20.04.1937
Sameinað þing: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (2594)

133. mál, berklavarnagjöld

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Það er nú orðið svo liðið á þingtímann og svo takmarkaður umræðutími líklega í hverju máli, sem nú er á dagskrá, að ég vil ekki lengja mál mitt um of með framsöguræðu fyrir þessari till., en hún er í rauninni í samræmi við þann vilja, sem á undanförnum þingum hefir komið frá þm. svo að segja úr öllum flokkum, um að fella niður skyldu til greiðslu úr sýslusjóðum og bæjarsjóðum í ríkissjóð vegna berklavarna. Nú er svo komið, eins og menn vita, að það eru önnur lög komin í gildi um þetta efni, og sýslu- og bæjarfélögin eiga nú ekki að greiða þetta gjald beinlinis í ríkissjóð, en aftur á móti verður hreppunum gert það að skyldu, og er þegar gert það að formlegri skyldu, að greiða undir vissum kringumstæðum mikil gjöld til framfærslu berklasjúklinga. Þessi till. fjallar aðallega um það, að látin sé falla niður innheimta berklavarnagjaldanna á síðasta ári, sem er síðasta árið, sem þessi gjöld sýslu- og bæjarsjóða eiga sér stað, enda er meginið af þeim nú ógreitt; það eru örfá héruð, sem hafa greitt sín gjöld fyrir 1936. Þetta er því fremur réttlætanlegt sem útlit var fyrir það nýlega hér í þinginu, að ekkert mundi ná fram að ganga af þeim till. og frv., sem fjölluðu um öflun tekjustofna handa héruðum. Það má því ekki minna vera en að það sé kannað hér á þinginu, hvort menn vilji ekki í þessu tilfelli hlynna að sýslu- og bæjarsjóðum á þennan hátt. — Það væri ástæða til að rekja málið frekar, en ég vil hlífa hæstv. forseta og hv. þm. við því vegna tímaskorts. Ég vil aðeins geta þess, eins og ég sagði áðan, að af öllum héruðum landsins, bæjum og sýslum, eru það aðeins 4 eða 5 héruð, sem hafa greitt þetta gjald fyrir síðasta ár, og eins og mönnum er kunnugt, eru nokkur héruð, sem skulda þetta gjald frá eldri tímum og ekki er neitt útlit fyrir, að geti greitt þessi gjöld sín. Það er því ranglæti að ætla að skylda héruðin til þess að greiða þessi gjöld, því að þótt sumar sýslurnar hafi reynt að standa í skilum framar öðrum, þarf það ekki að vera og er yfirleitt ekki vegna þess, að hrepparnir þar standi betur en annarsstaðar, heldur veldur hver á heldur innheimtu og meðferð fjármála. Eftirstöðvar héraðanna frá fyrri árum eru nærri 60000 kr., sem væntanlega aldrei koma og aldrei verða leiðrétt nema með því að láta niður falla innheimtu þessa síðasta árgjalds frá öllum héruðum, og verður það þó ekki leiðrétt til fulls. Það eru 4–5“ — eða aðallega 4 — héruð, sem fengju sínar greiðslur endurgoldnar, ef þessi till. yrði samþ. Ég vil svo mælast til þess, að till. verði samþ. við þessa umr. og vísað til hv. fjvn., því að hún heldur fund í dag, og ég talaði við hv. fjvnm. um það, að ef till. kæmist gegnum þessa umr., þá yrði hún tekin til athugunar í nefndinni.