06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (2462)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Jörundur Brynjólfsson:

Það er aðeins þingskapaatriði, sem ég vildi vekja máls á. Ég skildi ummæli hv. þm. A.-Húnv. þannig, að hann óskaði eftir, að atkvgr. yrði frestað um hans till., þar til við síðari umr., og að hann beindi þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann vildi verða við þeim tilmælum. Undir þeim kringumstæðum getur enginn þm. tekið upp slíka ósk. Það er mál milli flm. og forseta, hvort látið verður að þeim óskum.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Borgf. sagði, þá hefir það nokkrum sinnum borið við, þó að tvær umr. hafi verið ákveðnar um till., að frestað hafi verið hinni fyrri umr., ekki sízt ef mikill ágreiningur hefir verið um efni sjálfrar till.

Það hefir stundum borið við, og það ekki mjög sjaldan, að umr. hafi verið frestað og málinu vísað til n. í því skyni að koma í veg fyrir, að sá ágreiningur gæti orðið þess valdandi, að till. væri felld við fyrri umr. í því formi, sem hún er borin fram í. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að umr. sé þannig hagað um mál, og ég hygg, að það sé hyggilegt, þegar skoðanir eru mjög skiptar um einhver atriði málsins, en menn eru samt sammála um, að málið nái fram að ganga í einhverri annari mynd.