15.04.1937
Efri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

*Magnús Jónsson:

Ég get verið sammála öðrum nm. um að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Fyrirvari minn snertir ekki efni frv., heldur form þess. Eins og hv. þm. sjá, er hér um bráðabirgðalög að ræða, sem lögð eru fyrir þingið til staðfestingar, en samt var frv. lagt fyrir í nokkuð annari mynd heldur en bráðabirgðalögin. Ég held, að þetta sé a. m. k. óvanaleg aðferð, þótt mér sé sagt, að slíkt hafi verið gert áður. Ég tel vafasamt, hvort það er heimilt að leggja bráðabirgðalög fyrir þingið í annari mynd heldur en þau voru gefin út í. Það stendur í stjskr., að bráðabirgðalögin skuli lögð fyrir Alþingi, en ekki eitthvert frv. um sama efni. Við athugun kemur í ljós, að þau bráðabirgðalög, sem hér er um að ræða, eru svo breytt í frv., eins og það er lagt fyrir þingið, að í rauninni má segja, að þetta sé annað frv. um sama efni. Ég ætla ekki að gera ágreining út af þessu; ég skrifaði undir nál. með fyrirvara aðeins af því, að ég vildi láta í ljós þá skoðun mína, að hér sé um óeðlilega aðferð að ræða, sem ekki ætti að tíðkast. Ef sá ráðh., sem gefur út bráðabirgðalög, vill fá þeim breytt, þá hefir hann alltaf nóg ráð til að fá frv. breytt í meðferð þingsins. Þessi bráðabirgðalög hafa ekki verið lögð fyrir þingið í frumvarpsformi, heldur aðeins sem fylgiskjal með frv. um sama efni, og ég tel mjög vafasamt, hvort það getur heitið að leggja þau fyrir Alþingi, eins og stjskr. heimtar. Bráðabirgðalög hafa að vísu lagagildi gagnvart öllum, sem við þau eiga að búa, en gagnvart Alþingi eru þau ekki nema frv., sem næsta þing á að taka til meðferðar til samþykkis eða synjunar. Og hafi þetta komið fyrir áður, þá er það fordæmi, sem ég álít ekki heppilegt að gera að venju.