20.04.1937
Sameinað þing: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (2497)

162. mál, dánarbætur o. fl.

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það er rétt, að það verður ekki í öllum atriðum formleg afgreiðsla að samþ. þáltill. til þess að greiða út dánarbætur, sem lög mæla fyrir, en hér stendur sérstaklega á, því að það er komin yfirlýsing frá öllum flokkum um, að það hafi verið af vangá við setningu alþýðutryggingarlaganna, að felldar voru niður dánarbætur til foreldra, sem misstu sonu sína í slysum, nema undir þeim einum kringumstæðum, að foreldrarnir væru á framfæri þeirra. Það kom fyrst fram frv. um þetta, sem ég og fleiri flokksbræður mínir bárum fram, og síðan hafa komið fram enn fleiri samskonar, með dálítið mismunandi upphæðum. Það má því fullyrða, að það sé vilji allra flokka í þinginu, að þetta fáist leiðrétt og því komið í sama horf og var í löggjöfinni áður, og þar sem sýnt er, að ekkert af þessum frv. nær fram að ganga, ættu menn að sameinast um það hér í þinginu að koma málinu samt sem áður á framfæri með þessari till., sem ætti að geta verið nægileg til þess að heimila stjórn tryggingarstofnunarinnar að greiða þessar upphæðir til þeirra foreldra, sem hafa misst syni sína af slysförum síðan lögin gengu í gildi. Hvað sem líður formlegum ástæðum, tel ég nóga heimild til þess, að þessar greiðslur mættu eiga sér stað, því að það má telja gefið, að hér að lútandi lagabreyt. verði gerð á næsta þingi.