15.04.1937
Sameinað þing: 10. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (2316)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Utanrmn. hefir haldið fundi um þetta mál og er sammála um að afgr. það með till. þeirri, sem er á þskj. 215. Í þeirri till. er að nokkru leyti tekið tillit til þeirra till., aðaltill. og brtt., sem fyrir lágu, og er fullkomin umorðun á till. Í þessari till. er tekið upp það ákvæði, sem var í till. sjálfstæðismanna, að bæta því við upphaflegu till., þar sem eingöngu voru nefnd utanríkismálin, „að neyta uppsagnarákvæðis sambandslaganna og taka alla meðferð mála sinna í eigin hendur“. Er því þar með slegið föstu, að flokkarnir ætlist til, að svo verði gert, þegar tími vinnst til. Við framsóknarmenn höfðum ekki tekið þetta upp, af því að yfirlýsing lá fyrir um það frá flokknum, að svo yrði gert, og samskonar yfirlýsing lá fyrir frá hendi Alþfl. En þar sem þeir flokkar, sem myndaðir hafa verið síðan, vilja einnig láta liggja fyrir yfirlýsingar frá sér um þetta efni, vildum við ekki standa á móti þessari breyt. Það varð einnig að samkomulagi að láta utanrmn. fá þessa till. til meðferðar í staðinn fyrir að kjósa til þess sérstaka n. En þar sem n. leggur nú til, að till. verði breytt á þennan hátt, þá leggur hún til, að fyrirsögnin verði „till. til þál. um utanríkismál o. fl.“ Vil ég svo mælast til, að till. verði samþ.