07.04.1937
Efri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í C-deild Alþingistíðinda. (2186)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég gat ekki mætt á síðasta fundi og hefi því ekki fylgzt með þeim umr., sem þar fóru fram, en skoðun mín á þessu frv. er óbreytt frá því við l. umr. — Um þær brtt., sem hér liggja frammi, sumpart sameiginlega frá hv. þm. S.-M. og hv. þm. N.-Ísf., og hinsvegar frá hv. 4. þm. Reykv., er það eitt að segja, að þær gera enga breyt. til bóta á frv., og að vísu heldur ekki til hins verra, ef svo mætti segja, þá er „jo galere, jo bedre“. Eins og ég sagði við 1. umr., þá er að minni hyggju tvímælalaust til óheilla fyrir þetta fyrirtæki, ef breytt er um stjórn þess á þann hátt og gert er ráð fyrir hér í frv., að kosning þingflokka á Alþ. verði ráðandi um stjórn verksmiðjanna. Það er enginn vafi á því, að hver sá ráðh., sem fer með þessi mál, mun gæta meiri varúðar um val manna en þingflokkarnir mundu gera við kosningu 12 manna ráðs. Það er rétt, sem hv. flm. sagði, að ástæða er til að reyna að gera stjórn verksmiðjanna sterkari og öruggari, en út frá mismunandi sjónarmiðum er það misjafnt, hvað talið er, að muni gera hana það. En ef að breyta á til um stjórnina, er eðlilegast, að sjómenn og verkamenn í landi leggi til menn þar, en ekki þm., eins og hér er gert ráð fyrir. Ég mundi heldur vilja ræða breyt. á skipun verksmiðjustjórnarinnar á þeim grundvelli en þessum, en þó álít ég fullt eins heppilegt, að ráðh. skipi stj.

Hv. 1. þm. Eyf. hélt því fram, að verksmiðjustjórnin hefði verið hlutdræg í atvinnuveitingum á Siglufirði. Ég hefi leitað mér upplýsinga um þetta síðan, og munu 2 fastir menn hafa verið ráðnir við verksmiðjurnar, síðan þessi stjórn tók við, og mun annar þeirra vera framsóknarmaður, en hinn jafnaðarmaður, en hvorugur þeirra mun vera neinn sérstakur bardagamaður í sínum flokki. Er þetta því alveg tilhæfulaus ákæra. Afstaða mín til þessa frv. er sú að eina rökrétta meðferðin á því sé að fella það. En fyrir Nd. liggur nú frv., sem gengur út á, að framlengd verði bráðabirgðal. frá í fyrra, og vil ég sjá, hvernig um hana fer, áður en ég geng inn á, að frv. eins og þetta verði gert að lögum.