06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (2588)

124. mál, Vestmannaeyjahöfn

*Páll Þorbjörnsson:

Hv. þm. Vestm. hefir sízt tekið hér of djúpt í árinni, því að verði hér ekki úr bætt, þá koma mannvirkin innan hafnar, sem kostað hafa mörg hundruð þúsund krónur, að litlu gagni. Flutningaskip eiga jafnan hættu á töfum. eins og nú hagar til, og fást varla til að koma til Eyja lengur, og auk þess stafar fiskiflota Eyjamanna sjálfra bein hætta af þessu ástandi.

Vestmannaeyingar eiga nú dýpkunarskip, en sá hængur er á, að það hefir engan pramma til að koma sandinum frá, heldur hafa verkfræðingarnir orðið að láta dæla honum út fyrir hafnargarðinn. Ég held, að þetta fyrirkomulag hafi ef til vill orðið til þess, að sandurinn hafi borizt inn aftur. Mér er kunnugt um, að leitað hefir verið til hafnarnefndar Reykjavíkur um lán á pramma, en borizt neitandi svar. Úr þessu þarf nauðsynlega að bæta.

Ég vil beina því til fjvn., að hún athugi sem fyrst, hvort áætlun sú, er vitamálastjóri hefir gert um kostnað við verkið, fái staðizt, þar sem framkvæmd þess þolir enga bið.