09.04.1937
Neðri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í C-deild Alþingistíðinda. (2023)

132. mál, friðun hreindýra

*Flm. (Hannes Jónsson):

Ég get þakkað hæstv. fjmrh. undirtektir hans, a. m. k. við aðalatriði þessa máls. Vonast ég til, að samkomulag geti orðið um að fá afgr. ákvæði í þá átt, sem ég legg hér til. Það, sem fram kemur í þessum umr., bendir einmitt til, að nauðsynlegt sé að fylgjast betur með viðgangi hreindýrastofnsins heldur en gert hefir verið. Bæði ég og hæstv. fjmrh. höfum heyrt, að hreindýrin séu ekki orðin nema um hálft hundrað, og má nokkuð á milli vera, ef þau, eins og hv. 2. þm. N.-M. heldur fram, skipta jafnvel þúsundum. Þetta sýnir, hvað nauðalítið menn fylgjast með viðgangi þessara dýra. Ég er að vísu ekki kunnugur vegalengdum þarna eystra, en það getur á engan hátt talizt ókleift að fara um hálendið og veita eftirtekt lifnaðarháttum dýranna og fylgjast með, hvernig ástatt er um stærð stofnsins.

Hæstv. ráðh. vil ég segja það, að þó ekki væri um að ræða nema 40 dýr, gæti verið fullkomin ástæða til að lóga nokkrum törfum. Ef helmingur stofnsins eða meira er tarfar, getur það verið óheppilegt fyrir viðgang hjarðarinnar, eins og ég veit, að hæstv. ráðh. skilur, þó ég fari ekki út í það frekar. Sé stofninn eins stór og hv. 2. þm. N.-M. álítur, getur verið mikil ástæða til að leyfa að skjóta tarfana. Þeir þurfa ekki að vera nema í mesta lagi 20% af hjörðinni, en miklar líkur eru til, að þegar allt elst upp, sem lifað getur, þá verði þeir fleiri en kýrnar, því þeir ættu að vera betur gengnir undan og síður hætt við slysförum og öðrum áföllum á vorin. Ég held, að ef þetta er allt athugað til hlítar, þá komist menn að þeirri niðurstöðu fyrr eða seinna, að fara beri þá leið, sem ég hefi bent á. Því skiptir mestu máli, að eftirlitsstarfið sé sett á stofn. Ég vil bæta því við, að í sambandi við dráp tarfanna lagði ég ekki aðaláherzluna á það, að með því væri hægt að útvega refafóður. Ég talaði um það sem framtíðarmöguleika, að e. t. v. mætti auka hreindýraræktina með þetta fyrir augum.