20.03.1937
Efri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í C-deild Alþingistíðinda. (2149)

77. mál, sauðfjárbaðanir

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég get tekið fram, að ég er meðmæltur þessu frv. og tel það til bóta. Ég álít, að ekki komi til mála, að þetta frv., ef að l. verður, tefji á neinn hátt fyrir útrýmingarböðun, þegar fært er að láta hana fara fram. Kvað hv. flm. linlega að orði, en sagði, að frv. yrði engan veginn til að útiloka, að útrýmingarböðun færi fram. En ég lít svo á, að þetta frv. komi alls ekki í staðinn fyrir útrýmingarböðun, enda er gert ráð fyrir því, að stj. annist um það, strax og fært verður að láta útrýmingarböðun fara fram, þar sem mest er þörfin. Ég játa, að eins og sakir standa nú, er ekki fært að láta fara fram útrýmingarböðun á þessu svæði, sem Deildartunguveikin er að gera vart við sig.

Ég get tekið það strax fram, að ég álít, að þessi l. bæti að einu leyti um það ástand, sem nú er. Áður en l. um útrýmingarböðun gengu í gildi, greiddi ríkissjóður jafnan baðlyf í annað baðið, þar sem tvíbaðað var. En nú hefir ríkisstj. neitað að greiða nokkurn hluta baðlyfja, en samkv. 5. gr. er hér gert ráð fyrir, að framvegis skuli baðlyf greidd úr ríkissjóði, þar sem tvíbaðað er. Mér þykir þetta ekki nógu fast að kveðið og álít rétt að bæta því við þessa gr., að ákveðið nái einnig til þeirra, sem hafa orðið að tvíbaða á þessum vetri vegna fjárkláðans. Ég álít þetta mjög vel framkvæmanlegt, þar sem fyrir liggur í fjárl. þetta ár, að ég ætla, 24 þús. kr. til útrýmingarböðunar, og mætti taka þá upphæð, sem ekki er notuð í þeim tilgangi, til þess að greiða þetta. Þessu mætti koma þannig fyrir, að hreppsnefndir gefi vottorð um það til ríkisstj., að tvíböðun hafi farið fram, og gefi jafnframt upp fjártöluna á viðkomandi bæjum. — Ég vona, að landbn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, taki þetta til athugunar og reyni að kippa þessu í liðinn.

Þá vildi ég aðeins lauslega minnast á einstök atriði í frv. — Ég tel það líka til skaða í frv., að hreppsnefndir og bæjarstjórnir skuli eiga að skipa skoðunarmenn við fjárkláðann. Hingað til hefir það verið svo, að sýslumenn eða lögreglustjórar hafa skipað skoðunarmenn, og hreppstjórar hafa haft eftirlit með því, að skoðunin færi fram á réttum tíma, og ég held, að réttara sé að fela þeim þetta heldur en hreppsnefndunum. Aftur á móti sé ég ekkeri því til fyrirstöðu, að hreppsnefndir og bæjarstjórnir ráði þá menn, sem hafa eiga eftirlit með boðun í hverjum hreppi. — Þá tel ég það nauðsynlegt, að í 5. gr. sé ákveðin hámarksupphæð launa þeirra eftirlitsmanna, sem starfa að þessu, í staðinn fyrir að þar er talað um „hæfilega þóknun“, og svo ekkert sagt um það, hver eigi að meta hana. — Hér er talað um það, að eftirlitsmaður sá, sem um ræðir í l. um útrýmingarböðun, skuli skipa fyrir í þessu máli. En hver greiðir honum fyrir það starf hans“ Ég veit, að það er sýslusjóður, sem á að greiða honum fyrir útrýmingarböðun, en hver á að greiða honum fyrir þetta starf, sest ekki í þessu frv., en einhverja þóknun þarf hann að fá fyrir það. — Í 6. gr. er talað um, að tafarlaust skuli segja eftirlitsmanni frá því, ef vart verður við kláða. En hvaða eftirlitsmaður er það? Þeir eru nú orðnir margir eftirlitsmenn við útrýmingarböðun, við kláðaskoðun og við þrifabaðanir. En hér er ekkert talað um það, hvaða eftirlitsmanni skuli tilkynna þetta, og þyrfti því að vera skýrara tekið fram um það.

Ég hefi aðeins drepið á þessi atriði n. til athugunar, og vona ég, að hún taki uppástungur mínar til greina, því að ég tel þær heldur til bóta.

Ég sé það nú, að eftir þessu frv. eiga l. um útrýmingu að standa eins og áður hefir verið, og ég tel það sjálfsagt, að ef þetta reynist ekki fullnægjandi, sem ég því miður geri mér ekki vonir um, þá verði gripið til heimildarinnar, sem gefin er í þessum útrýmingarlögum, undir eins og fært þykir.