06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (2583)

104. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

*Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Það er ekki í fyrsta skipti, sem till. svipuð þessari hefir komið hér fram, því að á þingi 1933 flutti ég ásamt fleirum slíka till. Ætla ég mér ekki nú að taka upp það, sem ég sagði þá, nema að litlu leyti, til þess að tefja ekki tíma þingsins.

Ég vil taka það fram vegna þess, sem stendur í grg„ þar sem áætluð er tekjulækkun útvarpsins, ef till. verður samþ., að sú áætlun er allt of há. Tekjulækkunin mundi sennilega ekki verða nema 25–28 þús. kr.

Í öllum nálægum löndum er afnotagjaldið miklu lægra heldur en hér. Það er t. d. í Danmörku ekki nema 5–10 kr., í Englandi 10 sh. og í Noregi 20 kr., og jafnvel nýskeð verið lækkað lítið eitt. Hér hjá okkur eru greiðslumöguleikar hjá mörgum útvarpsnotendum heldur litlir, og hefði vel mátt koma til mála, ef fjárhagur útvarpsins hefði verið þannig, að lækka gjaldið hjá öllum. En eins og ég hefi áður haldið fram, þá er aðstöðumunurinn geysimikill hjá þeim, sem hafa straumtæki, og þeim, sem rafhlöður hafa. Það hefir að vísu verið nokkuð um það deilt, og skal ég ekki fara að þjarka um þá hluti, nema tilefni gefist til, en ég tel, að raunin sé ólýgnust, og alstaðar þar, sem hægt er að koma straumtækjum við, eru þau notuð. Sýnir það greinilega, að menn telja sér straumtækin hagkvæmari og ódýrari heldur en rafhlöður.

Ég sem sagt ætla ekki að fara mörgum orðum um þessa till., nema tilefni gefist til, en ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til fjvn. og síðari umr.