14.04.1937
Neðri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2269)

119. mál, byggingar- og landnámssjóður

*Frsm. (Emil Jónsson):

Það hafa komið fram hér á Alþingi ýmsar till. um það, hvernig leysa beri þetta aðkallandi vandamál, endurbyggingu í sveitum landsins.

Eins og kunnugt er, þá hafa lögin um byggingar- og landnámssjóð átt mikinn þátt í að bæta úr þessu mikla vandamáli, og verður ekki annað sagt en að þau hafi að verulegu leyti náð tilgangi sínum, en nú sýnist sitt hverjum, hvernig máli þessu skuli skipað.

Í þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir og flutt er af meiri hl. landbn., er farið fram á, að byggingar- og landnámssjóður verði látinn nota heimild þá til lántöku, sem felst í 16 gr. l. nr. 35 7. maí 1928, til frekari lántöku en þegar hefir verið gert, til þess að framkvæmdir í byggingarmálum sveitanna geti orðið í stærri stíl en þær hafa verið til þessa. Lánsheimild sú, sem felst í 16. gr. nefndra l., er allt að 5 millj., en hefir ekki verið notuð nema að litlu leyti, því að skuld sjóðsins við Búnaðarbankann og ríkissjóð nemur ekki nema 1 millj. króna, eða minna en hreinar eignir hans eru taldar.

Þar sem stjórn byggingar- og landnámssjóðs hefir ekki farið lengra inn á lánabrautina en þetta, hafa hreinar eignir sjóðsins aukizt, og voru við síðustu áramót um 1,2 millj. Það verður því ekki annað sagt en sjóðurinn standi sig vel, og ætti því að vera óhætt fyrir hann að leggja út í víðtækari útlánastarfsemi, en til þess þarf hann að taka lán. Um þörfina fyrir aukinni útlánastarfsemi sjóðsins efast enginn, og má því til sönnunar geta þess, að ennþá eru eftir 3500 torfbæir í landinu, sem þarf að endurbyggja, því að takmarkið hlýtur að vera það, að útrýma þeim öllum. Árið 1920 er talið, að alls hafi verið 4700 torfbæir á landinu, en 1930 er tala þeirra komin ofan í 3400. Hafði þeim því fækkað um 130 á ári þann áratuginn. En nú þarf þessi þróun í byggingunum ekki aðeins að haldast áfram, heldur að aukast, en til þess að svo megi verða þarf að auka útlánastarfsemi byggingar- og landnámssjóðs, en til þess þarf hann aukið starfsfé. Til þess að auka starfsfé sjóðsins þarf engar lagabreytingar; það eitt dugir, að stjórnin noti heimild í lögum og taki nýtt lán til útlána. Menn kunna nú að segja, að það þýði ekki neitt, þó skorað sé á stjórn sjóðsins að taka nýtt lán í þessu skyni, — það fáist hvergi. En þetta er alveg sama og sagt var, þegar rætt var um byggingu verkamannabústaðanna, en eins og kunnugt er, greiddist úr því máli, og eins vænti ég, að geti orðið í þessu tilfelli.

Við flm. þessarar þáltill. þykjumst ekki hafa fundið neitt nýtt ráð til þess að bæta úr lánsfjárþörfinni og uppfylla þær kröfur, sem gerðar eru til sjóðsins, en við teljum, að sé horfið inn á þessa braut og fengið lán eins og til byggingar verkamannabústaðanna, þá megi ná töluverðum árangri í uppbyggingu sveitabýlanna.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara nú að ræða till. þær, sem komið hafa fram og snerta byggingarmál sveitanna, en ég vil eindregið óska þess, að till. okkar verði samþ., því að hún getur aldrei orðið til skaða fyrir þetta nauðsynjamál, en heldur til ávinnings.

*) stjarna (*) framan við nafn ræðumanns táknar, að ræðan sé prentuð eftir handriti innan þingsskrifara, óyfirlesin af ræðumanni.