06.03.1937
Efri deild: 15. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í C-deild Alþingistíðinda. (2056)

48. mál, uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég get verið sammála hv. flm. um það, að hér sé mikið vandamál á ferðinni, sem fullkomin nauðsyn er að leysa úr sem bezt. En hinsvegar get ég ekki verið flm. sammála um það, að nú á seinni tímum sé eitthvert ógurlegasta skemmda- og spillingatímabil, sem yfir landið hefir gengið, eins og hv. flm. komst að orði; að ástandið fari svo hraðversnandi, að horfi til fullkominnar eyðileggingar fyrir þjóðlífið, held ég sé ofmælt. Ástæðan fyrir því, að svo kynni að virðast, er sú, að nú liggja fyrir tölur um þetta. Nú er farið að vinna gegn þessum vandræðum, og nú er komið barnaverndarráð og barnaverndarnefnd, sem sjá fyrir þessu málefni og birta glöggar skýrslur, sem ekki var áður til að dreifa. Þess vegna fá menn yfirlit yfir þetta, en menn mega ekki láta þetta blinda sig svo, að þeir haldi, að áður en þessar stofnanir komust upp, hafi allt verið í himnalagi í þessum efnum. Því miður hefir það verið hér eins og annarsstaðar, að óknyttir hafa átt sér stað í stærri og smærri stíl meðal unglinga, en það eru engar sannanir fyrir því, að þessi faraldur fari mjög í vöxt. Hitt veit ég, að skýrslur sýna glöggar nú en áður ástandið eins og það er, einmitt vegna þess, að nú er farið að starfa að þessu máli af barnaverndarnefnd og ráði; nú er málið tekið til athugunar, sem ekki var gert áður. Menn mega ekki skilja orð mín svo, að ég vilji draga úr nauðsynlegum aðgerðum í málinu, en Það er bara ekki rétt, að málið sé borið fram á þeim grundvelli, að nú á þessum síðari tímum sé ástandið í þessum efnum svo miklu verra en verið hefir. Og hinu get ég heldur ekki látið ósvarað, sem fram kom í ræðu hv. flm., að það séu háskalegar kenningar og stefnur, sem flokkar, stéttir og blöð hefðu boðað þjóðinni, er væru undirrót þessara skaðsemda. (GL: Ég nefndi hvorki flokka né stéttir). Ég bið þá afsökunar, ef ég hefi misskilið. Ég vil á engan hátt mæla bót og tel mér ekki nákomið að mæla bót Þjóðviljanum; hann er oft fyrir neðan allar hellur. (GL: Hæstv. ráðh. ætti að gera hann upptækan). Það heyrir nú ekki undir mig en ef það ætti að gera þetta blað upptækt, þá ætti jafnt yfir alla að ganga, og þá væri rétt að gera mörg blöð upptæk. Ég sé t. d. daglega í blöðunum því haldið fram, að ríkisstj. og meiri hluti þings sé fólk, sem vitandi vits sé að spilla afkomumöguleikum landsmanna, eyða verðmætum og ofsækja fólkið. Hv. flm. hneykslast ekki á þessu og vitnar ekki til þess. Ég er sammála hv. flm. um það, að oft er ósæmilega að orði komizt í þessu blaði, og einnig í blöðum, sem eru nákomin hv. flm.

Ég get sagt hv. flm., hvað ég tel aðalrót þessarar alvarlegu meinsemdar, óknytta unglinga; ég hygg ekki, að það séu bíómyndir, bækur eða blaðaskrif nema að tiltölulega mjög litlu leyti; aðalrót þessa meins er því miður annarsstaðar að finna. Hún er fyrst og fremst í ákaflega misjöfnum lífskjörum fólksins og misjöfnum aðbúnaði þess, auk þess sem innræti einstaklinganna er að sjálfsögðu misjafnt. En það veit hv. flm. eins vel og nokkur annar, að skorturinn er að jafnaði langsárastur og tilfinnanlegastur, þegar rétt við nefið á þeim, sem skortinn líður, eru allsnægtir. Manneskjan er þannig gerð, að það hlýtur að verka mjög óheppilega á hvern einstakling og þjóðfélagið í heild, að slíkar andstæður skuli vera hlið við hlið, og því miður eru þessar andstæður mjög áberandi, sérstaklega í stærri bæjum, eins og Reykjavík. Þetta er grundvallarmeinsemdin, ekki aðeins að því er snertir þetta mál, heldur líka mörg önnur af vandamálum þjóðfélagsins, bæði líkamleg heilbrigðismál og einnig á því andlega sviði. Þetta er það, sem ég vildi segja almennt um málið.

Ég vil endurtaka þau ummæli mín, að menn mega alls ekki taka það svo, að ég vilji mæla gegn málinu. Þvert á móti vil ég taka undir það, að það er fullkomin nauðsyn á aðgerðum í þessu máli, og eitt af því, sem ég álít, að gera þurfi, er, eins og tekið er fram í frv., að koma upp uppeldisheimilum fyrir vangæf börn, en þó get ég ekki stillt mig um að benda á það nú strax við 1. umr., að það þarf mjög mikla aðgæzlu, áður en börn eru brennimerkt sem óknyttabörn með því að setja þau á þessi hæli, því að sé um smáyfirsjón að ræða, þá er hæpið að setja börnin á slík hæli, því að það hefir sýnt sig í nágrannalöndum vorum, að börn, sem hafa verið sett á hæli fyrir óknyttabörn, eru skilin frá öðrum börnum og sett sem vanmetakindur í sérstakan flokk, og ef hægt er að ná sama árangri, að því er snertir uppeldi og breytingu á hugarfari barnanna, á annan hátt, þá er það talið aðgengilegra. En hitt er rétt hjá hv. flm., að viss hluti þessara barna er þannig gerður, að það eru ekki líkur til þess, að gott sé að hafa þau með öðrum börnum, og þau börn er náttúrlega sérstaklega nauðsynlegt að einangra á slíkum heimilum sem þessum. Mér er kunnugt um, að fyrir Alþingi hafa verið lögð tilmæli frá barnaverndarnefnd og barnaverndarráði í sameiningu um, að þau fái fé til þess að ráða sérstakan mann, helzt sérfræðing í uppeldismálum og því, sem að þeim málum lýtur, til þess að flokka þau vandræðabörn, sem barnaverndarráð hefir afskipti af. Þetta segi ég í sambandi við það, að ekki má setja öll slík börn á uppeldisheimili fyrir vangæf börn. Ég álít rétt að byrja á þessu, því að það er ekki nægilegt að fá skýrslur um óknyttabörn, heldur þarf að hafa mann, sem er vanur að umgangast börn og kynnir sér eiginleika þeirra. Það þarf að athuga þessi börn og flokka þau, svo að þessi sérfræðingur geti sagt sitt álit um það, hverjar aðgerðir séu líklegastar til úrbóta í hverju einstöku tilfelli, því að hér er svo misjafnlega á komið, svo að það væri glapræði að hugsa sér, að eitt gilti í öllum tilfellum; sumt stafar af neyð og skorti, sumt af lausung og léttúð og sumt af því, að forustuna vantar, ef svo mætti segja, en það er að sjálfsögðu mesta glapræði að flokka saman og láta eitt ganga yfir öll þessi misjöfnu börn með þessa misjöfnu eiginleika.

Ég skildi hv. flm. svo, að hann liti svo á, að samkvæmt 3. gr. frv. væri ekki til þess ætlazt, að ríkið hefði verulegan kostnað af þessum aðgerðum umfram það, að koma upp þessum heimilum fyrir vangæf börn, því að í flestum tilfellum skildist mér, að annaðhvort framfærendur barnanna eða hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélög verði að greiða meðlag með börnunum. Þetta skilst mér vera fjárhagslega hliðin á málinu, og það verður athugað af nefndinni.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vil mæla með því, að frv. verði látið ganga til hv. allshn., eins og hv. flm. hefir lagt til, og fái þar beztu athugun og þær upplýsingar, sem barnaverndarráð og þeir, sem að þessu starfa, geta látið í té.