24.03.1937
Efri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í C-deild Alþingistíðinda. (2173)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ég ætla ekki að fara út í málið sjálft eða ganga inn á þær ræður, sem hér hafa verið fluttar, því að til þess er ekki tími. Ég kveð mér eingöngu hljóðs til þess að bera af mér sakir.

Hæstv. ráðh. varð það á að fara ekki alveg rétt með orð mín. Og það var svo sem auðvitað, að hv. 4. þm. Reykv. mundi taka það eftir, sem miður mátti fara. Hann sagði, að ég hefði haldið því fram, að í stj. verksmiðjanna eins og nú er, ríkti óstjórn og ranglæti. Þetta er ranghermi. Ég hefi aldrei sagt neitt um það, og ég er viss, um, að þau orð, sem hv. þm. hefði eftir mér, standa ekki í handriti skrifaranna. En hitt sagði ég, að það ríkti tortryggni um þetta hjá þeim mönnum, sem væru utan Alþfl. Hvort sú tortryggni er á rökum byggð, hefi ég ekki sagt neitt um, en ég gæti kannske sagt eitthvað um það.

Þá spyr hv. þm., hvað hæstv. ráðh. hafi átt að gera, þegar enginn sjálfstæðismaður hafi viljað vera í stj. verksmiðjanna. Ég var ekkert að deila á ráðh., en sagði, að úr því að það tókst ekki, þá væri ástæða til þess að breyta l. um þetta. Annars get ég upplýst, að það var hægt að fá sjálfstæðismann til þess að taka sæti í stj.

Þar sem hv. þm. sagði, að aldrei hefði gengið betur rekstur verksmiðjanna en í ár, þá er því til að svara, að það hefir ekki í mörg ár verið eins hátt verð á síldarafurðum né aflinn eins mikill, og ætla ég, að það sé þyngst á metunum.

Loks sagði hv. þm., að ég flytti þetta frv. þvert ofan í gefin loforð. Ég vil upplýsa það, að ég hefi aldrei gefið nein loforð um að samþ. bráðabirgðal. óbreytt. Hitt hefi ég fallist á, að þau væru gefin út sem bráðabirgðaráðstöfun.