16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í C-deild Alþingistíðinda. (1953)

109. mál, viðreisn sjávarútvegsins

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Mál það, sem hér er til umr. á þskj. 151 og þm. Alþfl. flytja, myndi hafa vakið athygli, ef þeir hefðu flutt það strax og þeir fengu hluttöku í stjórn landsins eftir síðustu kosningar. Og jafnvel þótt það hefði ekki komið fram fyrr en á þessu þingi, mundi það hafa vakið athygli, ef það hefði verið flutt í þingbyrjun og ekki í sambandi við þingrof og nýjar kosningar.

Þingið, sem nú situr, er fjórða þingið síðan síðustu þingkosningar fóru fram. Sagt er, að það verði rofið innan fárra daga. Vissulega væri því hentugur tími nú fyrir Alþfl. til þess að rifja upp fyrir sér, hvað hann hefir gert á þessu tímabili til viðréttingar sjávarútveginum. Hitt mun flestum sýnast bera nokkuð einkennilega að, að þessi flokkur, sem farið hefir með völd allt tímabilið og haft aðstöðu til að fá umbótatillögur samþ. öll þessi ár, skuli nú fyrst, viku áður en kjörtímabilinu lýkur, koma fram með tillögur sínar um „alhliða viðreisn sjávarútvegsins.“ eins og flokkurinn orðar það í blaði sínu. Ég held, að réttara hefði verið að kalla þetta frv. tilraun til alhliða viðreisnar á mannorði Allþfl. vegna afskipta hans af sjávarútvegsmálum.

En þótt þessi tilraun Alþfl. til þess að punta biðilsbuxur sínar sé dálítið brosleg, gefur hún okkur sjálfstæðismönnum þó æskilegt tækifæri til þess að skýra alþjóð frá því, hvernig þessi flokkur, Alþfl., hefir snúizt við viðreisnarmálum sjávarútvegsins, meðan tími og aðstaða var til að sinna þeim. Mun af því mega sjá, af hve djúpri og göfugri rót frv. þetta er sprottið og hvers virði sjávarútveginum muni vera þessi nýja vinátta, þetta afturhvarf Alþfl. á dauðastundinni.

Þess er ekki að dyljast, að flm. frv. þess, sem hér er til umr., munu hafa ætlazt til, eins og menn hafa heyrt af ræðu hv. 6. landsk., að því verði trúað, að hér séu á ferðinni algerðar nýjungar og að þeir séu brautryðjendur, einu mennirnir, sem til þess hafi vit, þekkingu og vilja að segja fyrir leið í sjávarútvegsmálum. Það mun nú að sönnu þurfa einstaklega einfalda menn til að trúa því, að þá menn, sem stunda sjávarútveg og hafa stundað allan sinn aldur, skorti öðrum fremur þekkingu og hugkvæmni í þeim málum, og þó einkanlega góðan vilja, en að samskrap sósíalista hafi þar yfirburði yfir alla. Eigi að síður tel ég skylt að leggja fram nokkrar staðreyndir í þessu máli, og ætlast þá til, að þær jafnframt nagi til að hnekkja slagorðaþvættingi þeim, sem ég því miður verð að kalla ræðu hv. 6. landsk.

Þetta um stofnlánastarfsemi fyrir útveginn er nú ekki sérstaklega frumleg hugmynd. Það mun hafa verið á þinginu 1928, sem sjálfstæðismenn hófu baráttu fyrir því, að séð yrði fyrir stofnlánum til útgerðarinnar í samræmi við þarfir hennar. Báru þeir þá fram frv. um eflingu fiskveiðasjóðs Íslands. Mál þetta mætti þegar andstöðu og óvild núv. stjórnarflokka, og var það ekki fyrr en á þinginu 1930, að samþ. fengust núgildandi lög um fiskveiðasjóð Íslands. Lögin urðu ekki svo fullkomin eða hagkvæm sem sjálfstæðismenn vildu, en þó stórvægileg umbót frá því, sem áður var.

Skv. þessum lögum á ríkissjóður að leggja sjóðnum eina millj. króna, og var síðar með reglugerð ákveðið, að þessi millj. skyldi greiðast með 100 þús. kr. á ári og vera að fullu greidd árið 1941. Auk þess skyldi lagt aukaútflutningsgjald á sjávarafurðir, 1/8%, er renna skyldi í sjóðinn. Sex ár eru nú liðin síðan lög þessi komu til framkvæmda, en ríkissjóður hefir ekki enn greitt sjóðnum einn eyri af milljóninni. Hefir sjóðurinn því orðið að starfa með dýru lánsfé, og því ekki risið undir hlutverki sínu. Í þessari framkomu stjórnarflokkanna birtist að mínu viti mjög greinilega umhyggja þeirra fyrir útgerðinni, og einlægni þeirra í því að sjá henni fyrir hagkvæmum stofnlánum.

Á þinginu 1933 fluttu sjálfstæðismenn þáltill. í 6 liðum. Var þar skorað á ríkisstj.:

1. að rannsaka og safna skýrslum um fjárhagsástæður og afkomuhorfur sjávarútvegsmanna um land allt.

2. að undirbúa tillögur til úrlausnar vandamálum útvegsmanna, einkum um ráðstafanir af hálfu hins opinbera til að firra þá vandræðum vegna yfirstandandi krepputíma.

3. að athuga leiðir til þess að treysta betur en nú er sameiginlega hagsmuni vinnuþiggjenda og vinnuveitenda, þeirra er vinna að sjávarútveginum bæði á sjó og landi, og gera tillögur til að draga úr fjárhagsáhættu útvegsins.

4. að rannsaka skilyrði fyrir bættum og fjölbreyttari verkunaraðferðum.

5. að gera tillögur um framkvæmdir til aukins markaðar fyrir fisk, fiskafurðir og aðrar innlendar framleiðsluvörur.

6. að undirbúa rekstrarlánastofnun fyrir bátaútveg landsmanna.

Mál þetta horfði ekki illa í byrjun, því þá var í sæti atvmrh. maður vinveittur sjávarútvegi. Skipaði hann nefnd þriggja manna til að leysa af hendi það verk, sem í þingsályktuninni ræðir um, og var form. nefndarinnar hv. núv. þm. Vestm.

Með áliti því og skýrslum, sem nefndin skilaði atvmrh., fylgdu fjögur frumvörp: um skuldaskil útgerðarinnar, um fiskveiðasjóð Íslands, um rekstrarlánafélag bátaútvegsmanna og um vátryggingu opinna vélbáta. — Auk þess fylgdu tillögur um afnám útflutningsgjaldsins, um markaðsleitir, um það, að hafizt yrði handa um verkun og úfflutning harðfisks, kalds fisks, mg hraðfrysts fisks, niðursoðinna fiskafurða og ýmislegt fleira.

Allt þetta fekk nefndin atvmrh. í hendur. En svo óheppilega hafði nú skipazt fyrir útgerðina að stjórnarskipti höfðu orðið, og í atvinnumálaráðherraembættið var kominn maður úr Alþfl. Er skemmst frá að segja, að ráðh. stakk flestum tillögunum undir stól. — Þetta vona ég að færi mönnum heim sanninn um það, að það eru engar nýjungar, sem bornar eru fram í þessu frv. á þskj. 151. Allt, sem þar er nýtilegt, og margt fleira er löngu áður borið fram af sjálfstæðismönnum, en hefir strandað á andstöðu núv. stjórnarflokka, og þó einkanlega Alþýðuflokksins.

En sagan er ekki öll sögð enn.

Þegar sjálfstæðismenn sáu, að atvmrh. vildi ekki sinna tillögum milliþinganefndarinnar, afréðu þeir að leggja fyrir þingið 1934 fumvörp um alhliða viðréttingu sjávarútvegsins. Veit ég, að engum muni hafa þótt þetta bera vott um hlutdrægni eða óeðlilega umhyggju fyrir sjávarútveginum fram yfir aðra atvinnuvegi, því búið var þá að gera ráðstafanir til hjálpar landbúnaðinum. En verzlun og smáiðnaður hér á landi eiga að mjög miklu leyti þrifnað sinn undir því, að sjávarútvegurinn standi með blóma. Vænti ég líka, að fleiri en sjálfstæðismenn viti það og hafi þá þegar vitað, að ríkisbúskapurinn er að langmestu leyti byggður á afkomu sjávarútvegsins, og að verulegur hluti þjóðarinnar hefir beint eða óbeint lífsuppeldi sitt af honum. Það mun því verða litið svo á af öllum vitibornum mönnum, að með þeim ráðstöfunum, sem sjálfstæðismenn lögðu til, að gerðar yrðu til þess að koma í veg fyrir hrun sjávarútvegsins, væri fyrst og fremst séð fyrir hag alþjóðar.

Fyrsta frv. sjálfstæðismanna til viðréttingar útgerðinni var frv. þeirra um skuldaskil fyrir alla útgerð landsmanna. Stjórnarflokkarnir snerust öndverðir gegn þessum tillögum og gengu Alþfl.mennirnir þar fram fyrir skjöldu. Stóð baráttan um þetta lengi með hinni mestu hörku. Og loks eftir það, að margar þúsundir manna úr flestöllum verstöðvum á Íslandi höfðu sent Alþingi alvarlegar áskoranir um það, að samþ. frv. sjálfstæðismanna, fengust skuldaskil fyrir nokkurn hluta útgerðarinnar. En ófullkomin þó. Og þótt telja verði, að sjálfstæðismenn ynnu hálfan sigur í þessu máli, varð hann þó að minna gagni fyrir útgerðina en orðið gat, sökum þess að ekki náðu fram að ganga þar ráðstafanir, sem gera þurfti til þess að bæta rekstrarafkomuna.

Engin þjóð í heimi, önnur en Íslendingar, leggja útflutningsgjald til ríkissjóðs á fisk. Þar á móti greiða margar fiskiveiðaþjóðir útflutningspremíur á útfluttan fisk. Og nú er svo komið, að allar samkeppnisþjóðir okkar um saltfiskmarkaðinn hafa ríkisstyrk til útflutningsins, auk margháttaðs stuðnings á annan hátt. Svo er um Norðmenn, Dani (Færeyjar) og Frakka. við sjálfstæðismenn töldum og teljum það hina mestu fásinnu að taka hið háa útflutningsgjald, sem hér er tekið af útfl. sjávarafurðum. Við fluttum því strax á þinginu 1934 frv. um afnám útflutningsgjalds af fiski. Þingið, sem nú situr, er 4. þingið, sem haft hefir þetta til meðferðar. En það hefir aldrei náð fram að ganga. Hafa engir tekið þverar í þetta mál en þm. Alþfl., sem talið hafa þessu kröfu sjálfstæðismanna bera vott um þið mesta ábyrgðarleysi og ósamrýmanlegt hag ríkissjóðs.

En nú er allt í einu komið nýtt hljóð í strokkinn. Þingrofið og væntanlegar kosningar hafa unnið kraftaverk í Alþfl., því nú er afnám útflutningsgjaldsins allt í einu orðið baráttumál flokksins; meira að segja heldur hann því nú fram, að gjaldið eigi engan rétt á sér og að ríkissjóður geti auðveldlega verið án þess. Allt þetta segir flokkurinn um leið og hann kemur frá því að drepa málið í fjórða sinn.

Á þessu sama þingi, fyrsta þingi kjörtímabilsins, fluttu sjálfstæðismenn frv. um eflingu fiskveiðasjóðs Íslands. Eftir frv. skyldi stofnfé sjóðsins aukast upp í 12 millj. kr. Sjálfstæðismenn töldu það höfuðskilyrði fyrir viðgangi sjávarútvegsins, að fiskveiðafloti landsmanna væri ávalt í nýtízku ástandi og að öflugur iðnaður risi upp við hlið hans, svo Íslendingar gætu sjálfir unnið úr sjávaraflanum hinar verðmætustu útflutningsvörur. En til þess þurfti að koma upp öflugri stofnlánstofnun, er væri þess megnug að lána hagkvæm lán til skipabygginga og verksmiðjubygginga. Þess vegna er sjóðnum, skv. frv. sjálfstæðismanna, ætlað að starfa með eigin fé og lána gegn 4–41/2% vöxtum til bygginga stærri og smærri skipa, síldarverksmiðja, fiskimjölsverksmiðja, niðursuðuverksm., frystihúsa o. fl.

Frv. þetta höfum við flutt á fjórum þingum í röð, þar á meðal á yfirstandandi þingi, og hefir Alþfl. í öll skiptin lagzt á móti því. Það er því næsta skoplegt, er þm. flokksins tína þetta allt upp í frv. sitt, og ætla nú alveg að rifna af áhuga fyrir öllum þessum málum, sem meira að segja á þessu þingi hafa ekki einu sinni fengizt rædd fyrir andúð og ofríki Alþfl.

Í öllum smærri verstöðvum landsins eiga bátaútvegsmenn við þá örðugleika að stríða að kaupa vörur til útgerðarinnar langt yfir sannvirði. Stafar þetta af því, að menn geta ekki fengið vörurnar beint á staðinn og greitt þær við móttöku, svo á þær hleðst mikill aukakostnaður.

Við sjálfstæðismenn fluttum því á þinginu 1934 frv. um rekstrarlánafélög bátaútvegsmanna. Með því frv. átti að gera lánstofnunum fært, án verulegrar áhættu, að veita smáútvegsmönnum rekstrarlán, en það átti aftur að tryggja útvegsmönnum það, að þeir fengju vörur til útgerðarinnar með lægsta stórsöluverði. Hefir þetta verið og er mjög almenn ósk útvegsmanna.

Frv. hefir legið fyrir þrem þingum, en Alþfl. hefir séð um að það yrði ekki að lögum, og nú þegar Alþfl. er á þessu þingi að murka úr því lífið í þriðja sinn, kemur álit óskanefndar flokksins, Rauðku, og flytur þá staðhæfingu, að bátaútvegsmenn verði að kaupa vörur til útgerðarinnar að meðaltali 50% yfir sannvirði.

Frv. um fiskiráð fluttu sjálfstæðismenn á þinginu 1934. Það atti að bæta úr þeirri höfuðnauðsyn útgerðarinnar að ryðja nýjar brautir á sviði framleiðslu og markaða. En Alþfl. og bandalagsflokkur hans drápu þetta frv. Upp úr hugmyndinni suðu þeir síðan lögin um fiskimálanefnd. — En sú nefnd sannar átakanlega hvernig goð hugmynd getur orðið notuð til ófarnaðar, ef hún er tekin í þjónustu ills tilgangs.

Ræðutími minn leyfir ekki, að ég reki öll þau mál, sem Sjálfstfl. hefir á þessu kjörtímabili flutt í þeim tilgangi að styðja sjávarútveginn. En áður en ég hverf frá þeirri upptalningu, er þó skylt, að ég minnist þriggja mála, sem flokkurinn hefir flutt og Alþfl. ekki lagzt á móti. Þetta eru tvær þingsályktunartillögur, önnur um friðun Faxaflóa fyrir botnvörpuveiðum, hin um sjómælingar og rannsóknir fiskimiða. Hafa tillögur þessar náð samþykki þingsins. — Þriðja málið er frv. um byggingu hraðfrystihúsa í verstöðvum landsins. Það frv. er á leið gegnum þingið, og hafa Alþfl. þm. dregizt á að verða því ekki að bana.

Þótt ekki sé tóm til að hafa upptalningu þessa lengri, ætla ég, að af henni sé ljóst, að sjálfstæðismenn hafa gert sér far um að rannsaka mein þau, sem þjáð hafa útgerðina og gert rekstur hennar erfiðan, og að þeir hafa gert víðtækar tillögur til umbóta. Þeir hafa gert tillögur:

um, að útgerðinni verði komið á öruggan fjárhagsgrundvöll með skuldaskilum, að útflutningsgjaldinu verði létt af, um endursköpun veiðiflotans í nýtízku skip, um tryggingu markaða og leit að nýjum mörkuðum,

um breytta framleiðslu eftir kröfum neytenda ýmsra landa,um fjölbreyttan verksmiðjurekstur til þess að vinna verðmætar vörur úr veiðiföngum,

um rannsókn fiskimiða og fiskistofna og friðun uppeldisstöðva nytjafiska.

Ég tel nú engan vafa á því, að allir þeir, sem heyrt hafa mál mitt, hafi af því máli skilið, að Alþfl. hefir átt þess kost á hverju þingi allt þetta kjörtímabil að veita stuðning og koma í lög öllum þeim umbótum, sem hann nú ráðgerir og hefir tínt á þessa eindagskrá sína. En hann hefir ekki stutt þær, heldur veitt þeim mótstöðu, og hana oftast allillvíga.

Það er að sönnu eðlilegt, að sjálfstæðismenn hafi meiri áhuga en aðrir flokkar fyrir umbótum á sviði sjávarútvegsins og gleggri skilning á þörfum hans, því flestir þeir, sem hafa að lífsstarfi útgerð til fiskveiða, hagnýtingu sjávaraflans og verzlun með sjávarafurðir, eru í Sjálfstfl. En þar fyrir þurftu stjórnarflokkarnir ekki að rísa gegn þessum málum, sízt sæmdi Alþfl. að gera það, því að margt af því fólki, sem hann þykist sjálfkjörinn til að fara með umboð fyrir, á allt sitt undir því, að sjávarútvegurinn geti veitt þeim, sem að honum vinna, ríkulegt lífsuppeldi. Eigi að síður hefir þetta gengið svo, og er það kunnara en um það þurfi að hafa hér mörg orð. Út um byggðir landsins hafa borizt tíðar fréttir af hörðum deilum hér á Alþingi. En af þeim hafa deilurnar um sjávarútvegsmálin verið harðastar. Í þeim deilum hafa staðið annarsvegar sjálfstæðismenn með þær lágmarkskröfur f. h. sjávarútvegsins, að hann fengi í friði að rétta sig við sjálfur og hátt yrði að ofsækja hann með takmarkalausum álögum og höftum, — og þar næst að ríkið veitti honum stuðning til að laga sig eftir breyttum skilyrðum í markaðslöndunum. Á móti hafa staðið stjórnarflokkarnir. Hafa deilur þessar verið svo háværar, að stundum hefir almenningur í sjávarbyggðunum risið upp og gert kröfur sjálfstæðismanna að sínum kröfum, eins og áskoranir þúsunda manna til Alþingis bera óhrekjandi vitni um. Það er því með öllu vonlaus tilraun, sem alþfl. nú gerir til þess að hafa hausavíxl á þessum staðreyndum.

Nú kynni sú spurning að vakna hjá einhverjum, hvort við sjálfstæðismenn gleðjumst ekki yfir þessum sinnaskiptum andstæðinganna, og hvort við munum ekki þiggja stuðning þeirra með fögnuði. Það mundum við vissulega gera, ef við hefðum nokkra trú á því, að hugur fylgdi máli. En því miður eru engar líkur til þess.

Þó fortíðinni væri sleppt, sem ekki er unnt, vitnar þó ærið margt á móti þessum mönnum. Þeir hafa sjálfir sagt í útvarpsumr. fyrir nokkrum dögum, að þessi atvinnurekstur sé svo að segja allur í höndum andstæðinga þeirra. En það er löngu sannað, að þroski forystumanna Alþfl. er ekki meiri en það, að þá óvild, sem þeir ala í brjósti til sjálfstæðismanna, hafa þeir yfirfært í atvinnurekendur, landi og lýð til ófarnaðar.