09.04.1937
Neðri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í C-deild Alþingistíðinda. (1934)

106. mál, fiskimatsstjóri

*Flm. (Jón Ólafsson):

Ég hefi séð mig til neyddan að bera fram frv. um afnám l. um fiskimatsstjóra vegna fjölmargra kvartana, er fram hafa komið út af því, hve mjög hann hefir hert á skilyrðunum fyrir því, að flytja megi fisk á Portúgalsmarkaðinn. Ég get sagt, að ég tala hér fyrir munn fjölda manna, er ég fer fram á afnám þessara l., enda hefir það verið mín skoðun frá því fyrsta, að þau væru til ógagns.

Þegar l. voru sett, var það borið fyrir, að fiskimatsstjóri ætti að annast allt mat á landinu og tryggja það, að allir undirmatsmenn sæju um, að matið væri í lagi. Þetta hefir sýnt sig að vera mesta firra. Þá var því og haldið fram, að þessi maður ætti að ferðast til markaðslandanna og kynna sér kröfur neytenda, halda síðan fundi með fiskimatsmönnum hér á landi og kenna þeim. Þetta sýndi sig að vera óþarft, þar sem við höfum fiskifulltrúa í Miðjarðarhafslöndunum, sem samið hefir reglur um matið, er enn eru í gildi. Sjá því allir, að nú, og líklega alltaf, meðan fiskimatsstjóraembættið er til, getur þessi fiskifulltrúi á Spáni ekkert haft að gera, en hann var sjálfkjörinn til að koma á framfæri skilaboðum og umkvörtunum frá neytendum. — Tveggja ára reynsla sýnir, að þessi l. hafa ekki náð tilgangi sínum. Hinsvegar datt víst engum í hug, að af þessu myndi leiða mikinn skaða fyrir landið. Við fiskframleiðendur og fiskútflytjendur höfum gert allt, sem unnt var, til að þóknast neytendum, ekki með því að láta alltaf undan kröfum þeirra, heldur með því að reyna með lempni að koma inn á markaðinn vörum, sem þeir gátu orðið ánægðir með. Til dæmis mun Kveldúlfur fyrst hafa komið á Barcelonamarkaðinn fiski þeim, sem kallaður var „treikvart“, og hefir hann síðan verið seldur þangað. Jón Magnússon, sem hefir manna bezt vit á fiski, gat sýnt þeim þar fram á, hversu miklu betri matur þessi linverkaði fiskur var. Gat hann komið því til leiðar, að slakað var um 10% á saltinu. Nú höfum við flutt til Spánar fyrir á þriðja hundrað millj. af þessum fiski, og 10% af því eru allmargar millj., svo að allir geta séð, að hér er um álitlega fjárhæð að ræða. Þá kom Jón Magnússon því einnig til leiðar á Norður-Spáni, að veitt var 5% tilslökun á þurrkstigi. Þegar á allt þetta er litið, má gera sér grein fyrir því þarfa starfi, sem þessir menn hafa unnið þarna með natni og nákvæmni, og hversu mikið fé þeir hafa aflað landinu með því að taka hæfilegt tillit til þess, sem neytendur kröfðust.

Þegar þetta embætti var stofnað, var það fyrsta verk fiskimatsstjóra að fá sér rakamæli, er hann, sendi til og frá, svo að þurrkað yrði eftir því þurrkstigi, sem hann taldi eiga að vera. En það var harðara þurrkstig en á þeim fiski, sem áður hafði verið sendur á þessa staði. Mér er kunnugt um það, hvaða þurrkstig mátti teljast hæfilegt, því að Alliance hafði sent fisk með þeirri þurrkun á Portúgalsmarkaðinn, og hafði aldrei komið kvörtun um það, að þurrkstigið væri ekki rétt. Eitt árið sendum við fyrir 10 millj. til Portúgals. Ég fullyrði, að fiskurinn hafi verið um 5–10% ofþurrkaður, eða um 7% að meðaltali, og 7% af 10 millj. er talsverður skildingur, eins og menn sjá.

Ég fer ekki frekar út í þetta mál, en ég vænti þess, að n., sem fær þetta mál til meðferðar, geti fyrir mitt tilstilli fengið nokkra menn til að bera vitni um það, að mín afstaða í þessu máli hefir við rök að styðjast. Ég tel því óþarft að ganga nærri fiskimatsstjóra eða að fara um þetta fleiri orðum. Vona ég svo, að mér verði hlíft við að taka oftar til máls um þetta efni. Málið heyrir undir sjútvn., og treysti ég henni til að rannsaka það svo, að hún geti myndað sér örugga skoðun um það. Legg ég til, að málinu verði vísað til sjútvn, og 2. umr.