05.03.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (2301)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

*Héðinn Valdimarsson:

Við fyrirspurn Sigurðar Eggerz 1928 komu fram svör Alþýðu- og Framsóknarflokksins um afstöðu þeirra til sambandsmálsins 1943. En fyrirspurn þessi var á þessa leið: Vill ríkisstjórnin vinna að því, að sambandslagasamningnum verði sagt upp eins fljótt og lög standa til, og í því sambandi íhuga eða láta íhuga sem fyrst, á hvern hátt utanríkismálum vorum verði komið fyrir bæði sem haganlegast og tryggilegast, er ver tökum þau að fullu í vorar hendur?

Hv. þm. G.-K. hefir lýst því, hve svör flokkanna hafi fallið, og sagt, að svör Íhaldsfl. og Framsfl. væru ótvíræð, en virtist véfengja svör Alþýðuflokksins.

Yfirlýsing Tryggva Þórhallssonar fyrir hönd Framsfl. var á þessa leið: „Ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn telur það alveg sjálfsagt mál, „að sambandslagasamningnum verði sagt upp eins fljótt og lög standa til“, og þar af leiðandi er ríkisstj. og flokkurinn reiðubúin „að vinna að því“. Ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn lítur svo á, að sambandslagasamningnum eigi að segja upp meðal annars til þess, að „vér tökum utanríkismálin að fullu í vorar hendur“, og þar af leiðandi er ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn reiðubúin til þess að „íhuga eða láta íhuga sem fyrst, á hvern hátt utanríkismálum vorum verði komið fyrir bæði sem haganlegast og tryggilegast, enda telur ríkisstj. sér skylt að gefa því máli alveg sérstakan gaum“. Er ekki um það að villast, að þessi svör eru skýr. En ég segi fyrir hönd Alþýðuflokksins, að við getum fallizt á svör Tr. Þ., það sem þau ná, en bæti við: „Að þessu leyti erum við samþykkir svörum hæstv. forsrh., en við vildum gjarnan bæta því við, að við erum þeirrar skoðunar, að konungssambandi milli Íslands og Danmerkur eigi að vera slitið að fullu, þegar það er hægt. Jafnframt vil ég beina þeirri fyrirspurn til annara flokka hér á þingi, hvort þeir séu mér ekki sammála um, að Ísland eigi sem fyrst að verða frjálst lýðveldi“.

M. ö. o., við föllumst alveg á afstöðu Tryggva Þórhallssonar, en við bætum því við, að konungssambandi eigi að slíta að okkar áliti þegar hægt er, og spyrjum, hvort aðrir flokkar vilji fylgja okkur í þessu. Sigurður Eggerz þakkaði Alþfl. og Framsfl. fyrir skýr stór, en færðist undan að svara spurningu minni. Hann segir svo: „Hitt atriðið, um stjórnarfyrirkomulagið eftir uppsögnina, lít ég svo á, að ekki sé hér til umræðu, og þó sambandslagasamningnum sé sagt upp, þá hefir það ekki áhrif á konungssambandið“.

Ég tel hinsvegar hæpið að halda konungssambandinu, ef engin önnur mál eru sameiginleg. Svar Alþfl. tók svo af skarið í þessu máli, að hinir flokkarnir treystust eigi til að svara nokkru af því. Ég vil taka þetta fram af því, að sumir þeir, sem áður börðust fastast gegn sjálfstæði landsins, eru að væna Alþfl. um óheilindi í þessu efni.

Hinsvegar var Sjálfstfl. þá ekki til í núverandi gervi, þótt ganga megi út frá því, að þingmenn flokksins hafi sömu skoðun nú og þá er hann hét Íhlaldsflokkur. Sama er að segja um Bændafl., þótt meðlimir hans hafi áður verið í Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum.

Ég er af öðrum ástæðum líka frekar með till. frá utanrmn. en till. frá hinum 3 sjálfstæðismönnum, því að hún gengur að sumu leyti lengra í praktíska átt. Þar er beinlínis gert ráð fyrir undirbúningi að uppsögn sambandsl., en aftur er í till. þeirra sjálfstæðismannanna, sem allur flokkurinn fylgir sennilega, aðeins gert ráð fyrir, að málið verði undirbúið fyrir næsta þing.

Að því er þennan undirbúning snertir verð ég að segja, að ég sé ekki, að hjá því verði komizt, að nokkur kostnaður fylgi slíkum undirbúningi, og er í sjálfu sér ekkert við því að segja.

Þá er talað um það í síðari hluta till. þeirra, að 4 manna n. skuli skipuð eftir tilnefningu frá miðstj. þingflokkanna, er geri till. til Alþingis um framtíðarskipun utanríkismála og um tilhögun atkvgr. samkv. 18. gr. sambandsl. En eftir gildandi l. á utanríkismn. að fjalla um þessi mál, og verður ekki framhjá henni gengið um það. Það eina, sem hægt væri að gera í þessu efni, væri að skipa sérstaka nú innan utanríkismn., til að fjalla um málið.

Ég get lýst yfir því sem minni skoðun, að hinir pólitísku flokkar hafa ekki aðeins rétt, heldur einnig skyldu til að taka afstöðu til utanríkismála. — Hv. 10. landsk. lýsti yfir afstöðu síns flokks til þessa máls og gat þess, að flokkurinn myndi hafa verið betur undir það búinn að taka afstöðu til till., ef hann hefði átt mann í utanríkismn. En ég vil minna hv. þm. á það, að meðan hann var ráðh., hafði Alþfl. ekki heldur atkv.magn til að eiga mann í þessari n. og átti þar fulltrúa aðeins af því að annar flokkur rýmdi til fyrir honum. Hið sama ætti að geta gilt um Bændafl. nú, og teldist hann þá ekki órétti beittur. Hinsvegar hefði ég ekkert á móti því, að hv. þm. sæti í utanríkismn., fremur en hver annar, og hvernig svo sem þeim málum lyktar, er sjálfsagt að hafa samvinnu við Bændafl. um lausn þessa máls. Hann er þingflokkur og á sína kjósendur, svo að taka verður tillit til hans um þetta mál, og mætti jafnvel í þessu efni leita álits fleiri flokka en Bændafl. En þessi atriði liggja nú til athugunar til síðari umr. Legg ég til, að málinu verði vísað til síðari umr. og utanríkismn., ég legg því til við hv. flm., að þeir taki aftur till. sína til síðari umr., svo að hægt sé að verða á eitt sáttir.