfelli. Það myndi verða neitað um allan innflutning á erlendu garni. a. m. k. á meðan Hampiðjan væri að borga vélar sínar. Raunin myndi því verða sú, að öll veiðarfæri stórhækkuðu í verði frá því, sem nú er.

Þá sagði hv. frsm., að það væri trygging fyrir vörugæðum, að skipstjórar og útgerðarmenn ættu í fyrirtækinu. ég geri nú ráð fyrir, að sú trygging, sem í þessu og því líku felst, sé mest fyrir þá sjálfa, en minna fyrir aðra. Það sem ég hefði getað skilið, að inn. hefði gert í þessu máli, er það, að hún hefði flutt frv. um, að ríkið tæki í sínar hendur alla hampiðju og veiðarfæragerð til þess að tryggja notendunum hæfilega lágt verð á þessum hlutum. En hitt, að fara að tryggja einu einkafyrirtæki sérréttindi á þessu sviði, finnst mér ekki ná neinni átt, enda mun ég greiða atkv. á móti því.