30.03.1937
Efri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í C-deild Alþingistíðinda. (2163)

92. mál, sókn í Laugarnesskólahverfi

*Flm. Magnús Jónsson):

Það hefir á undanförnum þingum verið fyrir þinginu frv. um prestakallaskipun og sóknarskipun í Reykjavík. Þau frv. hafa verið borin fram á þeim grundvelli, að dómkirkjan, sem er ríkiseign, yrði afhent söfnuðinum og söfnuðurinn tæki við kirkjunni með þeirri skyldu, að koma upp nægilegum kirkjum fyrir bæinn, og svo mælt fyrir, að bænum skuli skipt í allmargar sóknir og skipað í prestaköll. Þetta frv. er í tvennum skilningi allfrábrugðið þessum fyrri frv. Fyrst og fremst er það miklu minna. Það grípur aðeins niður á örlitlum parti þessa stóra máls. Hitt atriðið er, að það er byggt á reynslunni. Það hefir í einu og reyndar fleirum af úthverfum bæjarins verið hafið starf af áhugamönnum, til þess að koma upp prestsþjónustu á þessum stöðum. Þetta hefir aðallega verið gert á 3 stöðum, í Laugarnesskólahverfi, í Skerjafirði, kringum „Shell“, og vestur á Nesi, þar sem guðsþjónustan hefir verið flutt í skólahúsinu. Af þessum 3 stöðum hefir starfið fengið fastast form í Laugarnesskólahverfi. Þeir hafa fengið lánað skólahúsið, og þó með þeim skilyrðum, að allir þeir, sem þangað óskuðu að koma, fengju sér læknisvottorð. Þeir hafa ráðið til sín fastan prest, sem annast þar flest prestsstörf. Það hefir komið í ljós, að fólkið þarna hefir sýnt þessu starfi mikinn áhuga. Og það er í ráði að koma þarna upp bráðabirgðakirkju til þess að losna við þá kvöð, að þurfa að fá skólann lánaðan, sem ekki er fullkomið hús fyrir guðsþjónustu, og auk þess má fólk ekki koma þangað, nema það hafi læknisvottorð.

Það virðist liggja beint fyrir að halda því starfi áfram, sem áhugasamir menn hafa nú þegar hafið. Og það er orðið alveg óhjákvæmilegt að skipta hinum mikla fólksfjölda bæjarins niður í ákveðnar sóknir, því að jafnvel þótt prestarnir væru nógu margir, sem þó er ekki, þá gæti enginn prestur vitað, hver væri hans sóknarbörn, ef engin skipting væri. Það virðist liggja nærri að nota sér þá reynslu, sem fengin er, og þann áhuga, sem er vaknaður, til þess að byrja á þessari skiptingu Reykjavíkur í fleiri prestaköll.

Ég hefi farið svo varlega í þessu frv., að þar er ekki einusinni farið fram á að stofna sérstök prestaköll, heldur aðeins sóknir, sem gætu svo ráðið sér presta. Og það er vitanlega ekki hægt að skipta Reykjavík í prestaköll, fyrr en búið er að skipta bænum í sóknir, svo að hafilega margir komi í hvert prestakall. Ég geri ráð fyrir, að þessar sóknir hefðu 2–3 þús. manns. Vafalaust ættu prestaköllin að hafa fleiri meðlimi. Í þeim frv., sem áður hafa fram komið um þetta efni, hefir verið gert ráð fyrir 3 þús. meðlimum í hverju prestakalli. Til þess hinsvegar að þessi prestur hafi nægilegt starf — og það hefir hann í raun og veru, því að það er erfiðara að byrja starf í nýrri sókn — þá er svo ákveðið, að hann skuli verja þeim tíma, sem hann hefir afgangs, til þess að inna af hendi prestsþjónustu í öðrum úthverfum safnaðarins.

Þetta er nú önnur hlið málsins. Hin hliðin snýr að því, að koma upp kirkju. Ég geri ráð fyrir því, að þeir, sem sýnt hafa á þessu mestan áhuga, byrji á að koma upp bráðabirgðahúsum, án þess að ríkið leggi nokkuð fram. Hin eina ívilnun, sem veitt er, er sú, að gjöldin af þessum svæðum renna til hinna væntanlegu kirkna. Svo er gert ráð fyrir því, að þegar sóknarmeðlimir Laugarnessóknar koma sér upp væntanlegri kirkju, þá leggi sá núv. kirkjueigandi, þ. e. ríkið, fram nokkurn hluta. Hefir verið gert ráð fyrir 2/5, en hámarksupphæðin, sem sett er, eru 30 þús. kr., sem má gera ráð fyrir, að yrði að borga, því að sú kirkja myndi kosta það mikið. En til þess nú hinsvegar að gera þetta sem minnst tilfinnanlegt, þá er svo ákveðið, að þetta skuli greiðast á 10 árum. Má gera ráð fyrir, að það sé í lófa lagið að fá þetta fé í byrjun, ef það á að greiðast úr ríkissjóði.

Ég held, að ég eyði ekki fleiri orðum í að ræða þetta mál að svo stöddu. Óska ég þess, að málið fái að ganga til 2. umr. og n., sem ég veit þó ekki almennilega, hver ætti að vera. Það eru 2 n. til þess að velja á milli, allshn. og menntamn. Ég býst þó við að leggja til, að frv. verði vísað til menntmn., en geri það ekki að neinu kappsmáli.

Ég vil geta þess, að ég hefi heyrt, að nokkur hreyfing væri uppi hér í bænum um það, að fá 2 presta skipaða, auk þeirra, sem nú starfa við dómkirkjuna, án þess að þeim sé ákveðinn nokkur sérstakur verkahringur. Þeir hafa nóg starf. Það er fjarri því, að ég sé meinsmaður þess, heldur finnst mér það eðlilega , að þessi nýja sókn fái að kjósa sér prest, segi ég þetta, til þess að n. viti, að ég skoða þetta ekki sem neina skemmd á þessu frv.