19.03.1937
Efri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í C-deild Alþingistíðinda. (2091)

69. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það, sem kom mér aðallega til að standa upp, var till. um það, í hvaða n. þetta mál ætti að fara. Hv. flm. sveigði nokkuð að vissum nefndarhluta í allsh. á síðasta þingi. Ég get að vísu tekið minn hluta af þessu, og gat ég ekkert að því gert, þótt honum líkuðu ekki mínar till. En hvað viðvíkur því, að málið hafi verið dregið á langinn, þá frábið ég mér það, að hafa orðið þess valdandi; það voru vitanlega stjórnmálaflokkarnir, sem ekki voru á því hreina, hvað gera skyldi. En ég vildi benda á, að ég álít, að þetta mál eiga miklu fremur heima í hv. fjhn. heldur en í allshn., þó að því væri vísað þangað í fyrra. Þetta stafar ekki sízt af því, að það mun nú vera ofarlega í einstökum mönnum hér, að fara eigi þá leið, að skipta að einhverju leyti milli ríkis og bæja um tekjustofna. Og ég er ekki fráleitur þeirri hugsun, að það geti komið til mála, að ríkið verði að láta eitthvað af þeim tekjustofnum, sem það nú hefir, beint til bæjanna. Ég álít, að það verði miklu hreinna og beinna að fara þá leið heldur en að hlaða sköttum á skatta ofan. Og ef menn yfirleitt vildu láta athuga þessa leið, þá liggur beint við, að málið eigi heima í fjhn., því að sú n. hefir til meðferðar öll skattamál. Ég get sagt það fyrir mitt leyti, að ég er andvígur þeirri stefnu, að leggja neyzlutolla á þær vörur, sem hvert mannsbarn í landinu verður að nota og getur ekki verið án. Hinsvegar hefi ég ekkert á móti því, að skattleggja ýmsar ónauðsynlegar vörur, og ég er ekkert frá því, að t. d. áfengisverzlunin gæti hækkað álagningu sína á vínum. Mætti þá ef til vill láta bæjar- og sveitarfélögin fá einhvern hluta þeirrar álagningar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta nánar, bendi aðeins á þetta og geri það að till. minni, að málinu verði vísað til fjhn.