07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í C-deild Alþingistíðinda. (1917)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skil það vel, að sjálfstæðismönnum sé ekki vel við, að verið sé að rifja upp fyrri afstöðu þeirra til málsins. En það er af því, að þeir hafa látið sér sæma í grg. frv. síns að vera með hnútur í garð Framsfl, og flm. þess frv., sem er einnig á dagskrá í dag um sama efni, að þeir séu ekki skeleggir í málum sveitanna. Nú vill hv. þm. Borgf. láta líta svo út, sem þeir hafi verið samþykkir frv. um byggingar- og landnámssjóð á þeim grundvelli sem það var samþykkt, og ágreiningurinn hafi aðeins verið út af því, hvernig ætti að afla sjóðnum tekna. Ég hefi einmitt nýskeð kynnt mér þetta mál, og ég man ekki betur en þáv. form. Sjálfstfl. segði þá, að það væri gott, að þetta frv. ætti sem skemmstan aldur, af því að það væri í því verið að fara fram á ölmusugjafir til handa bændum, og þetta væri styrkur, sem væri ekkert betri en sveitarstyrkur, og þar fram eftir götunum. Þetta er ekkert annað en skemmtileg mynd af því, hvernig Sjálfstfl. var, þegar hann var í meiri hl., og þeim starfsaðferðum, sem hann hefir tekið upp eftir að hann komst í minni hl.