16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (1833)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Finnur Jónsson:

Ég og hv. 3. landsk. höfum lýst afstöðu okkar til þessa máls á þskj. 264, þar sem við höfum talið okkur þessu máli fylgjandi, að veittur yrði styrkur úr ríkissjóði til byggingar hraðfrystihúsa, og ennfremur, að ríkisábyrgð yrði veitt fyrir lánum til hraðfrystihúsa. Hinsvegar teljum við þann kafla í frv. því, sem við erum meðflm. að á þskj. 151, sem víkur að byggingu hraðfrystihúsa og styrk til þeirra, það ýtarlegan, að við viljum sjá, hvernig málinu reiðir af, áður en við tökum þátt í fullnaðaratkvgr. þessa máls, sem hér liggur fyrir. Þetta frv. á þskj. 151 verður til umr. hér í þessari hv. d. í kvöld, og mun þá eflaust verða ráðin forlög þess. Eftir að þau eru séð, munum við ef frv. nær ekki fram að ganga, vera reiðubúnir til þess að koma með brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir, í samræmi við þær till. um styrk til hraðfrystihúsa og með þeim skilmálum, sem teknir eru fram í frv. á þskj. 151. Við munum fylgja málinu til 3. umr., en áskiljum okkur rétt til þess að koma fram með ýtarlega brtt. við frv. — Hv. þm. Barð. er meðflm. að sérstakri þáltill. um þetta efni, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram sem styrk 1/4 af stofnkostnaði hraðfrystihúsa, en ekki frekari ábyrgð. ég skal nú ekki fara út í þetta nánar, hvorki frv. það, sem hér liggur fyrir, né heldur till. þá, sem hv. þm. Barð. er meðflm. að, en ég vil aðeins benda á það, að í hvorugum þeim till. er gert ráð fyrir, að mínu áliti og hv. 3. landsk., nauðsynlegri rannsókn á þessu máli, áður en hafizt er handa. Ég hygg, að það þurfi að gera ýtarlega tilraun um það, á hvaða stöðum eigi að byggja slík hraðfrystihús, og það verður að velja þá staði eftir því, hvar þörf útgerðarinnar er mest og hvar mestir möguleikar eru á því, að geta notað þau hlunnindi, sem þessi hraðfrystihús eiga að geta veitt útgerðinni sem fyrst og með sem beztum árangri.