01.04.1937
Sameinað þing: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (2540)

23. mál, uppbót á bræðslusíldarverði

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég skal ekki mæla því í gegn, að þessi till. fái að ganga til fjvn. til athugunar. En ég get sagt það strax við þessa umr., að ef ekki kemur eitthvað nýtt fram í þessu máli, sem mér þykir ólíklegt, að verði, þá mun ég greiða atkv. gegn því, að till. verði samþykkt.

Það hefir oft verið mikið um það rætt, bæði hér á þingi og utan þess, hvort fylgja bæri þeirri reglu um greiðslu fyrir síld til verksmiðjanna, að greiða einhvern ákveðinn hluta út af sannvirði síldarinnar og bæta svo upp eða draga frá, þegar útkoman sýndi sig, eða hvort hin leiðin skyldi farin, að greiða fastákveðið verð. Í l. um síldarbræðslu er gert ráð fyrir því sem aðalreglu, að síldarframleiðendur fái það raunverulega verð, sem síldin gefur. og að ekki sé borgað út nema ákveðinn hundraðshluti. Ég hygg, að þetta sé frá þeim tímum, þegar verksmiðjurnar voru færri en þær eru nú, því að það liggur í augum uppi, að allur þorri viðskiptamanna verksmiðjanna vill heldur og þarf heldur að vita nokkurnveginn með vissu þegar í byrjun síldveiðinnar, hvaða verð fæst fyrir síldina, en taka lægri útborgun og eiga svo í óvissu, hvað verður. Enda hefir það verið svo öll árin, sem síldarverksmiðjurnar hafa starfað, að einu undanteknu, að ekki hefir þótt annað fært en fá borgað fastákveðið verð. Ef sú leið er upp tekin, að greiða allan afgang, þegar vel árar, sem uppbót á upphaflega verðið, hlýtur óhjákvæmilega afleiðingin af því að vera sú, að þegar lakar gengur, verður að krefja aftur það, sem ofborgað var. — Á þessu eru tveir gallar. Í fyrsta lagi sá, að innheimtan yrði óviss, að ég ekki segi ómöguleg. En hinn gallinn er aftur sá, að til slíkrar endurgreiðslu kæmi einmitt, þegar verst árar. Útkoman yrði því sú, að þau árin, sem lakast gengi, þá yrði ekki aðeins lágt verð útborgað, heldur gæti einnig komið til þess, að einhverju af því þyrfti að skila aftur. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að mönnum þykir betra að hafa eitthvað víst verð til þess að halda sig að en eiga allt í óvissu með það. Og með fjölgun annara síldarverksmiðja, sem keppa um að borga sem hæst verð, þá standa ríkisverksmiðjurnar enn verr að vígi með að greiða ekki ákveðið verð.

Ég fæ ekki betur séð en að ef þessi till. verður samþ., þá verði horfið að því, sem ég tel miður farið, að í stað þess að greiða fast verð og jafna þannig milli ára, þá eigi að slá því föstu hér, að borga það, sem umfram verður, þegar vel gengur, en koma svo með óvissar kröfur á útvegsmenn, þegar illa gengur. Nú segja menn, að setja megi verðið svo lágt, að ekki komi til endurgreiðslu. En yrði t. d. útborgað 20 % hærra hjá öðrum síldarverksmiðjum, þá myndi tiltölulega lítið fást í ríkisverksmiðjurnar, og það yrði það mesta tjón, að fá ekki nóg að starfa, og gæti það orðið nóg til þess að skapa illa útkomu.

Ég get ekki neitað því, að þegar ég fyrst sá þessa till., fannst mér margt myndi þar mjög af handahófi sett um verðlag o. fl. En ég sé, að hv. flm. hefir aflað sér ýmissa gagna, sem ég er ekki viðbúinn að ræða, hvað kunna að vera ábyggileg. En svo mikið veit ég, þó að niðurstaða hans hafi orðið sú, að verksmiðjurnar ættu að hafa haft 374 þús. kr. afgangs umfram það, sem síldarverksmiðjustj. áætlaði, að hvað sem þessu kann að líða, þá er útkoman hjá verksmiðjunum ekki neitt svipað þessu góð. Reikningar verksmiðjanna hafa ekki verið gerðir upp, og er ekki hægt að segja með neinni vissu, hver útkoman verður, vegna þess að ennþá eru óseld 30 tonn af karfalifrarlýsi. Það hafa verið seld 20 tonn, en ekki tekizt að fá viðunanlegt boð í þessi 30, sem eftir eru. Það er því í óvissu, hversu mikið fæst fyrir þessar birgðir, sem óseldar eru af karfalýsi. Sé reiknað með 4 þús. kr. á tonn, sem ég veit þó ekki, hvort fæst, þá nemur það 120 þús. kr., þannig að verðbreyting á þessari voru getur haft mikil áhrif á afkomu verksmiðjanna.

Samkvæmt gögnum, sem ég hefi frá stj. síldarverksmiðjanna, hefir hagnaður af rekstri verksmiðjanna verið um 200 þús. kr., auk lögboðinna gjalda. En nú er þess að gæta, að árið 1935 var erfitt ár. Þá var étinn upp varasjóður verksmiðjanna og, að því er ég ætla, yfirfært yfir á þetta ár um 50 þús. kr. Auk þess hefir verið óhjákvæmilegt að leggja stórfé til ýmsra breytinga og endurbóta á verksmiðjunum. Í sambandi við karfavinnsluna á Sólbakka hefir orðið að leggja fram mikið fé til þess að gera verksmiðjuna starfhæfa fyrir karfavinnslu. Á Raufarhöfn hefir orðið að leggja fram mikið fé til þess að endurbæta verksmiðjuna, sem var í hinni mestu niðurníðslu, þegar hún var keypt. Þá varð verksmiðjan á Siglufirði dýrari en áætlað hafði verið, og fór kostnaðurinn fram úr því láni, sem tekið hafði verið. Auk þess hefir það sýnt sig, að gera þarf verulega aukningu á afkostum verksmiðjanna og endurbæta bræðslutækin, sem allt saman kostar mikið fé. Ég held því, að það væri ákaflega óráðlegt að ætla að fara að krefja aftur af síldarverksmiðjunum þann afgang, sem þær kunna að hafa haft á liðnu ári. Og ég held, að það sé miklu betur tryggður hlutur sjómanna með því, að þetta fé sé lagt í það að bæta aðstöðuna vil vinnsluna og gera breytingar á verksmiðjunum til þess að auka afköstin. Á þann hátt er sjómönnum og viðskiptamönnum verksmiðjanna mestur greiði gerður.

Á meðan síldarverksmiðjur ríkisins eru hlutfallslega svona stórar, miðað við aðrar verksmiðjur, þá hljóta þær að hafa mikil áhrif á verðlag á síld. Ef þær eru illa staddar og ekki nægjanlega vel útbúnar, þá verður það til þess að lækka síldarverðið í heild sinni. Það er því skylda verksmiðjustj. að reyna að hafa síldarverksmiðjur ríkisins eins vel eða betur útbúnar en aðrar verksmiðjur á landinu.

Mér telst svo til, að ef endurgreiða ætti þessa 70 aura á mál til sjómanna og síldareigenda, þá færi til þess nokkuð meira en allur afgangur á rekstrinum síðasta ár, svo að verksmiðjurnar þyrftu þá enn að ganga á sjóði sína til þess að geta gert þetta, og yrði þá að sjálfsögðu að skjóta á frest a. m. k. einhverjum nauðsynlegum framkvæmdum til endurbóta og aukningar á vinnslugetu verksmiðjanna. Aðalatriðið í þessu sambandi er vitanlega það, að ef sú regla er tekin upp nú, að greiða þann afgang, sem vera kann, þegar vel arar hjá verksmiðjunum, til síldareigenda, þá er óhjákvæmilegt, að það verði einnig að krefjast endurgreiðslu, ef svo fer, að illa árar og of mikið hefir verið borgað út, og láta sjómenn og síldareigendur skila aftur af því verði, sem þeim var greitt, en ég hygg, að fæstir teldu það heppilegt, hvorki fyrir útveginn í heild né heldur fyrir síldarverksmiðjurnar sem slíkar. En mér leikur hugur á í sambandi við þessa till. að grennslast eftir því, hvort þessir ágætu vinir síldareigenda og sjómanna hafa gleymt síld, sem sett var í bræðslu, en ríkisverksmiðjurnar hafa ekki tekið við. Ég ætla, að sá hluti bræðslusíldar, sem fór í aðrar verksmiðjur, sé töluvert meiri en það, sem ríkisverksmiðjurnar hafa tekið á móti, en það lítur út fyrir, að þessir menn hafi gleymt því, að það eru líka sjómenn og síldareigendur, sem hafa selt þá síld, og ef þeim hefir verið vangoldið af ríkisverksmiðjunum, þá er ástæða til að ætla, að þeim hafi einnig verið vangoldið af eigendum annara síldarverksmiðja. Ég vil spyrja hv. flm., hvort það sé ekki ætlun þeirra, ef það yrði ákveðið, að ríkisverksmiðjurnar endurgreiddu uppbót á bræðslusíldarverðinu, að setja ákvæði um, að aðrar síldarverksmiðjur skuli gera slíkt og hið sama, eða hvort þeir telja síður ástæðu til þess.

Inn í þessar umr. hefir blandazt kaup á síldveiðum. Það er náttúrlega auðvelt að reikna það út, því að sennilega yrði sama uppbót á mál eins og hér er gert ráð fyrir, en auk þess ber að gæta þess, að mikill hluti sjómanna er ráðinn upp á vissa „premiu“ af aflanum, og það er ástæða til þess að ætla, að þegar sú „premía“ er ákveðin, þá sé það gert með hliðsjón af því síldarverði, sem er á þeim tíma, sem samningar eru gerðir. Eigi síldarverðið að hækka með þessari uppbót, þá er það sjálfsögð krafa, að „premía“ þeirra sjómanna, sem voru á síldveiðum, eigi að hækka hlutfallslega. Ég fæ ekki annað séð. Ég vil mega að óreyndu vænta þess, ef hv. flm. halda fast við sína till., að þeir bendi á einhverja leið til þess að rétta hlut þeirra sjómanna, sem voru á síldveiðum og voru svo lánsamir eða ólánsamir að selja öðrum verksmiðjum en verksmiðjum ríkisins, og reyni að sjá um, að þeir fái einnig endurgreidda uppbót; t. d. að því er snertir verksmiðjuna í Krossanesi, fæ ég ekki seð, hvernig hægt er að ná þessu, en sjálfsagt mætti reyna þá leið, ef viðleitni er fyrir hendi hjá hv. flm. að láta jafnt yfir allir verksmiðjurnar ganga.

Að lokum vil ég geta þess, að mér er sérstakt ánægjuefni að geta skýrt frá því, hversu vænlega hefir gengið tvo síðustu ár með síldarútveginn og hversu vel horfir með hann nú. Ég man ekki hefur en að 1933 og 1934 hafi verið greiddar 3 kr. fyrir hvert síldarmál; 1935 voru greiddar 4,50 fyrir síldarmál og 1936, eða síðasta ár, voru greiddar 5,30. Ég verð að segja, að þetta bendir til þess, að auk batnandi markaðshorfa sé hér verið á réttri leið, og því ber að fagna. Nú horfir svo með þessar fyrirframsölur, sem gerðar hafa verið, að enn má auka verulega síldarverðið á bræðslusíld á þessu ári frá því, sem það var á síðasta ári, og það er fullkomin ástæða til þess að fagna því, en þá er líka sjálfsagt að vera við því búinn eftir bestu föngum, með tækjum og vinnubrögðum, að geta mætt síldinni, þegar hún kemur, og hagnýtt hana sem bezt.

Út af því, sem haldið hefir verið fram af hv. frsm. og oft verið fullyrt í blöðum sjálfstæðismanna, að síldarverksmiðjustjórnin hafi ætlað sér að hafa verðið á bræðslusíld það sama í sumar og árið 1935, eða 4,50, og að það hafi verið ýmsir sjálfstæðismenn, sem hafi skapað það verð, sem fékkst síðastl. sumar, vil ég taka það fram, að það var ákveðið, áður en ég fór af landi burt síðastl. vor, í samráði við síldarverksmiðjustjórnina, að verðið á bræðslusíldinni skyldi verða á milli 5 kr. og 5,50 kr. Eftir að ég kom heim aftur, varð niðurstaðan sú, að verðið var ákveðið 5,30 kr., og stóð það ekki í neinu sambandi við það brölt og þau læti, sem vissir menn voru með á síðastl. vori og ég hygg, að hafi verið eingöngu í þeim tilgangi að valda örðugleikum með truflun á atvinnulífinu.

Ég get svo látið útrætt um þessa till. Ég skal, eins og ég hefi áður sagt, ekki mæla því í gegn, að málið fari til hv. fjvn., en ef ekki verður gerð grein fyrir því, að til þess sé ætlazt, að aðrar verksmiðjur greiði sömu uppbót og hér er farið fram á, að síldarverksmiðjur ríkisins greiði, þá sé ég mér ekki fært að greiða atkv. með till.