14.04.1937
Neðri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (2530)

117. mál, hús á þjóðjörðum

Flm. (Sigurður Einarsson):

Þessi till. til þál. er flutt vegna þess, að ég hefi orðið þess var, að fjölmargir landsetar á þjóðjörðum telja sig standa verr að vígi en marga aðra um það, að geta haldið uppi nauðsynlegum húsabótum á jörðum sínum og fá aðstöð til þeirra. Með l, sem sett voru 1936 um jarðakaup ríkisins, er það ákveðið, að leggja skuli í jarðakaupasjóð ríkisins öll afgjöld af núv. þjóðjörðum og kirkjujörðum. Að vísu höfðu þessi afgjöld, eins og þau eru ákveðin í byggingarbréfum jarðanna, ekki skilað sér til fulls, því að allmikið mun hafa verið að því gert, að menn fengju að vinna af sér jarðarafgjaldið með umbótum á jörðinni. Og í þessum sömu lögum frá 1936 er það alveg ákveðið, hvernig fé jarðakaupasjóðs skuli varið, og það er ekki heimilt að verja því, og ekki heldur þessu eftirgjaldi eftir þjóð- og kirkjujarðir, öðruvísi en þar segir. Það er m. ö. o. útilokað, að þessu fé, sem er að sumu leyti tekjur hins opinbera af þeim jörðum, sem það á, megi verja á annan hátt en í lögunum segir, eða til umbóta á jörðunum sjálfum. Og nú er hvergi annarsstaðar gert ráð fyrir neinni heimild til fjárveitinga til endurbyggingar eða nauðsynlegra húsabóta á þjóðjörðum og kirkjujörðum, og stundum, þegar þetta hefir verið komið í mjög mikið óefni og landsetarnir hafa verið svo staddir um húsakost, að það mátti heita óviðunandi, en hafa ekki haft bolmagn til þess að bæta úr þessu af eigin rammleik, hefir kirkjujarðasjóður verið látinn hlaupa undir bagga. Það, sem farið er fram á með þessari till., er ekki annað en það, að hv. Nd. Alþingis beini þeirri áskorun til hæstv. landbrh., að hann athugi þetta mál gaumgæfilega, því að það er óviðeigandi, að ríkið geri verr við sína landseta en aðrir fyrir þá sök, að afgjaldstekjum jarðanna er varið í öðru skyni en gera ber. En ég hefi grun um það af viðtali við þann mann í stjórnarráðinu, sem hefir haft með þessi mál að gera undanfarin ár, að örðugleikarnir séu farnir að steðja nokkuð fast að í þessum efnum.

Ég vil svo vænta þess, að hv. d. geti fallizt á þessa þáltill., og það því fremur, sem l. um endurbyggingu sveitabýla og einnig önnur l. um sama málefni, byggingarsjóð sveita, eru allskammt komin áleiðis í þinginu og því ekki líklegt, að þau nái fram að ganga á þessu þingi, þar sem skammt mun vera til þingloka.